Við fórum loksins að sjá Edduna hennar Eddu Björgvinsdóttur í Gamla bíó í gærkvöldi. Það var sýning sem kom okkur meira á óvart en við áttum von á.
Áður en sýningin hófst fengum við að sjá ótal brot á tjaldi frá ferli Eddu í sjónvarpi og kvikmyndum, þau voru hljóðlaus en mörg þeirra kannaðist ég við og gat stundum næstum því munað hvað var verið að segja. Þetta upphaf býr áhorfandann undir upprifjun í orði og dæmum á þessum sama ferli og þegar þau voru sest í sæti sín, spyrillinn (Gunnar Hansson) og dívan sjálf, benti allt til þess að sú yrði raunin. En ýmislegt fór fljótlega úrskeiðis. Það var greinilegt að spyrillinn mundi ekki eftir neinu sem Edda hafði gert nema bíómyndinni Stella í orlofi. Hana kunnu þeir báðir utanbókar, spyrillinn og undirleikarinn (Bergþór Pálsson).
Og það var eins með Eddu og marga aðra sem fólki finnst vera frægastir fyrir eitthvað eitt að þeim leiðist að tala bara um það. Finnst bágt að standa í stað. En í stað þess að rifja þá upp allt annað sem hún hefur gert með bravör tók Edda þann kost að kvarta undan því sem hún hefur EKKI fengið að gera. Og í beinu framhaldi sýnir hún okkur – eða reynir að sýna okkur fram á að hún geti það líka! Hún hefur aldrei fengið að leika í söngleik en nú fáum við að sjá hana og heyra syngja „Memory“ úr Cats!
Hún hefur aldrei fengið að leika dramatískt hlutverk. Til dæmis kann hún hlutverk Bernhörðu Alba utan bókar en fékk hún að leika það síðast þegar það var sett upp? Nei. Frekar var Þröstur Leó valinn til að leika þetta stóra og stórkostlega KVENhlutverk! Svo tekur Edda bút úr þessu verki með hjálparmenn sína til hvorrar handar í slöri! Og ef við erum ekki sannfærð um dramatíska hæfileika hennar getur hún vel tekið dauðastríð Júlíu Shakespeares fyrir okkur … Poppstjörnuna Eddu fáum við líka að sjá og Júróvisjónstjörnuna Eddu.
Þessi sýning er í grunninn grimm sjálfshæðni og rosalega fyndin þegar best tekst til. Í seinni hluta sýningarinnar minnir Edda okkur svo rækilega á það sem hún hefur gert allra best. Það er þegar dívan er farin í fússi eftir að hafa rifist við og rekið sýningarstjórann Túrillu og Bibba á Brávallagötunni kemur og skemmtir okkur á sinn óborganlega hátt – ekki síst með sögum af Viggu systur sinni sem er formaður fjárkláðanefndar og fæddist langt fyrir aldur fram.
Edda Björgvinsdóttir hefur kannski hvorki leikið Júlíu né Bernhörðu Alba á sínum langa og glæsilega ferli en hún hefur gefið okkur af örlæti ótalmargar persónur sem hafa látið okkur hiksta af hlátri og þær gera ekki minna gagn.