Gaflaraleikhúsið frumsýndi í gær barnasýninguna Drottningin sem kunni allt nema … eftir leikhópinn og Björk Jakobsdóttur sem líka leikstýrir. Í húsnæðisvanda sínum hefur hópurinn fengið inni í Bæjarbíói í Hafnarfirði, því fornfræga húsi sem kallar fram ótal minningar um myrkar og dularfullar sænskar og ítalskar bíómyndir frá sjöunda áratugnum. Það var sannarlega ekkert myrkt eða dularfullt við sýninguna í gær, hún var björt, litfríð og þrungin gleði!

Meðan Bambalína drottning (Halla Karen Guðjónsdóttir) sefur stendur lífvörðurinn (Ásgrímur Gunnarsson) vörð við rúmið hennar en hann er viðutan og tekur ekki eftir því þegar hundur drottningar, Snúlla, laumast burt. Og það er hún sem við heyrum fyrst í því hún kemur geltandi fram undan leiktjöldunum, beint í flasið á Gunnari Helgasyni, höfundi sögunnar sem leikritið er byggt á. Hann spyr með þjósti hver eigi þennan hund og segir að það sé bannað að vera með hunda í leikhúsi! Fljótlega kemst hann að hinu sanna og er umsvifalaust ráðinn í laust starf hundapassara drottningar. Eftir það gegnir hann hinum ýmsu hlutverkum sem vantar í og verður í raun alveg ómissandi í sýningunni. Því að Bambalína drottning hefur skyldum að gegna úti í bæ þennan dag, hún á að opna leikskóla, og það verður ævintýraferð. Þó liggur við að illa fari því að Drottningin þverneitaði að pissa í kopp áður en lagt var af stað. Hún kann nefnilega alveg að halda í sér – alveg eins og hún kann allt annað sem hægt er að hugsa sér!

Halla Karen er kjörin í hlutverk Bambalínu drottningar, hún hefur frjálslega framkomu, alveg hæfilega ákveðna fyrir drottningarhlutverk, eðlilegar og fallegar hreyfingar, skýran framburð og góða söngrödd. Því í sýningunni eru bráðskemmtileg sönglög eftir Mána Svavarsson. Ásgrímur er myndarlegur lífvörður og Gunnar Helgason … Ja, hann er Gunnar Helgason sem öll börn þekkja og sem veit hvernig hann á að skemmta þeim. Það veit Björk Jakobsdóttir líka og heldur þétt utan um galsaganginn.

Embla Vigfúsdóttir sér um búninga og leikmynd en fjöldi gullfallegra og glaðlegra teikninga sem prýða baksviðið er eftir Rán Flygenring sem einnig teiknaði bókina. Bæjarbíó er auðvitað kvikmyndahús og hefur ekki geymslur fyrir stórar leikmyndir þannig að það þarf að hugsa dæmið út frá þeim aðstæðum. Það vafðist heldur ekki fyrir Emblu og Rán. Fataskápurinn var tjald, borðbúnaður teiknaður, meira að segja vagn drottningar var teiknaður. En það er líka alveg nóg, væri jafnvel verra ef það væri betra!

 

Silja Aðalsteinsdóttir