Þjóðleikhúsið frumsýndi í gær á stóra sviðinu leikritið Útsendingu sem Lee Hall vann upp úr handriti Paddys Chayefsky að kvikmyndinni Network frá 1976. Leikstjóri Útsendingar er Guðjón Davíð Karlsson, Kristján Þórður Hrafnsson þýðir en Egill Eðvarðsson á heiðurinn af viðamikilli og glæsilegri leikmyndinni sem sýnir okkur króka og kima sjónvarpsstöðvar auk einkaheimila. Helga I. Stefánsdóttir klæðir persónurnar í viðeigandi búninga frá áttunda áratugnum og Halldór Örn Óskarsson lýsir herlegheitin sem ekki er vandalaust.
Howard Beale (Pálmi Gestsson) hefur verið fréttamaður á sömu sjónvarpsstöðinni í aldarfjórðung þegar honum er sagt upp vegna lélegs áhorfs. Við fáum að sjá Howard í vinnunni áður en hann fær skellinn og það er ekki mjög spennandi sjón. En hann verður fjúkandi reiður og sár við uppsögnina og tilkynnir í næsta fréttatíma að lífi hans sé í raun lokið úr því hann missi starfið og hann ætli að kveðja það og áhorfendur sína með því að skjóta sig í beinni útsendingu. Maður gengur nú undir manns hönd til að telja honum hughvarf og niðurstaðan verður sú að hann fær sérstakan kveðju-fréttatíma til að koma kurteislegri og virðulegri orðsendingu til sinna. En Howard hefur annað í hyggju en kurteisi og virðuleika, hann flytur löndum sínum eldmessu um hve ógeðslegt þjóðfélagið sé – og svo fer að hann endurtekur þá messu með tilbrigðum næstu vikur. Því áhorfendur verða hugfangnir af þessum eldspúandi spámanni og yfirmenn sjónvarpsins með hina djörfu Díönu Christensen (Birgitta Birgisdóttir) í broddi fylkingar eru fljótir að sjá peningavon í nýjum stíl hans. Þess vegna hirða þau líka lítt um smáatriði eins og það að Howard er greinilega orðinn illa veikur á geði.
Leikritið er samfelldur áróður gegn fjöldamenningu og sambandi auðvalds og fjölmiðla og einbeitir sér eðlilega að sjónvarpinu sem var lágkúrulegasta birtingarmynd þess á ritunartíma verksins. Auðvaldið nýtir sér möguleika miðilsins til að ná heljartökum á fólki með hámarksgróða að sínu eina markmiði. Sjónvarpið skipar ekki lengur fremsta sætið í þessu stríði og ekki veit ég hvað Paddy Chayefsky myndi segja um netið á okkar dögum, samfélagsmiðlana og allt sem þeim fylgir. Það yrði væntanlega ennþá öflugri eldmessa.
Pálmi Gestsson er frábær í hlutverki Howards Beale og heldur sýningunni uppi frá byrjun til enda. Hann hefur aldrei verið betri og ég fagna því að hann skyldi fá þetta tækifæri til að skína. Flestar senurnar í sjónvarpshúsinu eru tvöfaldar, niðri á sviðinu er manneskjan, lítið peð við borð eða á vappi, en yfir sviðinu er risaskjár þar sem við sjáum andlitin í nærmynd. Pálmi þarf að sýna endalaus tilfinningaviðbrögð og svipbrigði sem eru mögnuð upp hundraðfalt (eða meira?). Hann ER í rauninni sýningin þó að fjöldi persóna sé í verkinu og hann hélt manni gersamlega gagnteknum.
Í aukaplotti eru ástir á vinnustað lítillega teknar fyrir þegar þau slá sér upp Díana og fréttastjórinn Max (Þröstur Leó Gunnarsson). Þegar Max segir konu sinni Louise (Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir) frá framhjáhaldinu vísar hún honum á dyr. Hjónabandinu er hent á haugana þrátt fyrir langa reynslu, rétt eins og Howard fréttamanni. Þau Birgitta, Þröstur Leó og Steinunn Ólína gerðu ágætlega en efnið fékk ekki mikið pláss. Sama má segja um sviðsfólkið á sjónvarpsstöðinni, Hallgrím Ólafsson, Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, Arndísi Hrönn Egilsdóttur, Eddu Arnljótsdóttur og fleiri, þau gerðu sviðsmyndina sannfærandi og bættu iðulega kómík í verkið sem ekki veitti af. Hildur Vala Baldursdóttir var röggsamur hryðjuverkamaður. Yfirmennina léku þeir Atli Rafn Sigurðarson, sem tók verulega á í vanþakklátu hlutverki, Sigurður Sigurjónsson og Örn Árnason, en mestur gustur stóð af „stóra kallinum“, Jensen sjálfum, sem Arnar Jónsson setti eftirminnilegan svip á. Samtal Howards og hans er áhrifamesta atriði kvöldsins því þar verður verkið dýpst.
Þýðing Kristjáns Þórðar rennur vel og hljómar yfirleitt sannfærandi. Þó hefðu kannski mátt vera meiri blæbrigði í bölvinu, ragninu og skítkastinu. Hljóðmyndin var afar fjölbreytt eins og vænta má, þar ægði saman hljóðum og hljómum, meðal annars úr tónlist áttunda áratugarins, um leið og myndbönd runnu yfir skjáinn. Ábyrg fyrir tónlist og myndböndum eru Eðvarð Egilsson, Aron Þór Arnarsson, Kristján Sigmundur Einarsson og Ólöf Erla Einarsdóttir.
Ég hef aldrei séð upprunalegu bíómyndina og ekki hef ég heldur séð sýninguna á þessu verki sem hefur gengið við miklar vinsældir austan hans og vestan undanfarið. Ég fann dálítið til þess að verkið væri helst til gamalt til að hafa verulega þýðingu í samtímanum – svo hrikalega margt hefur gerst síðan Howard Beale tók sér spámannshlutverk – en það er sannarlega gaman að sjá og heyra Pálma Gestsson messa.