Um sama leyti og Leikhúslistakonur 50+ frumsýndu verk sitt Dansandi ljóð úr verkum Gerðar Kristnýjar á laugardagskvöldið var skáldkonan stödd í New York þar sem verið var að flytja ljóðabálkinn Blóðhófni við tóna Kristínar Þóru Haraldsdóttur tónskálds á MATA-tónlistarhátíðinni. Þá þegar hafði skáldið átt sinn þátt í PEN’s World Voices Festival í borginni með ýmsum hætti, lesið upp og tekið þátt í umræðum. Gerður Kristný er nú um stundir víðförlasta ljóðskáld þjóðarinnar og það sem kemur út á flestum tungumálum auk íslenskunnar, ekki aðeins stök ljóð heldur heilar ljóðabækur. Góður vinur minn sem líka er skáld og rithöfundur segir að hún sé okkar næsti kandídat í Nóbelsverðlaunin – ef einhver metur þau einhvers eftir skandalana undanfarið.
Edda Þórarinsdóttir leikstjóri Dansandi ljóða hefur valið efni úr öllum bókum Gerðar nema bálkunum þrem, Blóðhófni, Drápu og Sálumessu. Þeir sem fá ekki nóg af sýningunni geta gengið að ljóðabókunum sem Edda notar í Ljóðasafni Gerðar, gullfallegri bók sem kom út 2014.
Það var sjón að sjá leikhúslistakonurnar þegar þær gengu í einfaldri röð niður tröppurnar í Þjóðleikhúskjallarann, allar klæddar í sítt og svart en ýmist skreyttar rauðu eða hvítu. Þær voru eins og maður ímyndar sér álfkonur – álfadrottningar – svo glæsilegar voru þær. Allar voru með sítt tagl, ýmist úr eigin hári eða ekki, nema tvær. Sólveig Hauksdóttir hafði sitt síða hár slegið en Helga Jónsdóttir lét stuttan og þykkan gráan makkann nægja. Þær notuðu sviðið í Kjallaranum en líka gólfið fyrir framan áhorfendabekkina, hreyfðu sig frjálslega um svæðið, breiddu úr sér eða þjöppuðu sér saman, mynduðu hópa hér og þar og dreifðu svo úr þeim, allt eftir því sem ljóðin buðu upp á. Sviðsetningin var myndræn og oft beinlínis fögur. Helga Björnsson sá um búningana en Ingibjörg Björnsdóttir og Ásdís Magnúsdóttir sáu um sviðshreyfingar, hvort tveggja vel hugsað og unnið.
Leikkonurnar flytja ríflega fjörutíu ljóð, flutningurinn var þokkafullur og ljóðin vel valin. Þarna voru nokkur minna eftirlætisljóða, til dæmis Kleinur, Ísfrétt, Ljóð um bækur (sem er alls ekki um bækur þó að ég héldi það einu sinni og setti það fremst í vinsælt safnrit úr ljóðum íslenskra kvenna!), Launkofi, Ísland, Ættjarðarljóð. Önnur komu mér á óvart, opnuðust á nýjan hátt þegar ég heyrði þau í þessum flutningi, Litla Fjarðarhorn, Arfur, Ástarljóð, Ljóð um hamingjuna, Hljóðskraf, Veisla, Rask. Og sum urðu óvænt verulega fyndin í flutningi hópsins, Systkini mín, Brúðkaup og Erfðaskrá sem batt flottan enda á dagskrána.
Tónlistin var í umsjá Margrétar Kristínar Sigurðardóttur sem tónsetti nokkur ljóðin sem hún söng sjálf, stundum tóku leikkonurnar undir. Tónlistin var reglulega falleg og vel heppnuð, sérstaklega vil ég nefna lagið við Veðurfrétt. Snjallt var að flytja ljóð bæði í tali (fyrst) og tónum (á eftir), þá naut maður þeirra alveg í botn. Því ljóð Gerðar eru ekki auðnumin þó að þau séu aðgengileg; það er betra að heyra þau tvisvar. Helst oftar.