Eftir Ófeig Sigurðsson
Brot úr skáldsögunni Skrípinu. Mál og menning gefur út.
Formáli
Mörg vitni voru að draugaganginum eða sjónhverfingunum sem áttu sér stað í Eldborgarsal Hörpu þann 14da febrúar árið 2020, þar sem aðalpersóna þessarar bókar stóð fyrir afar óvenjulegum gjörningi. Sem handhafi áskriftarkorts hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands var ég í salnum þetta kvöld, þó einkum fyrir forvitnissakir, eftir að hafa heyrt auglýsingu í útvarpinu fyrr þann sama dag, þar sem fullyrt var að bandarísk-rússneski píanóleikarinn Vladimir Horowitz, sem hefur verið dauður í 30 ár, væri upprisinn og léki í Eldborgarsal sína frægu Moskvu-tónleika frá 1986.
Rúmu ári síðar, í miðjum heimsfaraldri, hitti ég fyrir tilviljun tónskáldið eða meistarann sem stóð að þessum flutningi Horowitzar í Hörpu. Ég hafði tekið á leigu litla íbúð í Borgerhout-hverfinu í Antwerpen, í því skyni að leggja lokahönd á handrit sem ég var að skrifa. Griðastaður minn var staðsettur í komplexi sem ber heitið Bikverksmiðjan og samanstendur af Airbnb-íbúðum, veitingastað, listasmiðju fyrir hælisleitendur og næturklúbbi. Á nóttinni slógu bassadrunur teknótónlistarinnar fastan takt í klúbbnum niðri sem bárust með veggjum um alla bygginguna, eins og að móðir jörð væri með of háan blóðþrýsting en ég, á griðastað mínum, skelkað fóstur í legi hennar. Hins vegar hljómaði undursamleg tónlist í húsinu á daginn, leikin á píanó, Bach, Mozart, Schumann, Skrjabín, og kunni ég því ákaflega vel á meðan ég var að vinna.
Einn eftirmiðdag, þegar ég var orðinn þurrausinn af leiðréttingum og stagli sem fylgja gjarnan skáldskaparskrifum, gekk ég niður þröngan stigann, ofan af loftinu þar sem íbúðin mín var, til þess að fá mér ferskt loft og svaladrykk í portinu niðri. Á 4ðu hæðinni var opið inn til tónskáldsins og þar staldraði ég við á þröskuldinum og hleraði stöku tón og skrjáf í nótnablöðum. Þá birtist í gættinni smávaxinn maður með gisið grátt hár og úfið, barnslega glettinn til augnanna en um leið þrunginn harmi. Þetta var maestroinn. Hann tók mér fagnandi eins og hann hefði verið að bíða eftir mér, eða þekkti mig, klæddi sig þegar í ullarfrakka, setti upp köflóttan sixpensara og hengdi á sig hvítan trefil. Hann kappklæddi sig þó hlýtt væri úti. Þetta var um vor, 20sta apríl 2021 nánar tiltekið. Við gengum því næst saman niður í portið í Bikverksmiðjunni að fá okkur hressingu eftir vinnudaginn. Í stiganum á leiðinni niður lýsti hann gleði sinni yfir því að hitta mig á þessum tiltekna degi sérstaklega, og tók þegar að segja mér frá tónleikaferðalaginu sem hann hafði verið á en var stöðvað vegna samkomutakmarkana. Þegar við vorum um það bil að setjast setti ég upptöku í gang á diktafóninum, sem ég hef ætíð í brjóstvasanum á jakkanum, án þess að láta maestroinn vita eða biðja um leyfi. Ég vildi ekki stöðva eða trufla flæðið sem þegar var hafið, heldur hlýða á og sjá hvert það leiddi. Textinn sem hér fylgir er umritun af þeirri upptöku, en samtalið varði í fjóra og hálfan tíma, eða hér um bil þann tíma sem tekur að lesa þessa bók.
~ ÓS ~
I
Þetta er martröð. Næstum eitt og hálft ár. Fastur. Einangrun. Við vorum lagðir af stað í tónleikaferðalag um Evrópu en vorum stöðvaðir. Hvar viltu sitja? Í eitt og hálft ár er ég búinn að vera fastur. Hérna undir fíkjutrénu? Dásamlegt. Heyrirðu í fuglunum hvað þeir eru kátir? Komið vor. Þetta eru meisur. Mikið er ég feginn að hitta þig. Ég sé að þér líður vel. Þú ert sterkur og heilbrigður. Þegar ég heyrði marrið í stiganum vissi ég að eitthvað var að fara að gerast. Ég fann það á mér. Undursamlegt. Þarna er Emma. Pantaðu það sama fyrir mig. Við byrjuðum í Reykjavík og vorum komnir til Amsterdam. Hvílíkt martraðarástand þessi misserin. Við vorum að flytja Moskvu-tónleikana frá 1986. Hvílíkt ár! Vladimir Horowitz, þú þekkir hann, er það ekki? Stórkostlegasti píanóleikari 20stu aldar. Þú þarft ekkert að gúgla hann, ég skal segja þér frá honum. Mikið er ég heppinn að rekast á þig. Íslendingur. Ég er Vestur-Íslendingur. Er það ekki stórkostlegt? Kanada, já, ömurlegt land. Land undirgefninnar og land ánauðar. Land óvætta og land sturlunar. Land svika og land morða. Eins og öll Ameríka. Ég veit ekki hvað verður um mig. Hvað verður um þetta allt saman. Ég hef varla hitt nokkurn mann í eitt og hálft ár. Alger einangrun hérna í Bikverksmiðjunni. Ég er heppinn að vera einsetumaður í eðli mínu. Við vorum rétt að byrja þegar mannkynið var hneppt í varðhald. Þetta er sturlun. Ég finn bara svo til með öðru fólki. Næst á eftir Amsterdam var Brussel, þá Berlín, þá Vín, þá Moskva. Við ætluðum alla leið til Jerúsalem. Ég kallaði þetta Friðarferðalagið. Pílagrímsför. Allt saman stöðvað af hinu Illa. Svo það verður enginn friður í bráð heldur stríð. Fyrst gekk allt vonum framar. Í Reykjavík. Áður en þessi undur og stórmerki áttu sér stað í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu. Áður en draugagangurinn tók völdin. Áður en COVID-19 tók völdin.
Ég var mættur eldsnemma um morguninn í Eldborgina. 14da febrúar 2020. Öryggisvörðurinn hleypti mér inn um neðanjarðardyr fyrir framan tónlistarhúsið, indæll ungur maður frá Kongó sem heitir Doudou, þrekvaxinn, nærri helmingi hærri en ég, ráðinn af belgísku öryggisfyrirtæki með útibú á Íslandi. Tölvukubbur hafði verið græddur í hann svo hann gæti ekki brotið af sér. Ég er alfarið á móti þessum ígræðslum en Doudou brosti bara til mín og sagði að þetta væru óþarfa áhyggjur í mér. Ég yrði að læra að treysta fólki. Þú tortryggir allt, sagði Doudou, sem er vandamál. Það var greinilega eitthvert forrit í tölvukubbnum í hausnum á honum sem gerði ráð fyrir gömlum nöldurseggjum eins og mér. Hvað segirðu um það, Doudou, að ég skeri tölvukubbinn úr höfðinu á þér og við förum saman og fáum okkur morgunmat einhversstaðar? Svo hlógum við. Það var svo indælt að mæta einlægu brosi hans í gættinni undir planinu, eftir að hafa gengið um auð stræti Reykjavíkur í hríðinni og febrúarmyrkrinu, áður en borgarbúar vöknuðu og hófu sinn daglega hernað gegn andrúmsloftinu.
Ég gisti alltaf á Hótel Holti þegar ég er á Íslandi. Herbergi 420. Það er kallað Klefinn. Það er minnsta herbergið á þessu elsta og besta hóteli borgarinnar. Á fjórðu hæðinni innst. Með litlum svölum. Útsýni ofan af holtinu yfir Tjörnina. Klefinn er hálfgert aukaherbergi, og sjaldan leigt út, en stundum haft undir erlendar þernur sem eiga í engin hús að venda. Herbergið þykir ekki boðlegt neinum vegna smæðar nema einstaka farandverkakonu eða einsetumanni eins og mér. Það hefur alltaf verið laust þegar við gömlu Vestur-Íslendingarnir komum í árlega ferð okkar. Ég veit ekki hversu lengi ég get kallað mig Vestur-Íslending. Senn verðum við öll horfin. Horfin inn í sameiginlega gleymskuna. Þess vegna tölum við saman á ensku. Klefinn minnir á káetu, herbergið, það er eins og ég sé á skipi, á siglingu um Þingholtin. Þar eru einu þægindin sem ég þarf, lítið rúm, borð og stóll, vaskur. Klósett og sturta. Yfir rúminu hangir prent af Eldborg í Hnappadal í gylltum ramma. Sporöskjulaga gígurinn rís hátt á sléttunni, fullkominn í forminu. Á ganginum frammi eru einnig myndir sem hafa verið skornar úr 18du og 19du aldar ferðabókum og seldar á uppboðum. Þar eru þeir Hooker og Holland, Henderson og Horrebow. Þar eru þeir Eggert & Bjarni.
Ég tek daginn snemma, býð öllum þessum fornu ferðalöngum góðan dag, þótt enn sé ekki kominn dagur. Ferðir þeirra hafa enn ekki tekið enda. Ferðir inn í rask og rústir. Ferðir inn í námugröft og niðurbrot. Ferðalög taka, þegar nánar er að gáð, aldrei enda. Hér á jörðu erum við pílagrímar, skrifaði móðir mín í sjálfsævisögu sinni, aðeins á leiðinni í gegn. Ég ræsi skóburstavélina á stigapallinum, undir stórum steindum glugga, renni tánni undir kremboltann, pússa svo skóna með svarta burstanum. Þeir glansa í birtunni frá glugganum í stigaganginum þó að enn sé nótt þegar ég trítla ofan af 4ðu hæðinni niður í gestamóttökuna. Þar er enginn. Næturvörðurinn, ungur heimspekinemi sem situr í koníaksstofunni allar nætur með klúbbsamloku og rauðvínsglas og er að skrifa sína fyrstu skáldsögu, sprettur á fætur þegar ég býð honum góðan daginn. Hann þekkir mig og veit hvað mig vanhagar um, það er enn töluvert í að morgunverðarsalurinn verði opnaður. Náttskáldið fer inn á barinn og hellir upp á espressókaffi og skenkir sódavatn í lítið glas handa mér. Þetta drekk ég í gestamóttökunni. Síðan opnar hann fyrir mig dyrnar út í heimskautamyrkrið þar sem norðanáttin næðir eftir götunni og ljósastaurarnir lýsa upp élin innan frá. Hyperborealis, segir Náttskáldið þegar ég spyr hann um efni bókarinnar, sæluríkið handan norðanvindsins. Ferðabók, sem sagt, segi ég og bretti upp kragann á frakkanum. Það má segja það, segir Náttskáldið. Ég þétti hvítan trefilinn um hálsinn, dreg eyrnaskjólin niður úr sixpensaranum, set á mig fingravettlingana og þramma af stað niður holtið í hríðinni. Til móts við þau undur og stórmerki sem senn skyldu eiga sér stað í tónlistarhúsinu.