Stelpur og StrákarSviðslistahópurinn Fullorðið fólk endurfrumsýndi verkið Stelpur og stráka eftir Bretann Dennis Kelly í Tjarnarbíó í gærkvöldi eftir leikferð um landið. Þetta er glænýtt leikrit, frumsýnt í London 2018, og hefur vakið mikla athygli enda svo ágengt að kalla má sjokkerandi. Matthías Tryggvi Haraldsson og Melkorka Gunborg Briansdóttir þýða textann, Annalísa Hermannsdóttir á snjalla leikmyndina og leikstýrir, Magnús Thorlacius sér um ljósahönnun en Andrés Þór Þorvarðarson um hljóðmynd.

Stelpur og strákar er eintal ungrar, nafnlausrar konu (Björk Guðmundsdóttir) sem vinnur við að framleiða kvikmyndir. Hún hefur litla menntun og hafði lengi vel lélega sjálfsmynd og lítið álit á sjálfri sér, en hún giftist manni sem hafði þetta hvort tveggja í ríkum mæli – að því er virtist – og hann hvatti hana til að nýta eðlislægar gáfur sínar og áræði til að koma sér áfram. Það tekst henni betur en hún þorði að vona, stjarna hennar rís hægt og örugglega en þegar fram í sækir fer að halla undir fæti hjá honum. Þau eignast tvö börn, dreng og stúlku, og allt er í lagi heima fyrir – þangað til það er ekki lengur í lagi. En þá er of seint að bregðast rétt við. Ef það er hægt að bregðast rétt við viðhorfi eins og hans.

Dennis Kelly er djarfur í vali á viðfangsefnum og þorir að kafa djúpt í þau eins og við höfum fengið að sjá hér heima í verkum eins og MunaðarlausElsku barn, DNA og Eftir lokin. Við fáum auðvitað bara aðra hliðina, sögu konunnar, en það er aldrei gefið í skyn að hún sé óáreiðanlegur sögumaður, þvert á móti er frásögn hennar undirbyggð á ýmsan hátt. Kelly er afar ósáttur við kynbræður sína og gagnrýnir þá harkalega í verkum sínum, ekki síst þessu nýjasta. Okkur finnst oft að samfélagið sé gert fyrir karlmenn en Kelly leggur til að þvert á móti þá hafi mannlegu samfélagi verið komið á fót til að stöðva karlmenn. Þetta er áhugaverður punktur og umræðu verður.

Stelpur og Strákar

Tveggja klukkustunda eintal er ekki fyrir aukvisa en Björk Guðmundsdóttir stóðst raunina með prýði. Hún skipti liðlega milli samtíma og minninga og var hispurslaus og einlæg í fullu samræmi við textann sem rann skínandi vel í þýðingu Matthíasar Tryggva og Melkorku Gunborgar. En þó að sýningin fái mín bestu meðmæli verð ég að benda á að hún er ekki fyrir viðkvæma.

 

 

Silja Aðalsteinsdóttir