Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi Bara smástund á stóra sviðinu í gærkvöldi, ekta franskan gamanleik eftir Florian Zeller undir vel hugsaðri leikstjórn Álfrúnar Helgu Örnólfsdóttur. Sverrir Norland þýddi einkar lipurlega.
Við erum stödd í glæsiíbúð Michels (Þorsteinn Bachmann) og Nathalie (Sólveig Arnarsdóttir) sem Helga Stefánsdóttir hefur búið húsgögnum og listaverkum af smekkvísi. Michel er kampakátur því að hann hafði gengið í gegnum útimarkaðinn þennan laugardagsmorgun og af hreinni tilviljun fundið gamla eftirlætishljómplötu sína, Me, myself and I, í einum sölubásnum. Nú er hann kominn með hana heim og þráir að fá stundarfrið til að hlusta á hana. En því miður hefur Nathalie fundið hjá sér óviðráðanlega hvöt til að segja honum þrjátíu ára gamalt leyndarmál og vill fá alla hans athygli. Michel verður líka fyrir truflunum frá „pólska“ pípulagningarmanninum Léo (Vilhelm Neto), sem er að breyta innra svefnherberginu og gera við eða orsaka leka þar, og Pavel (Jörundur Ragnarsson), nágrannanum á neðri hæðinni sem er óánægður með áhrif viðgerðanna á sína íbúð. Eins og þetta sé ekki nóg þá koma bæði núverandi viðhald Michels, Elsa (Sólveig Guðmundsdóttir), og Pierre, gamla syndin hennar Nathalie (Bergur Þór Ingólfsson), í heimsókn og sonur hjónanna, pönkarinn Sébastien (Sigurður Þór Óskarsson) sem nú vill láta kalla sig Fucking Rat lítur líka inn. Eins og gefur að skilja verður bið á því að Michel geti hlustað á plötuna sína og það finnst honum illþolandi.
Þetta er fantavel skrifað leikrit og fyndið þótt síst sé það bjartsýnt eða hylli franska borgarastétt. Ofan á hnyttinn textann bætast úthugsaðar hreyfingar og svipbrigði sem dilluðu áhorfendum. Eini gallinn var sá að leikurunum hætti til að tala ofan í hlátrasköllin og þá missti maður af orðaskiptum. Þetta gerðist of oft miðað við hvað þarna eru vanir menn að verki, þau hefðu átt að vera við þessu búin. En þessi galli hverfur sjálfsagt þegar þau læra á hlátrana með fleiri sýningum.
Fyrir gamlan aðdáanda franskra kvikmynda var sérstaklega heillandi hvað þau Þorsteinn og Sólveig voru frönsk í fasi sínu og framkomu þótt auðvitað ýktu þau einkennin til að vekja hlátur. Það var beinlínis yndislegt í sjálfu sér að horfa á hreyfingar Sólveigar í hlutverki Nathalie og Þorsteinn minnti mig stundum á Jacques Tati þegar hann var sem mest bit á atganginum í kringum sig. Sigurður Þór bjó til óborganlega týpu úr Sébastien og æðiskast hans undir lokin var verulega nýstárlegt.
Jörundur skapaði elskulega en ágenga grannann Pavel af þaulhugsaðri nákvæmni. Sólveig Guðmundsdóttir var iðrunarfulla hjákonan lifandi komin. Bergur Þór var á stöðugu undanhaldi í hlutverki hins huglausa syndasels og „pólski“ pípulagningarmaðurinn fór Vilhelm Neto alveg sérstaklega vel. Ég hef fylgst með Vilhelm alveg síðan í Stúdentaleikhúsinu fyrir mörgum árum og mikið var gaman að sjá hann standa sig á stóra sviðinu.
Búningar Helgu Stefánsdóttur voru úthugsaðir eins og annað í þessari sýningu – litapalettan spennandi. Raunar stálu þeir athyglinni stundum frá gríninu, einkum búningar Nathalie, litríkir og flottir en stundum nokkuð viðamiklir. Kjóll Elsu var afar glæsilegur og gervi Sébastiens eins og hæfði Fucking Rat.
Þetta er „gamaldags“ sýning að því leyti að leikararnir eru ekki magnaðir upp eins og nú er lenska á stóru sviðunum – þeim er treyst til að ná með röddinni einni aftur á aftasta bekk. Það gera þeir líka nema þegar áheyrendur taka helst til duglega undir með hlátri sínum. Bara smástund er holl hlátursprengja og ég efast um að það þurfi að hvetja fólk sérstaklega til að sjá hana – það mun gera það hvort eð er!
Silja Aðalsteinsdóttir