Eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur.

Brot úr skáldsögunni Moldin heit. Drápa gefur út.

 

ég er mjög hrifinn af því hvernig þú hreyfir þig

takk

*andar hratt eftir áreynsluna*

hátturinn er svo frjálslegur

eða …stíllinn

eða hvað maður segir

já einmitt …

 

að minnsta kosti miðað við

hvernig ég hugsa um

þessa … mm

… list?

… íþrótt?

*hlátur*

*hlátur*

hvort er það? list eða íþrótt?

veistu, ég bara … er ekki viss

hefurðu aldrei pælt í því?

jújú, ég bara …

það er meira að ég get ekki

ákveðið mig

þetta er bara ekki svo einfalt

þetta er ekki bara íþrótt

og þetta er ekki heldur bara list

list-íþrótt?

*bros*

nei, ekki það heldur. það fer …

það fer lengra. þetta er eins …

eins og trú

ha? í alvöru?

*hlátur*

 

og hvað ertu þá að tilbiðja?

eða, ég veit ekki – það er ekki beint þannig …

en

ég mæti í þetta hús á hverjum degi … og framkvæmi sömu hreyfingarnar aftur og aftur

og það er svolítið eins og að mæta í kirkju

maður sameinast einhvern veginn öllum hinum … í einhverju hugarfari … og hverfur inn í það

það er kannski þess vegna sem

þú ert svona

svona hvernig?

bara … ég veit ekki … svona frjáls?

finnst þér ég vera frjáls?

ertu það ekki?

ég veit það ekki …

en ef ég má spyrja

hvers vegna þú

hvers vegna þú og ekki …

einhver allt önnur?

sem tekur þetta hlutverk að sér?

ég veit ekki með …

þú ert náttúrulega sexí

haha

nei mér er alvara

*roði í kinnum*

finnst þér kynþokki skipta

miklu máli?

gerir hann það ekki?

ég held það

þar sem líkaminn er

annars vegar

þá er alltaf einhver spenna

einhver … orka

*færir sig nær*

                                                                                        *hitnar*

*færir sig nær*                                                                        *færir sig nær*

*andar hraðar*                                                *kyngir*

*lítur upp*                              *lítur upp*

*kyssir*           *kyssir*

*kyssir*           *kyssir*

*færir sig fjær*

fyrirgefðu                                allt í góðu

ég ætlaði ekki að                                 nei, ég …

*kyssir*

*kyssast*

*brosir*                       *opnar augun*

viltu sýna mér

þennan part sem ert bara þú

segðu mér frá honum                                      *brosir*

*stendur upp*

*eltir með augunum*

fyrst

*andar hratt*

fyrst afmarka ég svona lítinn skika

kannski ferkantað

eða átthyrnt pláss

ekki bara hring?

nei, það verður að vera beitt

er þá mikilvægt að það séu horn?

*hlær*

þetta þarf að vera hvasst og sóðalegt

af því að hún er að deyja

og svo anda ég alltaf

djúpt og hratt

af því að *andar frá sér* hún

sem ég er að túlka

hún er ekki með sama úthald og þú

akkúrat!

þetta eru andarslitur

og hún kastast til og frá

hún er spennt og hrædd

en full … göfgi

*dæsir*

því það er mikill heiður

að fá að gera þetta

*nemur staðar*

deyja?

fórna sér

 

má ég biðja þig um greiða

viltu sitja fyrir á mynd hjá mér?

er ég ekki að því?

*hristir höfuðið*

jú en fyrir annað verkefni

bara uppi á stofu

                                                                        já

                                                                                    já, ég er alveg til

frábært

 

langar þig að halda aðeins áfram?

*kinkar kolli*

 

*smellir af*

ertu til í að fara þangað?

*smellir af*

horfðu inn í rýmið!

breiddu út … *smellir af*

já, svona …

 

 

(bls. 153)

 

Ímyndaðu þér að einhver, segjum að það hafi verið ég, hafi tekið stöng og rekið þig í gegn með henni. Í gegnum kollinn, niður í gegnum búkinn, út um rófubeinið, á milli fóta þinna. Mjaðmirnar, brjóstkassinn og höfuðið snúast síðan í kringum þessa stöng – fara hvorki upp né niður. Þetta eru tveir hlutar af líkama þínum sem eru óháðir frá öðrum. Þeir geta hreyfst hvor í sína átt og þeir geta líka hreyfst í sömu átt. En þeir eru tvær aðskildar einingar. Mundu þetta og þá stendur þú ávallt bein í baki. Mundu þetta og þú munt ganga hnarreist í gegnum lífið.

 

(bls. 159-162)

 

ánamaðkar

Ég sting hendinni á kaf í moldina og róta um. Reyni að losa aðeins um ræturnar á illgresinu og hreinsa til í beðinu fyrir aftan húsið. Þar hefur Esja gróðursett alls kyns jurtir og grænmeti. Við höfum síðan við komum fylgst með rabarbörunum stækka, graslauknum taka að blómgast og myntunni dreifa sér. Esja lofaði okkur því að við fengjum eitthvað með okkur heim þegar að því kæmi. Þótt ég sé reyndar kannski farin að vona að þið farið ekkert heim, bætti hún svo við brosandi.

Við höfum ákveðið að taka upp einn kálhausanna og útbúa salat, þrátt fyrir að ekki sé enn komið að uppskeru. Jarðarförin er á morgun og við ætlum að gera vel við okkur, vera svolítið sumarleg. Þetta verður matarmikið salat, með fræjum og ávöxtum og balsamik-ediki.

Núna í vor kom ég við hjá mömmu og við tókum til í garðinum hennar. Reiturinn var ekki stór en henni var mikið í mun að hann væri hreinn og snyrtilegur. Ég sló grasið fyrir hana og við hjálpuðumst að við að raka því saman og skófla því öllu upp í hjólbörurnar. Á meðan hún smúlaði gluggana og grindverkið reytti ég arfa í beðunum tveimur. Ég reytti upp hvern fíflastilkinn á fætur öðrum, stakk skóflunni á kaf og þrýsti upp á við þar til ég fann að eitthvað losnaði. Svo lyfti ég rótinni upp og hristi moldina af henni áður en ég lagði hana í hrúguna.

Ég færði mig kerfisbundið um beðið, hirti allt það græna, minnstu spírur tók ég upp með þumli og vísifingri og kom þeim fyrir í hrúgunni. Færði mig frá hægri til vinstri og aftur vinstri til hægri þar til brúnn litur moldarinnar var allsráðandi.

Það var ekki það að mér væri svo umhugað um jarðarberjaplöntuna sem ég var að snyrta í kringum, eða að mér þætti illgresi eitthvað slæmt. Frekar langaði mig að sjá hvað gerðist ef moldin væri alveg ber. Sæi ég hreyfinguna fyrir neðan? Kæmu ormarnir upp til að spóka sig? Ég kom miklu róti á jarðveginn og eflaust eyðilagði ég fyrir sumum þeirra, líklega urðu einhverjir þeirra ósáttir. Suma hjó ég líklega í tvennt. Þegar ég lyfti plöntunni upp úr og ætlaði að hrista hana sá ég hvar nokkrir ánamaðkar höfðu hreiðrað um sig í rótunum. Moldin þykk og ormurinn þar eins og barn sem hjúfrar sig undir mjúkri sæng.

Það er einkennilegt að hirða um beð í einum garði og taka svo upp grænmeti í öðrum. Það er lítil fylgni í því, engin leið að sjá afleiðingar eigin gjörða eða uppskera eigin fræ. Ef til vill er það þannig sem margt er – eins og mamma segir svo oft um dyr sem opnast og lokast, að þú opnar kannski einar dyr en þær eru ekki fyrir þig heldur fyrir einhvern annan. Þú stígur ekki í gegnum þær dyr sem þú opnar sjálf – heldur bíður þar til einhver opnar þær fyrir þig – og svo framvegis og svo framvegis. Mér hefur alltaf fundist þessi hugsun hennar óþægileg. Tilveran svo háð öðrum, svo mikið … umkomuleysi – ég þoldi það ekki.

Ég stend upp með kálhausinn og geng með hann inn í húsið. Ýmir situr við borðstofuborðið og sker tómata, en Esja skolar ferskjur í vaskinum. Þau humma eitthvað á víxl: erindi úr sama laginu, klára laglínur hvort hjá öðru. Við Esja skiptumst á matföngum, hún tekur kálhausinn og skolar, en ég tek ferskjurnar og sest hjá Ými til þess að skera þær. Hægt og rólega fyllist salatskálin: gúrkubitar, graskersfræ, furuhnetur, geitaostur. Við hvolfum af skurðbrettunum okkar, eitt af öðru, ofan í hana.

Þegar ég var búin að hreinsa beðin heima hjá mömmu bauð hún mér inn í kaffi. Ég þvoði mér um hendur og rölti inn í eldhús. Þar var hún sest við eldhúsborðið með kaffið tilbúið. Á borðinu lá opinn Moggi sem hún var að skoða, þar sem ég sá, fyrir algjöra tilviljun, dánartilkynningu með mynd af ljósmyndaranum. Ég beygði mig yfir blaðið.

Fyrst hélt ég að þetta væri kannski pabbi hans eða einhver maður sem líktist honum svona ógnarmikið, en svo sá ég vinnutitilinn. Þetta var hann. Ég gat ekki horft lengi. Vildi ekki að mamma sæi áhuga minn á þessari dánartilkynningu. Þegar ég lyfti höfðinu spurði hún mig þó.

þekkirðu þennan?

ha? nei

hann er bara svo líkur

einum sem ég þekki

þeir hljóta þá að vera

skyldir

þú ættir að hringja í hann,

þennan sem þú þekkir

og votta samúð þína

*tekur sopa af kaffinu*

*stendur upp í fáti*

heyrðu, ég var að muna

að ég þarf að vera mætt …

hérna

nújá

*opnar strætó-appið*

Ég settist í næstöftustu sætaröðina eins og venjulega. Þetta var eini strætó borgarinnar sem hafði enga tímajöfnun og hringsólaði allan daginn án þess að nema staðar fyrir alvöru, og varð           því alltaf seinni og seinni eftir því sem leið á daginn. Ég missti af stoppinu mínu, en þegar það rann upp fyrir mér var ég farin hringinn og komin framhjá stoppinu mínu aftur, á leið austur í bæ.

Skjárinn fyrir ofan ganginn var bilaður og í staðinn fyrir upplýsingar um næsta áfangastað streymdu yfir han n óskiljanleg pixlaform. Einhver opnaði bjór fyrir aftan mig og hóstaði hátt um leið, svo hljóðið bærist ekki fram til bílstjórans, sem þó hefði lítið heyrt þar sem hann var í símanum. Ég missti aftur af stoppinu mínu. Og aftur. Það var ekki fyrr en við vorum komin á þriðja hring að maðurinn fyrir aftan mig, sem þegar hafði hvolft í sig tveimur á leiðinni, potaði í mig og spurði: Heyrðu vinan, ertu ekki eitthvað að ruglast? Ég hrökk við, kinkaði kolli og ýtti á stopp-takkann. Vélræn röddin tilkynnti með ró að næsti áfangastaður væri … en þagði svo. Á skjánum stóð *‘..*-_. Ég steig út og áttaði mig skyndilega á því að ég vissi ekki hvar ég var.

Birgitta Björg Guðmarsdóttir