Við sáum Kenneth Mána í gærkvöldi, einleik Björns Thors eftir handriti Jóhanns Ævars Grímssonar, Sögu Garðarsdóttur og Björns sjálfs, á litla sviði Borgarleikhússins. Bergur Þór Ingólfsson stýrir. Það er kannski ýmislegt ósennilegt við þennan karakter, einkum virðist geðslag hans og greindarstig ekki passa við það að hann skuli vera svona afkastamikill þjófur, en auðvitað getur það verið náragáfa eins og hann er svo upptekinn af í öðru fólki. Og auðvitað er hann svo mikill klaufi sem þjófur að hann er sífellt að lenda í steininum.
Kenneth Máni var persóna í Fangavaktinni á Stöð 2, svo sérkennileg og vel sköpuð að smám saman fór maður að bíða eftir atriðum með honum. Núna uppfyllast óskirnar um að fá meira að heyra. Þar fannst mér meira gert úr því að hann væri hálf-amerískur en í leikritinu en auðvitað er innileg ást hans á kúrekastígvélunum glæsilegu sem pabbi hans sendi honum (notuð) frá Ameríku tengd föðurskorti. Kannski má orða það svo að hann yfirfæri ást sína af pabbanum á stígvélin – það væri líka sannarlega eftir honum. Ævintýri lífs hans sem hann er kominn upp á svið til að segja okkur er einmitt tengt þessum stígvélum. Öðru atviki tæpir hann á úr æsku sinni sem hefur ekki verið eins fallegt eða skemmtilegt en það hefur hann bælt svo rækilega að það hefur tekið ævintýralegum umbreytingum í minninu.
Annars hefur Kenneth Máni ekki margt að segja en hann er mjög upptekinn af mannlífinu yfirleitt og tungumálinu sem er honum uppspretta fjörugra barnslegra athugana. Hann er hugfanginn af því þegar sama orðið hefur margar merkingar, eins og til dæmis „á“ – af því það er auðvitað á, og á, og á – og á! Orðagrín er hans eftirlæti – enda elska allir orðagrín – og hann skemmti sér svo vel við að útlista þetta áhugamál sitt að stundum hélt ég að ég ætlaði að kafna úr hlátri. Aðall þessarar sýningar er hvernig Björn skapar þennan dreng í hreyfingum, fasi, svipbrigðum og þó fyrst og fremst talshætti og framburði.
Björn er lengst af einn á sviðinu, þó er þar hjá honum sælgætissjálfsali sem verður bæði leikmunur og persóna í sýningunni og afar skemmtilega notaður. Í lokin er gerð alveg kostuleg sjónhverfingarbrella með aðstoð sjálfsalans en henni er ekki hægt að lýsa, hana verðið þið að sjá sjálf.