Eftir Jónas Reyni Gunnarsson.
Brot úr skáldsögunni Múffa. Forlagið gefur út.
Viku áður en Bjössi fór frá Ölmu vaknaði hún við hljóð fyrir utan svefnherbergisgluggann. Það heyrðust skruðningar, eins og verið væri að róta í ruslinu eða runnabeðinu. Það var eins og einhver væri að grafa sig upp úr myrkrinu bak við augnlok hennar.
Alma opnaði augun og þurfti að pissa. Hún fór á fætur og gekk að baðherberginu. Hún sleppti því að kveikja ljósin af því að hver sekúnda af ljósi sem skini í augu hennar væri að minnsta kosti mínútu að líða úr henni. Húsið var þögult og hún pissaði með lokuð augun. Hún sturtaði ekki niður þegar hún pissaði á nóttunni því hávaðinn raskaði kyrrðinni á heimilinu. Að þessu leyti var hún tillitssamari en Bjössi. Hversu oft hafði hann ekki vakið h na með brussugangi? Alma var vön að ganga á táberginu, Bjössi á hælunum. Hann þrammaði alltaf um og snýtti sér. Hann var jafn nærgætinn og traktor. Ástæða þess að sambandið hélst gangandi var að hún var nógu þroskuð til að líta fram hjá göllum hans.
Hættu að röfla.
Bjössi lá varnarlaus inni í hjónaherbergi og svaf. Hún þvoði sér um hendurnar. Hún mætti ekki vera of lengi á fótum ef hún ætlaði að sofna aftur og hún mætti ekki fara að hugsa of djúpt. Hún mætti heldur ekki hugsa grunnt. Allar gerðir hugsana að nóttu til höfðu skriðþunga sem erfitt var að ráða við.
Alma ráfaði eins og draugur eftir ganginum í átt að eldhúsinu. Hún var í snjáðum og slitnum náttbuxum sem hún hafði fyrir löngu ætlað að henda. Á rassinum stóð Barbie, hún hafði fengið þær í fertugsafmælisgjöf frá samkennurum sínum. Hún hafði litað hárið á sér bleikt þegar hún flutti í þorpið og haldið sig við litinn síðan. Bleiki liturinn var uppreisn. Hann var tilraun sem stóð enn yfir. Hann var brandari. Hann var andstæðan við brandara.
Hún skrúfaði frá krananum, fyllti glasið og fékk sér sopa, og þegar vatnið snerti tunguna rankaði hún við sér og mundi hvað hafði vakið hana.
Hún hafði vaknað við að einhver var í garðinum þeirra.
Ölmu svelgdist á vatninu. Hún hóstaði og lagði glasið í flýti frá sér í vaskinn en hreyfingin var svo mjúk og hljóðlát að henni fannst glasið vera úr þunnum pappír.
Hún teygði sig yfir eldhúsbekkinn, horfði út um gluggann og reyndi að sjá hvort einhver læddist meðfram húsinu. Hún fór inn í forstofu, klæddi sig í úlpuna hans Bjössa, opnaði dyrnar og steig út.
Myrkrið var áþreifanlegt. Loftið var fullt af ryki. Hún mundi eftir því sem hún hafði heyrt í veðurfréttunum, mengunarský var á leið yfir landið og fólki var ráðlagt að halda sig inni. Skilin á milli inni og úti voru svo skörp að Alma vaknaði upp á nýtt. Hún reyndi að líta fyrir hornið á húsinu en gat það ekki. Hún hugsaði um að hverfa í tómið. Hún hugsaði um Margréti, barnsmóður Bjössa sem hafði horfið í tómið fyrir um þrjátíu árum síðan, og hún hugsaði um Reinhold, vin sinn úr menntaskólanum, og hvernig fjölskylda hans hafði líka horfið í tómið. Einhver fyrirboði lá í loftinu. Þessi nótt, nákvæmlega þessi nótt, hafði beðið hennar allt hennar líf. Húsið hafði verndað hana en nú var hún komin út og átti á hættu á að hverfa í tómið.
Hættu þessu.
Hún hefði átt að vekja Bjössa, jafnvel að hringja í lögregluna. Að minnsta kosti hefði hún átt að kveikja ljósið í herberginu í von um að hræða þann sem var í garðinum burt, í stað þess að fara út á náttfötunum, í úlpu og inniskóm, og bjóða honum að drepa sig án nokkurrar fyrirhafnar. Svefngengill á sextugsaldri stunginn til bana af fíkli – þetta yrði fyrirsögnin í blaðinu. Sérvitringur tekinn af lífi. Lífsþreytt kona gengur í opinn dauðann. Hún hélt niðri í sér andanum og gægðist inn í garðinn. Hún sá engan, hvorki við ruslatunnurnar né runnann, og gekk út innkeyrsluna. Í öllum húsunum í götunni voru ljósin slökkt. Hún sá heldur ekkert sem var óvenjulegt hjá nágrönnum sínum, engan bíl sem hún þekkti ekki, dyr sem stóðu upp á gátt, brotna rúðu. Hún hélt áfram í átt að aðalgötunni, beygði til vinstri og fór inn götuna sem var samhliða hennar eigin götu. Það væri öruggara að koma að garðinum aftan frá.
Stuttu síðar var Alma komin að húsinu sem var fyrir aftan húsið hennar. Þéttur runni aðskildi lóðirnar. Þrátt fyrir að nágrannar hennar hefðu búið þarna í rúman áratug gat Alma ekki sagt að hún þekkti þá. Hún gekk hægt að húsinu og læddist inn í garðinn. Greinar og lauf þöktu grasið og það brakaði í þeim þegar Alma gekk fram hjá glugganum þar sem hún giskaði á að hjónaherbergið væri. Það mótaði fyrir henni í rúðunni. Hún ímyndaði sér hvernig nágrönnum hennar liði ef þeir sæju hana út um gluggann. Ef þeir vöknuðu upp við hljóðið í henni þegar hún gengi í gegnum garðinn, ef þeir færu á fætur til að pissa, gengju inn í eldhúsið, fengju sér vatnsglas og færu út að leita að henni. Hún gekk að runnanum. Það heyrðist skrjáf þegar greinarnar nudduðust við úlpuna hans Bjössa og svo var hún komin í gegn. Hún stóð í garðinum sínum.
Í herberginu hans Markúsar var ljósið kveikt. Gardínurnar voru dregnar fyrir og glugginn lýstur upp af daufblárri birtu.
Markús, þrjátíu og þriggja ára stjúpsonur hennar, lifði í draumi, þrátt fyrir að vera nú vakandi um miðja nótt. Höfundar draumsins voru bandarískir tölvuleikjahönnuðir og japanskir klámframleiðendur. Markús bjó í veröld sem var búin til af þessu ókunnuga fólki, öllum þessum listamönnum sem bjuggu til teiknimyndirnar sem hann var alltaf að horfa á, perrunum sem skrifuðu bækurnar og myndasögurnar sem hann las, öllum kvikmyndaleikstjórunum, teiknurunum, leikkonunum, svo ekki væri minnst á gos- og snakkfyrirtækin og aðila sem báru ábyrgð á því að örbylgjuborgarar og kjötlokur fengust í sjoppunni. Þarna átti Markús heima. Það sem aðrir kölluðu lífið var ekki til fyrir honum.
Rykið hékk í loftinu. Það var næstum of létt til að falla niður en gerði það samt, ofurhægt, og Ölmu fannst allt vera að líða upp í átt að skýjunum, í átt að einhverju óendanlegu. Það er eitthvað þarna, hugsaði hún og heyrði þá aftur skruðningana sem höfðu vakið hana. Þeir bárust frá vesturhlið hússins, frá gaflinum. Alma gekk í áttina að þeim. Þegar hún kom fyrir hornið sá hún hvað það var sem framkallaði hljóðið. Henni varð skyndilega mjög kalt.
Þetta var hundur. Hann virtist vera gamall. Feldurinn var grár og flekkóttur, ekki ólíkur hýenu.
Hann var við sárið í lóðinni þar sem þau höfðu rifið upp berjarunnann í fyrra og var að grafa eftir einhverju í moldinni. Allt í einu stoppaði hann og stóð alveg kyrr og þó að Alma vissi að það væri vitleysa fannst henni að hundurinn væri ekki ekta, að einhver hefði komið honum þarna fyrir til að hrekkja hana. Þá sneri hann sér við og leit á hana. Augnaráð hans var svo sjálfsöruggt að henni fannst það vera hún sjálf en ekki hundurinn sem var gripin við að gera eitthvað sem hún ætti ekki að vera að gera.
Hundurinn leit undan og gekk rólega meðfram húsinu. Hann stoppaði við glugga Markúsar, settist niður og klóraði létt á vegginn. Hönd Markúsar birtist út um gluggann með nagað kjúklingalæri. Hann sleppti því og hundurinn greip það í loftinu, kjamsaði á kjötinu í flýti og sneri sér aftur að glugganum. Alma stóð kyrr og fylgdist með.
Næst reyndi Markús að koma heilum matardisk út um gluggann. Þetta var afgangur af kvöldmatnum, kjúklingabein, kjúklingaskinn, hrásalat, franskar kartöflur og kokteilsósa, og hann sturtaði öllu út og skóf sósuna af með hníf. Klessan lenti á trýninu á hundinum.
Markús var löngu hættur að koma þeim á óvart. Hegðun hans var fullkomlega fyrirsjáanleg, líf hans hafði staðið í stað frá því hann útskrifaðist úr grunnskóla. Alma hafði hjálpað honum með samræmdu prófin. Hún hafði setið yfir honum með námsbækur í eldhúsinu, hlýtt honum yfir og tuggið námsefnið ofan í hann. Kennararnir höfðu sagt hann eiga við námsörðugleika að stríða og sálfræðingur hafði mælt hann með lága greind en Ölmu fannst vandamálið vera áhugaleysi, Markús hafði einfaldlega engan áhuga á grunnatriðum mannlegs samfélags. Þetta var þegar þau bjuggu í Reykjavík og Alma var að kenna fornaldarheimspeki í háskólanum. Hún gat auðveldlega kennt Sókrates á sjálfstýringu en heima í eldhúsinu með Markúsi reyndi á hana. Hún helgaði sig því að koma honum í gegnum prófin og þegar það tókst breyttist samband þeirra. Það varð til skilningur eða traust á milli þeirra og síðan þá hafði Alma alltaf vitað nákvæmlega hvar hún hafði hann. Hún vissi að hann horfði á japanskar klámteiknimyndir þar sem kolkrabbar riðu konum og hafði rekist á stjúpmömmuklám á tölvuskjánum þegar hún fór inn í herbergið hans til að ryksuga, og þó að það stuðaði hana fann hún öryggi í því að vita hvar hún hafði hann. En þetta með hundinn var nýtt.
Hann hámaði matinn í sig. Hann át svo hratt að hann reif grasið upp í leiðinni. Stráin stóðu út úr kjaftinum og dönsuðu upp og niður þegar hann tuggði. Hann varð vitfirringslegur, sleftaumar flugu út úr honum og hann urraði á milli bita og stundum tóku vöðvarnir kippi eins og hann ætti von á árás á hverri stundu. En þegar hann var búinn að kyngja síðasta bitanum varð hann samstundis aftur rólegur.
Að máltíðinni lokinni beygði hann sig niður og skeit í grasið. Því næst tiplaði hann að því er virtist fullkomlega áhyggjulaus burt, tignarlega, næstum eins og hestur á tölti, og þegar hann kom á hellurnar í heimreiðinni heyrðist tipp-tipp-tipp … og hann var horfinn. Út um glugga Markúsar barst dauft ískur frá tölvustólnum.
Alma gekk að sárinu við húsgaflinn. Hún starði á það nokkra stund og þegar hún rankaði við sér fannst henni hún ekki hafa hugsað eina hugsun síðan hún nam staðar. Hún beygði sig niður og gróf í moldina með fingrunum. Þar voru bein. Kótilettubein, skankar, lambalæri sem hafði verið í matinn fyrir mánuði. Hún leit upp og horfði eftir tunglinu en loftið var mettað af ryki. Úlpan hans Bjössa var þakin grárri skán.
Þegar Alma lagðist í rúmið og lokaði augunum héldu tvær hugsanir fyrir henni vöku:
- Það var flækingshundur í þorpinu.
- Markús var að gefa honum mat.
Þetta var alls ekki flókið en samt fannst henni að það kæmi ekki heim og saman. Hún reyndi að hætta að hugsa um þetta og sjá fyrir sér morgundaginn. Hún hugsaði um að vakna og fara að pissa, að kveikja á útvarpinu, hella upp á kaffi, að fá sér morgunmat, en þetta hljómaði allt svo heimskulega. Og þegar hún tók að líða inn í svefninn sá hún að hundurinn var þar líka. Hann gekk um þorpið í leit að æti. Alma elti hann og þó að hún sæi Markús hvergi var hún viss um að hann væri ekki langt undan. Hún reyndi að fela sig til að styggja ekki hundinn og um leið reyndi hún að forðast að Markús kæmi aftan að henni. Það var eins og þeir vissu eitthvað sem hún vissi ekki. Rykið, myrkrið, hundurinn – myndirnar birtust henni og hurfu jafnóðum og svo opnaði hún örsnöggt augun og fann að hún var ekki alveg sofnuð, hún var á mörkunum milli svefns og vöku. Síðan lokuðust augun aftur, andardrátturinn varð hægari og rétt áður en hún sofnaði varð allt fullkomlega skýrt fyrir henni:
Þetta hafði verið Díogenes.
Þetta hafði verið heimspekingurinn sem þau Reinhold, besti vinur hennar í menntaskóla, höfðu gert að fyrirmynd sinni. Hundinginn sem lifði í leirkeri á torginu í Aþenu og gerði þarfir sínar á götuna. Hann hafði komið til að segja henni eitthvað. Eitthvað um lífið sem hún lifði, eitthvað um Markús.