Mamma klikk eftir Gunnar Helgason er meðal vinsælustu íslensku barnabóka þessarar aldar en það lá alls ekki á borðinu að hægt væri að færa hana á svið með góðu móti. Eins og allir sem hafa lesið hana vita geymir hún óhemju stórt leyndarmál sem við komumst ekki að fyrr en í lokin – og verðum þá yfir okkur hissa. Þetta stóra leyndarmál kemst upp fyrr í sýningunni sem var frumsýnd í Gaflaraleikhúsinu í gærdag, það er óhjákvæmilegt, en hér á að reyna að skrifa um verkið án þess að segja frá því.

Mamma klikk!Stella (Gríma Valsdóttir) er ösku-bálreið út í Katrínu mömmu sína (Valgerður Guðnadóttir) sem henni finnst vera alger klikkhaus. Ástæðan er sú að mamma sagði á sinn opinskáa og frjálslega hátt yfir heila fermingarveislu að Stella væri „byrjuð á blæðingum“. Svona framkoma er auðvitað ófyrirgefanleg og mikið vildi Stella að mamma hennar væri bara venjuleg. Þar að auki er mamma óperusöngkona sem tekur lagið í tíma og þó einkum ótíma og allir vita hvað það er óþolandi þegar foreldrar manns láta svona á sér bera. Mamma reynir að hugga Stellu með því að bjóða henni í Kringluna til að kaupa handa henni föt fyrir þrettán ára afmælið en Stella vill frekar fara með vinkonum sínum. Þær reynast allar vera uppteknar. Fatíma (Agla Bríet Einarsdóttir) er að fara í mosku með mömmu sinni, Júdíta (Vera Stefánsdóttir) í fermingarveislu, Guðbjörg (Thea Snæfríður Kristjánsdóttir) á leið í sumarbústað með pabba og mömmu. Stella fellst þá á að fara með mömmu en vill frekar fara í Smáralind. Þar hittir hún allar þrjár vinkonurnar sem hafa bara skrökvað að henni, væntanlega til að losna við að hafa hana með. Þetta eru kunnuglegar aðstæður í augum flestra unglinga en ekki minna sárar fyrir það.

Stellu finnst hún heillum horfin. Vinkonurnar í ónáð og fjölskyldan óþolandi. Þar eru auk mömmu pabbi (Gunnar Helgason) sem er atkvæðalítill, stóri bróðir Palli (Ásgrímur Gunnarsson) sem vill helst vera ber að ofan og litli bróðir Siggi sítróna (Auðunn Sölvi Hugason) sem er alltaf óhreinn og getur ekki sagt err. Föðuramman (Þórunn Lárusdóttir) er óttalegt snobb og eitt áhrifamesta atriði sýningarinnar eru átök þeirra tengdamæðgna þegar mamma tekur ömmu snobb rækilega í gegn. Sérlega leiðinlegur er líka granninn Hanni (Felix Bergsson) sem þolir ekki neinar framkvæmdir við húsið. Þar mætir hann ofjarli sínum í mömmu klikk því hún er staðráðin í að gera lífið skemmtilegra fyrir börnin sín og vílar þá ekki fyrir sér að búa til rennibraut niður úr trénu í garðinum með eigin óperudívuhöndum!

Leikgerð Bjarkar Jakobsdóttur er viðburðarík og leikurinn berst víða. Við förum í fermingarveisluna til Ragnars frænda (Matthías Davíð Matthíasson), í skólanum hittum við taugaveiklaða kennarann hennar Stellu (Þórunn Lárusdóttir) og fáum taugaáfall með henni. Við verslum með Stellu og mömmu og lendum í útistöðum við búðarmann (Ásgrímur) en það frábærasta er að við fáum að fara í óperuna með Stellu, vinum hennar og ættingjum af því að Katrín fær að leysa af sem titilsöngkona í óperunni Carmen!  Það var óvænt skemmtun að fá grínútgáfu af því dýrlega stykki og njóta sönglistar Valgerðar Guðnadóttur um leið. En þó að asinn sé mikill og fjörið gleymist ekki að verkið hefur mjög ákveðinn boðskap: Endanlega er enginn „venjulegur“, við erum öll „eins og allir aðrir – en spes“ eins og Stella syngur svo fallega.

Leikurinn er í traustum höndum. Gríma Valsdóttir hefur oft sýnt einstaka næmi í túlkun á flóknum persónum og gerir Stellu algerlega að sinni. Gamalreyndir fagmenn eins og Gunnar og Felix, Valgerður og Þórunn fara létt með sín hlutverk. Ásgrímur kemur sterkur inn í hlutverki Palla, frumraun sinni sem atvinnuleikari. Unglingarnir Matthías Davíð, Agla Bríet, Vera og Thea Snæfríður skipta um gervi og fas eins og þrautþjálfaðir fagmenn – og sérstaklega fannst mér gaman að sjá í Theu svipinn af langömmu hennar og afasystur og fleiri fögrum konum úr þeirri ætt. Aðalsenuþjófuðinn vað þó Auðunn Sölvi, geðsamlega óboðganleguð í hlutverki Sigga sítðónu!

Það er gríðarlega mikill erill á sviðinu og hávaðinn er talsverður enda allt magnað (nema kannski Valgerður?).  Inn á milli koma þó kærkomin rólegri atriði, einum þau sem gerast á heimili Stellu. Tónlist Halls Ingólfssonar er skemmtileg og textar þeirra Halls, Þorsteins Valdimarssonar og Hjörleifs Hjartarsonar afbragðsgóðir. Stígur Steinþórsson gerir geysibreiðan og litríkan bakvegg sem opnast óvænt bæði út í garð, þar sem stórt og myndarlegt tré breiðir úr sér, og inn í draslaralegan bílskúr. Það var sjón að sjá. Búningar Bjarkar Jakobsdóttur eru við hæfi, ekki síst dívubúningar mömmu klikk, og lýsing Freys Vilhjálmssonar heldur þokkalega vel í við hamaganginn. Utan um þetta allt heldur svo leikstjórinn, Björk, sínum styrku höndum, þrautþjálfuð í að skemmta börnum og unglingum. Þau hundruð eða þúsundir barna og ungmenna sem munu sjá þessa sýningu á næstu mánuðum geta hlakkað til.

 

Silja Aðalsteinsdóttir