Þjóðleikhúsið frumsýndi í gær söngleikinn Frost sem byggður er á Disneykvikmyndinni ofurvinsælu, Frozen. Fjarlægari kveikja að verkinu er ævintýrið um Snædrottninguna eftir H.C. Andersen. Ég sá sýninguna degi fyrr, á aðalæfingunni á föstudagskvöldið, og skrifa um þá sýningu. Handritið er eftir Jennifer Lee, tónlist og söngtextar eru eftir Kristen Anderson-Lopez og Robert Lopez en Bragi Valdimar Skúlason gerði prýðilega og einkar söngvæna þýðingu. Ævintýralega fallega leikmyndina gerir Börkur Jónsson, tónlistarstjórn annast Andri Ólafsson og Birgir Þórisson, Christina Lovery hannar búninga en Chantelle Carey sér um dans og sviðshreyfingar. Torkel Skjærven á flókna lýsinguna, Ásta Jónína Arnardóttir hannar myndbönd en hljóðhönnun var á ábyrgð þeirra Þórodds Ingvarssonar og Bretts Smith. Herlegheitunum stýrir svo Gísli Örn Garðarsson af næmri tilfinningu bæði fyrir harmi verksins og húmor.
Konungshjónin í Arnardal (Atli Rafn Sigurðarson og Viktoría Sigurðardóttir) eiga tvær dætur. Meðan þær eru enn litlar telpur kemur í ljós að sú eldri, krónprinsessan Elsa (Jósefína Dickow Helgadóttir/Nína Sólrún Tamimi) ræður yfir galdramætti: ef hún gætir ekki handa sinna frystir hún allt í kringum sig. Henni verður það á að beita galdrinum á litlu systur sína Önnu (Emma Máney Emilsdóttir/Iðunn Eldey Stefánsdóttir) svo að hún breytist umsvifalaust í klakastykki og þurfa konungshjónin að kalla á huldufólkið Huldar og Huldu (Bjarni Snæbjörnsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir) til að bjarga lífi hennar. Eftir þetta óhapp er konungsríkið einangrað uns systurnar eru fullvaxta.
Á krýningardegi Elsu drottningarefnis (Hildur Vala Baldursdóttir) er Anna (Vala Kristín Eiríksdóttir) svo bráðheppin að rekast á Hans, prinsinn af Suðurey (Almar Blær Sigurjónsson) og þau falla hvort fyrir öðru alveg á augabragði. En Elsa er ekki á því að leyfa systur sinni að lofast manni sem hún hefur þekkt í hálftíma og í átökunum milli þeirra sleppir Elsa kröftum sínum lausum, óvart. Skelfingu lostin flýr hún í ofboði burt úr ríkinu en skilur það eftir í eilífum vetri. Það kemur í hlut Önnu að leita hana uppi til að aflétta álögunum svo að árstíðirnar verði aftur eðlilegar í Arnardal. Á því langa og háskalega ferðalagi nýtur hún aðstoðar Kristjáns hreindýrabónda (Kjartan Darri Kristjánsson), Sveins hreindýrs (Ernesto Camilo Aldazábal Valdés), Ólafs snjókarls (Guðjón Davíð Karlsson) og fjölda annarra mannvera og annarra vera.
Þetta er fallegt ævintýri um baráttu ills og góðs, háskann við ofurmátt og afl sannrar ástar, og þó að sagan gerist á löngum tíma og atburðarásin sé þétt og hröð var framvindan skýr. Persónurnar eru nokkuð staðlaðar á ævintýravísu en allar helstu persónur sýna þó á sér fleiri en eina hlið. Elsa þráir að vera venjuleg manneskja en er þjökuð af kröftum sínum sem hún ræður illa við og á erfitt með að njóta lífsins – þangað til hún er orðin ein í klakahöll sinni. Þessa þróun tjáði Hildur Vala vel auk þess sem hún hefur skínandi góða söngrödd. Anna er blessunarlega óvitandi um bölvunina sem hvílir á systurinni og kátína hennar og lífsfjör, bæði ungrar og eldri, lífgar mikið upp á söguna. Vala Kristín átti auðvelt með að tjá þessa spilandi kæti og söng líka af mikilli lífsgleði. Telpurnar tvær sem léku systurnar ungar á sýningunni sem ég sá, Nína Sólrún og Iðunn Eldey, voru alveg ótrúlega sannfærandi í hlutverkum sínum.
Í kringum þær systur var traust lið, leikið, sungið og dansað bæði af fullorðnum og börnum. Guðjón Davíð var dásamlegur snjókarl; Ernesto Camilo jafnyndislegt hreindýr. Almar Blær lék sinn tvöfalda Hans af kaldlyndu, sjarmerandi kæruleysi en Kjartan Darri var á hinn bóginn heiðarleikinn og manngæskan uppmáluð í hlutverki Kristjáns. Huldufólkið var heillandi, bæði fyrirfólk og þegnar. Ólafía Hrönn Jónsdóttir fékk heila senu fyrir sig sem Blær farandsali – sú sem neyddist til að setja allt sumardótið á rýmingarsölu í þessum eilífa vetri! Örn Árnason og Edda Arnljótsdóttir voru virðulegur yfirþjónn og þerna í konungshöllinni, og Sigurbjartur Sturla Atlason barðist hetjulega fyrir því að nafn persónu hans, Mörðdal hertogi – ekki Möðrudal hertogi! – væri rétt fram borið.
Tónlistin er skemmtileg, lögin áheyrileg þótt ekki sitji þau eftir í mér. Félagi minn átta ára söng þau hins vegar sum af list að lokinni sýningu. Hljóðfæraleikararnir sitja í stúkunum báðum megin við sviðið og mér fannst fara vel á því. Söngtextarnir voru margir hnyttnir með frábærum línum – eins og þeirri sem er titill þessa pistils. Dansarnir voru afar líflegir og margir skemmtilega eðlilegir, eins og persónurnar á sviðinu væru að dansa eftir sínu eigin höfði. Þetta átti sérstaklega við atriðin með huldufólkinu, það skemmti sér alveg undir drep og okkur þá um leið!
Það eru ekki síst svið og búningar sem skapa töfrandi ævintýrastemningu sýningarinnar – og snjórinn auðvitað. Konungsgarður með sín aðskildu hús systranna, glannalega flott sundföt gestanna í sumarleyfisstað Blævar farandsölukonu, ískaldur vetrarskógur sem umbreytist þegar langþráð vorið kemur loksins og bláhvít klakahöll Elsu sem hæfði fullkomlega hrímhvítum kjólnum hennar sem glitraði á eins og ískristalla. Það var sjón að sjá ísdrottninguna renna saman við hásæti sitt.
Satt að segja er frelsandi að fá ástarsögu um systur og láta minna sig á að sönn ást er ekki bundin við pör. Frost er fallegur vorboði sem ótal börn og aðstandendur þeirra munu njóta á næstu vikum og mánuðum. Innilegar hamingjuóskir, öll sem að þessari sýningu koma.