Ég fann fyrir tilfinningu eftir sýningu Nemendaleikhússins á Draumi á Jónsmessunótt í Smiðjunni í gærkvöldi sem sumt leikhúsfólk hefur fjölyrt um í ævisögum sínum: ég vildi að sýningin væri ekki búin heldur héldi áfram – eða byrjaði upp á nýtt! Mig langaði ekki til að rjúfa töfrana og fara út úr húsinu.
Leikritið er auðvitað ómótstæðilegt, einkum í meðförum ungs fólks, eins og dýrmætar minningar um margar fyrri sýningar sýna, en sýningin í gær var líka alveg heillandi, hugmyndarík, kynþokkafull og einstaklega áheyrileg. Stefán Jónsson leikstjóri hefur unnið afrek í textavinnu með sínu fólki því hvert orð heyrðist og fyndinn og fagur texti Shakespeares naut sín ákaflega vel. Það var eins og krökkunum væri alveg eðlilegt að tala í bundnu máli. Ekki er getið þýðanda í leikskrá en snilld Helga Hálfdanarsonar leyndi sér ekki. Helgi átti til að banna að sín væri getið sem þýðanda ef eitthvað væri rjálað við texta hans, og telst það bann sjálfsagt gilda enn.
Við erum að þessu sinni stödd í Aþenu í nútíma eða framtíma og enn ætlar aðalsmaðurinn Egeifur (Þorleifur Einarsson) að þvinga Hermíu dóttur sína (Hafdís Helga Helgadóttir) til að giftast Demetríusi (Oddur Júlíusson) þó að hún elski Lísander (Arnmundur Ernst Björnsson). Egeifur klagar stelpuna í Þeseif hertoga (Arnar Dan Kristjánsson) sem segir henni að annaðhvort verði hún dæmd til dauða fyrir óhlýðnina eða send í klaustur. Sjálfur er hertoginn að fara að gifta sig heitmeynni Hippólítu (Thelma Marín Jónsdóttir) sem er honum svolítið erfið. Kannski er dómadagsræðan sem hann heldur yfir Hermíu ekki síður ætluð eyrum Hippólítu. En unga fólkið lætur ekki kúga sig og ákveður að strjúka út í skóg og gifta sig á laun. Þetta segir Hermía Helenu bestu vinkonu sinni (Elma Stefanía Ágústsdóttir) sem er nokkuð ánægð með þessa ákvörðun því sjálf elskar hún Demetríus af öllu hjarta þó að hann sé henni fráhverfur. Helena kjaftar í Demetríus, hann eltir elskendurna út í skóg og Helena eltir Demetríus.
Í skóginum koma þau beint inn í illvígar erjur milli álfakonungshjónanna Óberons og Títaníu (Arnar Dan og Thelma Marín) og verða alsaklaus fyrir hjáverkunum af göldrum sem Óberon beitir sína heittelskuðu með aðstoð hermafródítsins Bokka (Þór Birgisson/Salóme Rannveig Gunnarsdóttir). Bokki slæmir líka klóm í veslinginn Spóla (Þorleifur) sem ætlar með félögum sínum að æfa leikþátt til að flytja í brúðkaupi hertogans en verður um hríð ástarleikfang álfadrottningar í álögum. Öll er þessi vitleysa alveg óborganlega fyndin en í lokin leysast allir hnútar og hver fær sitt – eða eins og Bokki orðar það: „Taki hver, hvað honum ber!“
Egill Ingibergsson var ábyrgur fyrir leikmynd, lýsingu og myndvinnslu sem allt var ansi hreint flott og viðeigandi. Sviðið í Smiðjunni er ekki stórt en lengst af lét Egill sér nægja lítinn hluta af því, opnaði það bara upp á gátt í hertogahöllinni og að hluta til að sýna okkur í dyngju álfadrottningar. Það þýddi að leikararnir voru alveg ofan í áhorfendum meiri hluta sýningarinnar og létu það ekki á sig fá. Sviðinu var breytt með handafli og fór vel á því að láta handverksmenninina í leiknum inni í leiknum sjá um það. Búningar Agnieszku Baranowsku drógu vel fram stéttamun og mun á heimum álfa og manna. Tónlistina sá Úlfur Hansson um og hún var dálítið áleitin og á stundum gríðarlega frek. Einu sinni beinlínis lyftist ég upp í sætinu, mér brá svo rosalega. Ætli þetta sé tíska nú til dags? Ég varð fyrir svipaðri reynslu á Karma fyrir fugla um daginn.
Nýju leikararnir voru fínir alveg yfir línuna. Arnar Dan var glæsilegur hertogi/álfakóngur, Thelma Marín tignarleg og nokkuð hofmóðug Hippólíta/álfadrottning. Ungmeyjarnar tvær, Hafdís Helga og Elma Stefanía, voru hvor annarri fallegri og skemmtilegri. Hafdís dró vel fram muninn á því að vera elskuð og fyrirlitin og Elma var innilega sannfærandi sem forsmáð ástmær sem ekki trúir sínum eigin augum og eyrum þegar drengirnir snúa allt í einu við blaðinu. Skynsöm stúlka! Ástmennirnir ungu voru liprir og liðugir á velli og í máli, einkum var yndi að horfa á stæltan kropp Arnmundar. Hinn tvíkynja Bokka léku þau af mikilli kátínu Þór og Salóme og var einkum Salóme svo fim að sérstaka aðdáun vakti.
Það má nærri geta að Shakespeare hefur nýtt sér uppákomur úr eigin leikhúsreynslu þegar hann skapaði leikflokk handverksmannanna. Máttleysislega leikstjórann Kvist (sem var prýðilega leikinn af Hildi Berglindi Arndal), týpuna Spóla sem helst vill leika öll hlutverkin í verkinu af því hann er ábyggilega bestur (það varð ekki ósannfærandi í sýningunni), og Snikka (Kjartan Darri Kristjánsson) sem er svo hræddur um að leika ljónið of vel og hræða allar frúrnar að hann fær að skjóta að skýringu til að róa þær fyrirfram! Kjartan er raunar nemi á fyrsta ári og það voru þeir Eysteinn Sigurðarson og Baltasar Breki Samper líka sem léku Hvin og Sult. Einnig voru þjónar álfadrottningar leiknir af fyrstaársnemum, Þuríði Blævi Jóhannsdóttur, Katrínu Halldóru Sigurðardóttur og Dominique Gyðu Sigrúnardóttur. Þau stóðu sig nógu vel til þess að maður getur strax farið að hlakka til að sjá þau aftur.
Hjartans þakkir fyrir skemmtunina!