Til hamingju með að vera mannlegSigríður Soffía Níelsdóttir: Til hamingju með að vera mannleg.

JPV útgáfa, 2023. 105 bls.

Samnefnd sýning var sýnd á stóra sviði Þjóðleikhússins vorið og haustið 2023.

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2023.

 

Til hamingju með að vera mannleg er átakanlegt sviðslistaverk eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur danslistamann. Verkið er unnið upp úr samnefndri ljóðabók listamannsins, sem hún orti meðan hún gekkst undir krabbameinsmeðferð. Verkið var sett upp á stóra sviði Þjóðleikhússins, Sigríður Soffía annaðist leikstjórn auk þess sem hún var einn listamannanna á sviðinu. Aðrir flytjendur dans og leiks voru Nína Dögg Filippusdóttir, Hallveig Kristín Eiríksdóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, Svandís Dóra Einarsdóttir og Díana Rut Kristinsdóttir. Aðstoðarleikstjóri var Stefán Hallur Stefánsson og Elín Smáradóttir sýningarstjóri. Jónas Sen sá um píanóleik og flutti meðal annars píanóverk sem hann samdi sérstaklega fyrir verkið. Leikmynda- og búningahönnuður var Brynja Björnsdóttir og Dodda Maggý á heiðurinn af vídeóverkum sýningarinnar.

Sviðsmyndin var nokkuð mínímalísk, en samt sem áður frekar kaotísk. Fyrir framan sjálft sviðið var leikmynd sem líkti eftir heimili. Þar sat píanóleikarinn og tónskáldið Jónas Sen á vinstri vængnum við flygillinn frá upphafi til loka verks. Sviðið sjálft var mestan hluta sýningarinnar galtómt, aðeins gljáandi svartur dansdúkurinn. Við enda gólfsins innst á sviðinu voru stór, síð tjöld. Dansarar og leikendur notuðu þau jafnan til að fara inn og út af sviðinu, auk þess sem þau lifnuðu við með vörpun vídeóverka myndlistarmannsins Doddu Maggýar. Þó hefði mátt nýta stærð sviðsins og þrívíddarmöguleika betur í framsetningu vídeóverksins sem leit út fyrir að vera skorið á mörkum veggjar og gólfs, en með vinnslu og betri lýsingu hefði vörpunin getað notið sín enn betur. Oft ristu þó sjónræn áhrif vörpunarinnar dýpra en sjálfur flutningurinn á sviðinu.

Í upphafi verksins stígur danshöfundurinn Sigríður Soffía sjálf á svið og ávarpar salinn. Tjáningin er hversdagslegt samtalsform svo áhorfendur fá það á tilfinninguna að orðunum sé beint til þeirra og sýningin sé jafnvel ekki hafin fyrir alvöru. Sigríður Soffía segir frá því að í fyrri verkum sínum hafi hún valið að líta fram hjá sársauka heimsins og einblína á töfrana, en það hefur hún sannarlega gert. Hún er menntaður dansari sem hefur togað og teygt hugtakið kóreógrafía langt út fyrir mannslíkamann. Hún hefur kóreógraferað flugeldasýningar, blómabeð og áfram mætti telja. Verk hennar hafa að miklu leyti snúist um að reyna á þolmörkin og víkka út formið, hún hefur leitast við að búa til sprengingar í orðsins fyllstu merkingu.

En aftur að verkinu sem er til umfjöllunar hér. Í opnunarávarpi sínu lýsti hún því stuttlega hvernig hún leit á lífið fyrir krabbameinsmeðferð; oft á tíðum snerust helstu áhyggjur hennar um hvernig áhorfendum myndi líka sýningar hennar, svo breytti hún um stefnu og sagði eitthvað á þessa leið: ,,allt er betra en lamandi lífshræðsla og ef það væri einu áhyggjurnar sem ég hefði, væru það svo geggjaðar áhyggjur að hafa!“ Þetta frumstef var undirtónn sýningarinnar í heild. Sýningin flakkaði á milli alvöru, sorgar, kímni og dramatíkur. Það má því segja að hér sé ákveðið tímamótaverk á ferli höfundarins sem leitast nú við að skapa verk sem er í senn eigin úrvinnsla á banvænum sjúkdómi og hennar fyrsta verk sem tekur á myrkari hliðum lífsins. Verkið er nokkuð sterkt á köflum en áhorfendur finna jafnframt erfiðleikana sem geta fylgt því að setja fram verk sem krefst þess að höfundurinn leggi sál sína á borðið og bjóði til veislu.

Kaflarnir eru til skiptis dramatískir og kaldhæðnislega hressir. Hryllingur sjúkdómsins og veruleika höfundarins kemur skýrt fram í verkinu. Settar eru fram kunnuglegar aðferðir til sjálfsbjargarviðleitni sem hver sem hefur gengið í gegnum veikindi eða átt einhvern nákominn í slíkum aðstæðum getur auðveldlega tengt við. Í verkinu voru vel útfærðar senur sem voru lýsandi fyrir alvarleg veikindi og djúpa sorg, flóknar aðstæður nýs veruleika sjúklings og aðstandenda, en listaverk krefjast þess jafnan að listamaðurinn opni sál sína og sýni það sem býr undir niðri. Allt þetta sammannlega sem við leitumst jafnan við að fela. Djúpa reiði, gremju, viðbjóð, öfund, eftirsjá; hugsanir og mögulegar gjörðir sem eiga sér ekki tilverurétt. Við berjumst við að halda höfði og höldum fast í eigin sjálfsímynd. Sigríður Soffía lýsir þessu vel í verki sínu og ljóðabálki. Þar kemur sterkt fram að það sem skiptir hana mestu máli er að bera höfuðið hátt og opna ekki sinn innsta kjarna. Hún þráði reisn, viðurkenningu og jafnvel daður. Frið í eigin líkama og það mikilvægasta af öllu, sem er hamingja og velferð barnanna. Hún upplifði sig sem eitraða hárkambinn og rauða eplið. Sterk móðurástin og djúpur sársaukinn kom sterkt fram í stórkostlega leiknum senum Nínu Daggar Filippusdóttur við undirleik Jónasar Sen í síðasta atriði fyrir hlé og Svandísar Dóru Einarsdóttur þegar fársjúk móðirin var á barmi þess að bugast.

Sársaukinn kemur skýrt fram, en það sem liggur undir yfirborðinu er enn hulið. Þráin eftir töfrunum hefur yfirhöndina og þegar verkið verður of melankólískt kemur hún sjálf inn á sviðið og segist ætla að skipta um gír og halda veislu. Léleg popptónlist hljómar um salinn og á sviðinu hefst atriði sem minnir helst á freestyle danskeppni í Tónabæ. Hresst og skemmtilegt, en allt út um allt. Vandræðagangurinn og yfirborðsmennskan hefur yfirhöndina, áhorfendur fá ekki að gægjast inn í raunverulegan hugarheim höfundarins. Það er öruggara að halda sig á yfirborðinu og vera hress. Á óútskýranlegan hátt var þetta nokkuð sterkt og vonin um að ælan og hryllingurinn léti sjá sig varð sterkari. Áhorfendur fengu ekki að vita hvað gerðist eftir að vinkonurnar fóru heim eftir átakanlega heimsókn, þar sem kærleikurinn og vinkonuástin réð ríkjum. Mögnuð sena sem lýsir yfirborðslegum samskiptum og vandræðaganginum sem getur fylgt því þegar allir fara ósjálfrátt að leika hlutverk. Gera sitt besta til vera til staðar fyrir ástvin sem á erfitt, en vita ekkert hvernig þeir eiga að haga sér.

Dansverkið er byggt á ljóðabókinni í heild sinni. Eftir lestur bókarinnar er áhugavert að heyra ljóðin flutt á sviðinu því upplifunin er gjörólík. Í orðum lýsir Sigríður Soffía hversu mikið hún saknar líkama síns eins og hann var áður, sterkur og liðugur, þess sem hann gat áður en getur ekki lengur. Líkaminn sem var hennar helsta verkfæri, var orðinn að bráðnandi smjöri. Í sviðsverkinu á stóra sviði Þjóðleikhússins var einnig að finna söknuð. Þrá áhorfenda eftir hreyfiformi líkamans sem tjáningarforms, eftir upplifunum sem hægt er að skapa með  sterkri kóreógrafíu. Orðin og ljóðin áttu yfirhöndina í verkinu. Sigríður Soffía tók stórt skref með því að setja svo persónulega sýningu á svið og fjalla um veruleika þess sem upplifir lífshættulegan sjúkdóm.

Til hamingju með að vera mannleg lýsir upplifun brotinnar skurnar og gróandi sára, töfrarnir eru á næsta leiti.

 

Margrét Áskelsdóttir