Eftir Sunnu Dís Másdóttur.

Brot úr skáldsögunni Kul. Forlagið gefur út.

Hákon hefur mjög þægilega nærveru. Hann brosir mikið á meðan hann talar en það virkar ekki falskt og ekki heldur eins og hann sé að reyna að knýja fram viðbrögð hjá okkur, rukka okkur um glaðværð. Frekar eins og honum líði vel og hann skammist sín ekki fyrir að við sjáum það. Kannski er hann bara svona yfirmáta senaður í samanburði við okkur hin, hróin á plaststólunum. Konan í jogginggallanum hefur vafið handleggjunum utan um sig. Hún situr með krosslagða fótleggi og dinglar ökklanum stöðugt og hratt.

Við erum þau fyrstu í prógramminu, eins og Hákon kallar það, við sex sem sitjum hér í kvöld. Við erum tilraunadýrin, frumkvöðlarnir, fólkið sem er nægilega hugrakkt til að leita sér bata eftir algjörlega nýjum leiðum, segir hann og bætir við: Mig langar að segja ykkur aðeins frá því hvernig þetta er allt til komið.

Hákon hallar sér aftur á stólnum svo það brestur í bakinu. Hann situr gleiður og hvílir hendurnar á hnjánum en ég hugsa samt ekki um hrútskýringar og plássfreka biðstofukalla.

Ég veiktist fyrir nokkrum árum, segir Hákon og lyftir höndunum af hnjánum eitt augnablik, eins og hann sé í viðbragðsstöðu. Þá bjó ég í London, heldur hann áfram, vann sem mannauðsráðgjafi hjá risastóru fyrirtæki, átti íbúð og bíl, þótt það sé óþarfi í borg eins og London, almenningssamgöngur með besta móti, ég var ánægður. Og svo veiktist ég. Hákon opnar faðminn. Til að gera langa sögu stutta gekk ég á milli lækna í London, segir hann, góðra flinkra lækna, í marga mánuði áður en ég kom íbúðinni minni í útleigu, seldi bílinn og kom heim, aftur hingað á byrjunarreit, heim í gamla bæinn minn. Og það var fyrst þá, fyrst hér, sem ég náði bata.

Hann hallar sér fram á stólnum. Við horfum öll á hann. Inga hrærir í kaffibollanum sínum með teskeið sem glamrar í.

Hákon virðir okkur fyrir sér áður en hann heldur áfram. Ég er ekki að segja að ykkar ferðalag verði eins og mitt, segir hann mildilega. En ég get sagt ykkur að það var bara hér, í kyrrðinni og myrkrinu og kuldanum, sem mér tókst að finna neistann aftur.

Annar karlmannanna í hópnum ruggar sér aðeins til á stólnum og Hákon lítur til hans með bros á vör. Myrkrið er vinur okkar! segir hann svo og breiðir aftur út faðminn. Það er bara þar sem við sleppum takinu á öllu öðru, fókuserum alla okkar orku á að bara vera, og það er þar sem við náum bata. Við, sem nútímasamfélag, erum allt of hrædd við myrkrið, við dvalann, við kyrrstöðuna. Við æðum um, keppumst við að hafa sem mest að gera, afkasta sem mestu, til þess að þurfa aldrei að staldra við. En hérna? Hér er ekkert val. Hér er engu að afkasta, ekkert að gera.

Hann þagnar, og það er þögn eins og hjá leikara á sviði, á meðan hann horfir yfir hópinn. Það vantar bara ljóskastarann, en svo er hans kannski ekki þörf því við horfum hvort sem er öll á hann og bíðum eftir framhaldinu.

Það er hér, segir hann svo, hægt og lágróma, sem við getum horfst í augu við myrkrið. Bæði úti fyrir – hann hikar aftur – og hið innra.

Hann brosir í kampinn og leggur hægri hönd á bringuna. Ég hrekk við þegar soghljóðið í fellihurðinni heyrist aftur, eins og einhver svelgi að sér andann.

Í dyrunum stendur kona í skærfjólublárri lopapeysu, gallabuxum og háum stígvélum yfir. Þetta er sú sem ég sá þegar við keyrðum inn í bæinn fyrr um daginn og nú fer ekkert á milli mála að hún er kona og að hún minnir mig sterklega á Rúrí.

 

*

 

Ég hef alltaf fylgst með fólki. Ekki endilega mér til ánægju, ég kann bara ekki að gera það ekki. Rúrí var vön að hrista hausinn yfir mér, svo dökkur toppurinn dansaði á enninu, þegar ég lýsti einhverjum, sama hvort það voru skólafélagar okkar eða einhver sætur úr Tónabæ.

Þú ert ekki normal, sagði hún, þegar ég útlistaði hvernig sæti strákurinn var með kæk sem fólst í því að rétta og kreppa fingurna, eða hvernig Anna Helga bekkjarsystir beit á vörina í hvert skipti sem hún hafði eitthvað spennandi fram að færa. Ég mátaði það fyrir framan spegilinn en fannst það ekki fara mér.

Ég hafði alltaf stúderað annað fólk. Hvernig það hreyfði sig, hvernig það talaði, hvernig það hlustaði. Þegar ég var unglingur forðaðist ég samskipti við ókunnugt fólk nema ég væri búin að semja handrit í höfðinu á mér. Þá komu þessar stúdíur sér vel, ég gat nýtt ýmislegt úr rannsóknarvinnu minni.

Ég er enn ekki alveg viss um að kækirnir mínir séu mínir kækir eða eitthvað sem ég hef safnað eins og aðrir safna servíettum eða þurrum fiðrildum á prjóni.

 

*

 

Foreldrar Örvars buðu okkur í mat á laugardagskvöldið, kvöldið áður en ég fór. Mig langaði ekkert sérstaklega en um leið var mér hálflétt. Ég kveið því að vera ein heima með Örvari þetta síðasta kvöld okkar saman í tvo mánuði. Við höfðum ekki verið í sundur svona lengi síðan við byrjuðum saman fimm árum áður. Kannski var Örvari líka létt.

Hann hafði verið afskaplega góður við mig allt frá því að Sigurpáll sendi mig í leyfið, hafði sjálfur lesið sér til um einkenni kulnunar. Eitt kvöldið settist hann hjá mér í sófann og sagði að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að upplifa ekki heitar tilfinningar í hans garð akkúrat þessa dagana, hann vissi vel að tilfinningadeyfð gæti verið eitt einkenna og við skyldum bara vera þolinmóð. Ég fékk sáran sting í hjartað og varð að kyngja þykkum kekki í hálsinum. Ég var auðvitað þakklát fyrir skilninginn, en ég fann samt fyrir honum eins og þyngslum á herðunum. Og síðasta kvöldið kveið ég því að finna kannski ekki til sorgar eða söknuðar yfir aðskilnaðinum sem beið okkar og að Örvar myndi skilja það líka, enn eitt atriðið sem hann myndi skilja og umbera. Það var bara fínt að fara í mat.

Elsa hafði eldað marokkóskan lambarétt, bar hann fram með myntu og mauksoðnu kúskúsi. Kúskúsið flaut í sósunni og ég tíndi upp í mig bitana, mjúkt kjötið, mjúkar gulræturnar, tuggði hægt og yfirvegað. Elsa vissi greinilega ekki alveg hvernig hún ætti að vera, hún var ein af fáum sem vissi hvert ég var að fara og af hverju. Hvað vinnuna varðaði var ég enn í veikindaleyfi og ég hafði forðast öll samskipti við fólkið þar. Steinunn, nánasta vinnuvinkona mín og hádegisverðarfélagi, hafði sent mér línu til að spyrja hvernig ég hefði það en ég svaraði henni eins stuttlega og mér fannst ég komast upp með. Hef það ágætt, reyni að hvílast eins og ég get. Gott sæta, svaraði hún og sendi mér hlekk á einhverja nýja og mjög stílíseraða jógamiðstöð á Seltjarnarnesi. Mæli með. Ég svaraði henni með einhverju innantómu tákni. Mér líkar mjög vel við Steinunni, við höfum unnið saman lengi, tvisvar reyndar, með hléi á milli. Ég hef samt aldrei hleypt henni alla leiðina inn í kviku. Ekki eins og skólavinkonum mínum, ekki eins og Rúrí.

Ertu búin að pakka? spurði Elsa og lagði hnífapörin frá sér á diskbrúnina. Hún gerði það oft, ég held að hún hafi tekið það upp úr einhverju tímariti sem megrunarráð á sínum tíma. Leggja hnífapörin frá sér eftir hvern bita. Eða kannski vildi hún gefa til kynna að hún væri að hlusta á mig af fullri einbeitingu.

Já, sagði ég. Eða. Svona. Ég veit ekki alveg hvað ég á að hafa með mér, bætti ég við og setti upp bros sem var eflaust dálítið vandræðalegt.

Fékkstu engan lista?

Örvar ræskti sig, lagði höndina á lærið á mér undir borðinu.

Nei, ég fékk engan lista. Bara tölvupóst um að ég yrði sótt á flugvöllinn og að það yrði séð fyrir öllu. Sængurfötum og svoleiðis, meina ég. Og mat. Ég yppti öxlum. Elsa tók upp gaffalinn. Ég pakkaði bara hlýjum fötum og svona, bætti ég við.

Þú verður að hafa eitthvað með þér að lesa, greip Elsa fram í fyrir mér. Og svo hefði auðvitað verið fullkomið að prjóna, ef þú værir í því. Það er svo róandi, hélt hún áfram og leit svo örsnöggt til mín, eins og hún væri hrædd um að hafa misstigið sig eitthvað.

Einmitt, sagði ég og hélt áfram að pota í matinn á disknum.

Þetta verður flott, sagði Örvar, svolítið hressilega. Pabbi hans, Valdi, leit upp úr disknum sínum. Gott fyrir hana að komast aðeins í burtu, þið vitið.

Gott fyrir hana að losna við þig, sagði Valdi og hló röggsamlega, þeir feðgarnir töluðu helst saman í misfyndnu gríni. Elsa brosti.

Líst mömmu þinni ekki vel á þetta? spurði hún svo. Hún hefur nú reynsluna.

Mamma, þetta er alveg ný meðferð, ég var búinn að segja þér það, sagði Örvar fljótmæltur og það rann upp fyrir mér að líklega, auðvitað, hefði hann rætt um mig við mömmu sína. Kannski kíkti hann í kaffi á meðan ég svaf. Kannski hringdi hann í hana á morgnana, eftir ræktina, með prótíndrykkinn í höndunum. Mamma, ég veit ekki hvað ég á að gera við Unu …

Ég fékk mér sopa af víninu, þótt Sigurpáll hefði líka ráðlagt mér að fara hægt í sakirnar þar.

Þetta er nýtt verkefni, bergmálaði ég. Nýfarið af stað, og ekki beint meðferð heldur, þannig séð. Meira svona … heilsueflandi úrræði, held ég að þau kalli það. Þannig prógramm.

Elsa kinkaði kolli. Hún spurði ekki meira um mömmu og lét eins og hún hefði ekki tekið eftir því hvernig ég kom mér hjá því að svara. Hún er alveg ágæt.

Örvar keyrði heim. Hann þurfti að bremsa svolítið skarpt þegar ljósin á Miklubrautinni urðu allt í einu rauð og beltið herptist að bringunni á mér. Ég reyndi að anda ofan í maga, tókst það næstum því.

Hann leit á mig á meðan bílarnir tíndust yfir gatnamótin fyrir framan okkur. Fyrirgefðu, sagði hann, og lagði höndina aftur á lærið á mér.

Sunna Dís Másdóttir / Ljósmynd: Gassi.