Leikflokkurinn Pörupiltar treður nú upp með glænýja sýningu í Tjarnarbíó undir heitinu Who´s the Daddy! þótt textinn sé á íslensku (að mestu leyti). Raunar er þetta fræðslukvöld fyrir nýbakaða feður með fyrirlestri sem Dóri Maack (Sólveig Guðmundsdóttir) heldur en hann er einmitt nýlega búinn að eignast barn með sinni ástkæru Öldu Dís. Og það er full ástæða til að benda ringluðum ungum feðrum á þessa fræðandi stund.
Fyrirlestrarkvöldið ber upp á pabbahelgi þannig að Dóri þarf að fá barnfóstru handa litlu Díönu og þá leitar hann auðvitað fyrst til félaga sinna, þeirra Nonna Bö og Hemma Gunn (Alexía Björg Jóhannesdóttir og María Pálsdóttir). En Dóri hefur ekki talað lengi yfir fróðleiksþyrstum áheyrendum sínum þegar félagarnir birtast á sjónvarpsskjánum með Díönu litlu háorgandi og Dóri þarf að reyna að kenna þeim ráð til að þagga niður í barninu. Þannig má segja að við fáum bæði fræðilega og praktíska kennslustund út úr kvöldinu.
Ég sá fyrir fáeinum árum fyrstu sýningu þeirra Pörupilta, Homo Erectus, í Þjóðleikhúskjallaranum og fannst hún dásamleg, en því miður hef ég ekki séð kynfræðslusýninguna sem mér skilst að hafi verið sýnd 10. bekkingum undanfarin ár í Borgarleikhúsinu. Þær stöllur búa til hver sinn karlkyns karakterinn og ganga svo rækilega upp í hlutverkinu að það er andskotakornið ekki vottur af kvenleika eftir í fari þeirra. Þar er María sá stillti og prúði, Alexía Björg sá kvensami, sífellt með lafandi tunguna, lostafullur á svipinn, en Sólveig er dúddinn, endemis klaufinn með stóru draumana.
Persóna Sólveigar ber uppi sýninguna um pabbann enda er Dóri sá eini sem er búinn að eignast barn. Sólveig er alveg fáránlega góð í þessu gervi og er sérlega skemmtilegt að bera hlutverk hennar saman við það síðasta sem hún lék á þessum stað (og leikur kannski enn), nefnilega Sóley Rós ræstitækni. Sem pörupiltur hefur Sólveig komið sér upp hreyfimunstri sem virkar jafnvel óþægilega ekta og ekki spillir fatnaðurinn. Talsmátinn er líka úthugsaður, enskuslettur á sjónvarps-amerísku, barnalegar vangaveltur og svo ljóðin sem eru kapítuli út af fyrir sig. Dóri fór líka með ljóð í Homo Erectus og lofaði þá ljóðabók en hefur ekki staðið við það, mér vitanlega. Eiginlega ætti hann að fjölfalda dálítið hefti og selja það aðdáendum sínum eftir sýningu.
Kynusli er greinilega „inni“ þessi árin því í Borgarleikhúsinu mátti til skamms tíma sjá þær Ólafíu Hrönn og Halldóru Geirharðsdóttur sem Hannes og Smára. Ef þetta eru viðbrögð við of fáum bitastæðum kvenrullum þá eru það góð viðbrögð. Ef þetta er púra löngun til að túlka hvernig „hitt kynið“ lætur þá er sjálfsagt að fagna því líka.