Akureyri var alveg eins og túristapóstkort um helgina, hvít jörð, heiður himinn, logn og vægt frost, enda var hún að taka á móti mannfjölda að sunnan til að sjá nýja og nýstárlega uppsetningu á klassísku verki eftir einn frægasta Akureyringinn, Gullna hliðinu eftir Davíð Stefánsson. Einn af leikstjórunum okkar sem hefur gert það gott erlendis undanfarin ár, Egill Heiðar Anton Pálsson, á heiðurinn af uppsetningunni ásamt Agli Ingibergssyni sem hannaði leikmynd og lýsingu og á geysistóran þátt í hvað sýningin er hugvitssamleg og skemmtileg. Ágæta búninga gerði Helga Mjöll Oddsdóttir.
Íslendingar hafa lengi haldið sérkennilega mikið upp á þjóðsöguna um kerlinguna sem setti poka fyrir vit mannsins síns þegar hann var að drepast til að veiða sálu hans, arkaði svo með sálina í skjóðu um fjöll og firnindi alla leið til himna þar sem hún móðgaði guðdóminn æ ofan í æ í klaufalegri tilraun til að svindla sálinni inn í himnaríki. Tókst það svo loks með einstöku snarræði. Þekktustu gerð þjóðsögunnar skráði Matthías Jochumsson en Davíð birti fyrst kvæði eftir sögunni í ljóðabókinni Í byggðum 1933 og samdi svo Gullna hliðið fáeinum árum seinna; það var frumsýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó 1941.
Davíð breytir persónuleika kerlingar í sínum verkum miðað við þjóðsöguna. Kjafthátturinn er nú allur Jóns megin, kerlingin er mun auðmjúkari en þó aðallega trygg og staðföst. Hún verður þó umtalsvert blíðari en hún er vön í meðförum Maríu Pálsdóttur í nýju uppsetningunni; sönn mynd af konunni sem þolir allt og umber allt af óbilandi kærleika til þessa ódáms sem hún hefur búið með langa ævi og eignast með tíu börn. Rustinn Jón er sjálfum sér líkur í túlkun Hannesar Óla Ágústssonar, þó er ég ekki viss um að hann hafi áður fengið að láta vel að konu sinni á sviðinu eins og Jón gerir nú þegar kerling laugar sig við himneska lind. Mér fannst þetta vel til fundið og ferðalag þeirra saman til himna vel heppnað þótt nokkuð yrði það langdregið á köflum.
Þar kom líka til að tveir leikarar skipta með sér næstum því öllum hinum hlutverkunum. Þetta eru þau Aðalbjörg Árnadóttir sem leikur sjö hlutverk og Hilmir Jensson sem leikur fimm og þar af eitt burðarhlutverk sem er óvinurinn sjálfur. Þetta varð nokkuð keimlíkt allt saman og það vantaði talsvert á kraftinn hjá þeim þegar leið á – sem von var. Óvinurinn á afar skemmtilegan texta og er verðugur andstæðingur kerlu, eiginlega man ég best eftir honum úr þeim uppsetningum sem ég hef séð áður. Hilmir gæti orðið mun mergjaðri óvinur ef hann væri ekki búin að eyða orku í hreppstjórann, ríkisbubbann, þjófinn og drykkjumanninn. Þessi leikarafátækt hlýtur líka að vera skýringin á því að Páli postula er sleppt og Máríá, mild og há, kemur alls ekki fram í sýningunni. Þó syngur englakór lag Páls Ísólfssonar um hana svo fagurlega að jöklar bráðna.
Sviðið er dásamlegt þó ekki sé það í neinu svipað því sem Davíð hugsaði sér það og María fékk virkilega að reyna á sig í klifrinu upp til guðdómsins. Kemur sér vel hvað hún er sterk og fim. Sjónarspilið þegar hinir bersyndugu hröpuðu niður til vítis var flott. Englakórinn var líka til prýði og hljómsveitin Eva (Jóhanna Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoníasardóttir) fóru fallega og oft frumlega með lög við kvæði Davíðs í Lay-Low-stíl. Þó held ég að það hefði átt að draga úr tónlistinni í seinni hlutanum, sýningin varð svolítið löng. En það ber að þakka hjartanlega fyrir svo ágæta meðferð á klassísku verki.