Það var ansi skemmtilegt að sjá strákana í leikhópnum Ást og karókí fjalla um karlhlutverkið og karlmennskuna svo skömmu á eftir Reykjavíkurdætrum fjalla um kvenlegt hlutskipti í Borgarleikhúsinu. Piltarnir eru ekki komnir eins hátt á strá og stúlkurnar en þeir hafa þó fengið inni fyrir verk sitt, Sýningu um glímu og Slazenger, hjá Leikfélagi Kópavogs við Funalindina. Textann sömdu þeir í sameiningu, að sögn, og leikstjórnina sjá þeir einnig um sjálfir þó að einn úr hópnum, Stefán Ingvar Vigfússon, þakki sér meira en hinum fyrir alla tæknivinnu.
Þeir eru í óða önn að þjálfa líkamann þegar gestir ganga í salinn, hlaupa, teygja, kasta boltum. Svo fara Simon og Garfunkel að flytja „Bridge over Troubled Water“ og allt kyrrist á sviðinu. Drengirnir standa grafkyrrir eins og undir þjóðsöngnum meðan lagið hljómar. Þar sem sýningin endar líka á þessu lagi er rétt að gá að boðskap þess og mikið rétt, textinn hyllir vináttuna, samlíðunina, náungakærleikann: „Þegar erfiðleikar steðja að skal ég leggjast endilangur yfir þá eins og brú yfir ólgandi flaum …“
Sýningunni skipta félagarnir í nokkra kafla. Í fyrsta hluta ganga þeir fram hver af öðrum og hylla fræga karla mannkynssögunnar og þar eru tíndir til karlar eins ólíkir og Alexander mikli og Búdda, Snorri Sturluson, Aristoteles, Shakespeare og Freud. Smám saman færa þeir sig nær í tíma og rúmi og fara að hæla hver öðrum og gera það þangað til þeim finnst nóg um upphefð hinna og snúa sér að því að níða skóinn hver af öðrum! Þetta var hressilegur sýningarhluti.
Kjarni sýningarinnar var um íslensku glímuna. Þá klæddust fjórir piltanna löggildum glímubeltum og glímdu tveir og tveir. Ekki veit ég hvort úrslitin voru ákveðin fyrirfram, til þess þyrfti að sjá fleiri en eina sýningu, en ef ég man rétt byrjaði Matthías Tryggvi Haraldsson á því að fella Adolf Smára Unnarsson, næst felldi Birnir Jón Sigurðsson Friðrik Margrétar-Guðmundsson en úrslitaviðureigninni lauk með sigri Birnis Jóns. Stefán Ingvar glímir ekki og útskýrir ástæðuna í mjög hlægilegu samtali. Annars var þessi kafli dálítið langdreginn og kom, fannst mér, ekki að fullum notum efnislega þótt fyndinn væri í og með.
Í lokakaflanum voru játningar og þá loksins kom kvenfólk lítillega við sögu – kærustur sem höfðu svikið, stelpur sem höfðu hafnað og niðurlægt. Þó hygg ég að mun fleiri játningar hafi verið kvenmannslausar og varðað frekar sambandið við feður og karlkyns félaga. Meðan þeir játuðu hver af öðrum sippuðu hinir af miklum krafti þannig að mæði og sviti settu mark sitt á kaflann.
Sýning Reykjavíkurdætra er mun metnaðarmeiri en Sýning um glímu og munar þar mest um leiknu atriðin þar sem stelpurnar leika aðrar persónur en sjálfar sig. Að öðru leyti er sláandi munurinn á því hvað stelpurnar eru miklu uppteknari af karlkyninu en strákarnir af kvenkyninu. Ég játa að ég hafði meira gaman af fyrri sýningu hópsins, sem hann kennir sig við, Ást og karókí (2015), en segi um leið að ég hef fulla trú á þessum strákum og hlakka til að sjá hvað þeir gera næst.