Reykjavík Ensemble sýnir nú í Tjarnarbíó Djöfulsins snilling eftir Ewu Marcinek og Pálínu Jónsdóttur sem einnig leikstýrir. Sýningin er nær eingöngu á ensku og verður strax að játa að textinn barst illa til mín þangað sem ég sat (á bekk J). Efnið komst til skila að talsverðu leyti (held ég) en tilbrigði í stíl og frásagnarhætti, þar með talinn húmor, skilaði sér ekki nema að litlu leyti. Þetta verður því snautleg umsögn um verk sem er unnið af töluverðum metnaði.
Sagan snýst um dansarann, leik- og söngkonuna Urielu (Jördis Richter) sem kemur til Íslands í því vonlitla augnamiði að fá áheyrnarprufu hjá Þjóðarsirkusnum og verða í framhaldinu starfandi listamaður hér. Sjálfsagt er sirkus valinn sem áfangastaður vegna þess að þar þarf ekki að skipta máli hvort maður talar mál innfæddra. Fulltrúi valdsins (Snorri Engilbertsson) sem hún hittir segir henni að slíkar prufur tíðkist ekki, hér vitum við hvað allir geta og kunna, og hann reynir á sinn klaufska hátt að fá hana ofan af hugmyndinni. Hún hittir líka Gunnar, kollega sinn úr hópi sviðslistamanna (Snorri Engilbertsson), sem lætur líklega með að hjálpa henni en hefur bara áhuga á að hjálpa sjálfum sér. Eins og ráða má af þessu er þetta ansi svart verk og allt umhverfið, svið (Klaudia Kaczmarek) og ljós (Ólafur Ágúst Stefánsson) styðja við þá tilfinningu. Þó ekki fjaðurlétti kjóllinn sem Uriela klæðist og sem styður svo fagurlega við hreyfingar Jördisar og alla sviðsframkomu.
Eins og í raunveruleikanum býðst Urielu sem innflytjanda með óljóst tilkall til annarra starfa eingöngu að vinna við þrif og skemmtilegasta atriðið í sýningunni var þegar hún dansar um sviðið með stóran kúst ásamt tveim félögum sínum (Heidi Bowes, Jordic Mist). Samskipti hennar við kerfiskarlinn (Paul Gibson) voru líka býsna skondin, hvort sem var hjá útlendingastofnun eða í bankanum. Snorri var öflugur, ekki síst sem landamæravörður, en fyrst og fremst var gaman að horfa a Jördisi sem er augnayndi.
Silja Aðalsteinsdóttir