Frá fyrstu mínútu situr maður með bjálfalegt bros á andlitinu; við og við verður brosið að hlátri og svo á næstu mínútu deyr hláturinn kannski og augun fyllast af tárum, kökkur lokar hálsinum og maður grætur. Svona djúp áhrif hefur örlagasaga Ellyjar enn og aftur.
Söng- og leikverkið um Elly Vilhjálms, Elly, var frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins vorið 2017, þá sátu gestir við borð og hugmyndin sú að þeir myndu upplifa klúbbstemningu frá þeim löngu liðnu árum þegar Elly og Raggi sungu með KK eða Hljómsveit Svavars Gests og fólk gat dansað við tónlistina (sjá umsögn á tmm: https://tmm.forlagid.is/sunnudagskvold-med-elly/). Það kom strax í ljós að áhuginn á sýningunni var of mikill fyrir þann sal og sýningin var flutt upp á stóra sviðið um haustið þar sem hún gekk í nokkur ár. Og þar var hún endurfrumsýnd í gærkvöldi fyrir fullum sal af hamingjusömu fólki. Gleðin skein af hverri brá, beinlínis!

Enda er vandalaust, að minnsta kosti fyrir konur, að lifa sig inn í líf og kjör þessarar dáðu söngkonu sem bæði naut og galt sinna ótrúlegu hæfileika. Hún var eftirsótt söngkona en launin voru ekki í samræmi við vinsældirnar og lífið í skemmtanabransanum tætingslegt þannig að hún neyddist til að láta frá sér fyrsta barnið sitt – nægilega lengi til að hún heimti það aldrei aftur. Sú sorg fylgdi henni alla ævi. Hún var eftirsótt af karlmönnum en þeir sem hún féll fyrir voru ekki áreiðanlegir þótt hæfileikaríkir væru og hún hlaut alltaf að taka á sig fjárhagslega ábyrgð á fjölskyldunni. Það sem var hennar mesta yndi og nautn í lífinu var að syngja og þó þagði hún í tuttugu og tvö ár í hjónabandi með þriðja eiginmanninum. Auk sonarins sem hún tapaði sambandinu við missti hún yngsta bróður sinn, eftirlætið sitt hann Villa. Það var henni þungbært eins og vel er dregið fram í sýningunni. Þátturinn kringum dauða Vilhjálms er afar vel hugsaður af handritshöfundum og leikstjóra og þar færist sýningin upp á einhvern hápunkt sem samvinna þeirra Katrínar Halldóru og Björgvins Franz gæðir innilegu lífi og tilfinningum.
Sýningin er annars hröð og kát og leikararnir fjórir sem skipta með sér tuttugu aukahlutverkum eru dásamlegir, búa til nýja og nýja persónu, nánast úr engu stundum, og skipta um föt á milljón kílómetra hraða. Þeir eru flestir þeir sömu og áður, Björgvin Franz, Hjörtur Jóhann og Katla Margrét, en ég saknaði Björns Stefánssonar þó að Sigurður Ingvarsson væri stórfínn, bara allt öðruvísi. Tónlistin var auðvitað óaðfinnanleg undir stjórn Guðmundar Óskars Guðmundssonar tónlistarstjóra og það segir sína sögu að þessi lög sem Elly söng inn á band, treg og jafnvel án þess að fara úr kápunni (af því hún þurfti að komast í búð) þau hljóma enn í eyrum okkar úr öllum áttum og miðlum.

Allir gera vel en samt á Katrín Halldóra Sigurðardóttir þessa fallegu sýningu nánast skuldlaust. Það er eins og leikstjórinn Gísli Örn og allir á sviði og utan sviðs viðurkenni það og lyfti henni áreynslulaust upp á sinn verðskuldaða stall. Sjálf skín hún í fegurð sinni, búningarnir hennar Stefaníu Adolfsdóttur ítreka glæsileikann og röddin er hreinlega undursamleg. Vissulega er röddin lík rödd Ellyjar sjálfrar, það tilheyrir í sýningu um hana, en Katrín Halldóra gerir þessi lög líka að sínum lögum; bregður út af, breytir áherslum, er Elly en líka Katrín Halldóra.

Öll sýningin virðist mér renna betur, vera þéttari, skemmtilegri, móta betur andstæður milli persóna og tímabila í lífi söguhetjunnar. Það er alveg óhætt að sjá hana aftur. Og aftur!

Silja Aðalsteinsdóttir