Í gærkvöldi frumsýndi Magnús Thorlacius leikrit sitt Skeljar í Ásmundarsal við Freyjugötu. Hann leikstýrir sjálfur en Ástrós Hind Rúnarsdóttir var aðstoðarleikstjóri. Tónlist og hljóðmynd átti Katrín Helga Ólafsdóttir.
Nafnið á verkinu vísar í tvennt, annars vegar skeljarnar sem þau hjónaleysin Hólmfríður Hafliðadóttir og Vilberg Pálsson tína á ströndinni í upphafsatriðinu og hins vegar skeljarnar sem Vilberg fer á þegar hann hyggst biðja Hólmfríðar, henni fullkomlega að óvörum. Nú er algengara í okkar samfélagi að stúlkur líti á hjónaband sem sjálfsagðan endahnút á samband tveggja einstaklinga en piltar telji það jafnvel sér til tekna að komast hjá hnappheldunni, en í Skeljum er því öfugt farið. Parið hefur verið saman í tvö og hálft ár þannig að bónorðið hefði ekki átt að koma henni á óvart. Hún segist elska piltinn, það er ekki vandinn, en hvað er þá í veginum?
Það sem gerist er að hún fer að hugsa fram í tímann, velta fyrir sér öllu því marga og ólíka sem fylgir því að gifta sig: íbúð, barn, börn, skuldbindingar … Gerir hann það ekki? Nei, ekki á sama hátt. Fyrir honum er nóg að taka eitt skref í einu, það þarf ekki að lifa áratugi fram í tímann í huganum – enda veit maður aldrei hvað gerist. Það eitt er víst að framtíðin kemur á óvart.
Hún tekur bónorðinu að lokum en þar með lýkur ekki samræðum þeirra því hátíðlegt brúðkaup þarf sannarlega að ræða í hörgul. Allt er fast í formi sem þarf að fylgja – eða er það ekki? Er þetta kannski allt saman leikrit, forskrifað, sem við göngum inn í? Hann er greinilega fastari í hefðunum en hún, vill vera karlmaður sem tekur af skarið. Hún er víkjandi í þessu máli, vill frekar lítið brúðkaup en stórt.
Skeljar eru samtal tveggja ungra manneskja á nokkrum átakastundum í lífi sínu. Á yfirborðinu er allt kurteislegt en undiraldan er þyngri, einkum hennar megin. Samtölin eru prýðilega skrifuð, renna vel og halda hæfilega vel spennunni milli einstaklinganna. Hólmfríður og Vilberg eru fallegt fólk sem gaman er að horfa á og þau leika hlutverkin vel, búa til sannfærandi karaktera, býsna ólíka að uppeldi og lífsafstöðu. Ég er ekki í markhópi fyrir sýningu um þetta efni en ég ímynda mér að ungt fólk í svipuðum sporum geti haft bæði gagn og gaman af að bera hugsanir sínar og hugmyndir saman við vangaveltur þeirra.
Silja Aðalsteinsdóttir