Ég ímynda mér að fleiri leikhúsgestum hafi verið svipað innanbrjósts og mér í lok sýningar á Fólki, stöðum og hlutum í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi: að vona og treysta því að þurfa aldrei að fara í fíkniefnameðferð. Leikrit Duncans Macmillan er djarft að því leyti að það er langt og fer með áhorfendur í gegnum hrylling fráhvarfsins alla vega einu og hálfu sinni – eins og einu sinni hafi ekki verið meira en nóg!
Emma (Nína Dögg Filippusdóttir) er leikkona. Hún er að leika dramatískt atriði í Mávi Tsjekhovs þegar hún skandalíserar á sviðinu og er gert að fara í meðferð. Hún er viss um að hún geti ráðið við fíkn sína upp á eigin spýtur og er afar erfiður sjúklingur læknisins á stofnuninni (Sigrún Edda Björnsdóttir). Hún sýnir öðrum sjúklingum fyrirlitningu og þverneitar að taka þátt í vinnunni í grúppunni. Loks útskrifar hún sig sjálf eftir lágmarkstíma inni og það fer vitaskuld ekki vel. Næst fer hún af (nokkuð) heilum hug á meðferðarstofnunina og þá gengur allt betur. Þó á hún enn eftir að fá áfall sem við vitum ekki hvort hún þolir.
Börkur Jónsson gerir óvænt og spennandi svið fyrir uppsetninguna á Litla sviði, mjóan gang sem minnir á járnbrautarklefa með dyrum á báðum endum þannig að hægt er að renna húsbúnaði í gegn – rúmum, bekkjum, stólum – og fólki. Þetta hraðaði rennslinu og þétti það. Setið er báðum megin við sviðið og alveg upp við það þannig að áhorfendur eru ofan í leikurunum. Hér verður engu leynt. Þetta jók áhrifin til muna og hefðu þó verið ærin án þess. Katja Ebbel Fredriksen gerir búninga sem voru ævinlega réttir. Gaman var að fylgjast með því hvað Emma var alltaf smart, hvaða hallærisgalla sem hún var sett í.
Gísli Örn Garðarsson stýrir hér einvalaliði leikara og fremst meðal jafningja er Nína Dögg í aðalhlutverkinu. Við sátum á fremsta bekk vinstra megin þannig að við vorum svona metra frá henni í hastarlegustu fráhvarfsköstunum og ég veit bara ekki hvernig þetta var hægt sem hún gerði – án þess að hafa einhver meðul til að hjálpa sér. Þetta var makalaus frammistaða og verður ógleymanleg. Sálufélaga hennar í stríðu og blíðu í meðferðinni, fíkilinn Markús, leikur Björn Thors, sömuleiðis svo fantavel að það var erfitt að ákveða á hvort þeirra skyldi horfa þegar bæði voru á sviðinu. Þrátt fyrir mikil andleg og líkamleg átök voru þau ævinlega sönn.
Aðrir gegndu fleiri en einu hlutverki, öll nema Hannes Óli sem lék ráðgjafann Steinar af hógværð og innlifun. Sigrún Edda var í þrem mikilvægum hlutverkum, læknisins, Lindu ráðgjafa og mömmu Emmu, og Jóhann Sigurðarson var líka þrjár persónur, sjúklingarnir Páll og Sveinn og pabbi Emmu. Bæði fóru undralétt með að búa til þrjá gagnólíka karaktera. Loks voru Edda Björg Eyjólfsdóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir í hlutverkum hjúkrunarfræðinga og sjúklinga og áttu ekki í neinum erfiðleikum með að skipta þar á milli. Helst undraðist maður hvað þau voru öll snögg að skipta um gervi.
Þetta er boðunarleikrit en fellur ekki í helstu gildrur slíkra verka, að mínu viti. Miklu skiptir hvað það er vel skrifað, vitsmunalegt og fyndið og þýðing Garðars Gíslasonar er einstaklega þjál og sannfærandi. Líka er plús að hér er ekki boðið upp á endanlegar lausnir – enda munu þær ekki vera til. Við höfum lítillega fengið að kynnast þessu breska leikskáldi, Duncan Macmillan, því Hera Hilmarsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson sýndu okkur leikritið Andaðu eftir hann á minnisstæðri uppsetningu Þóreyjar Sigþórsdóttur í Iðnó í fyrra og svo átti Macmillan með öðrum leikgerðina af 1984 eftir Orwell sem Bergur Þór Ingólfsson setti upp á Nýja sviði Borgarleikhússins í haust sem leið. Það þarf greinilega að fylgjast vel með þessum unga höfundi.
Mestu skiptir þó hvað þessi sýning er unnin og fram borin af mikilli ástríðu. Þó að hún virki eins og áfengismeðferð í rauntíma meðan á henni stendur er ég staðráðin í því að fara aftur.
-Silja Aðalsteinsdóttir