eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur

Brot úr skáldævisögunni Í skugga trjánna. Bjartur-Veröld gefur út.

 

Einu sinni tók ég óviljandi þátt í ayahuasca guðþjónustu í Skipholti.

Þannig kynntist ég Erlu og þess vegna var ég hér ásamt henni, heima hjá fyrrverandi kærasta hennar, í þriggja hæða einbýlishúsi á Arnarnesi með fimm baðherbergjum og útsýni yfir sjóinn um gólfsíða glugga. Við sátum ásamt fleira fólki í kringum eldhúsborð úr harðviði og drukkum kaffi úr handgerðum postulínsbollum í laginu eins og kreist plastmál. Í boði voru líka vítamíndrykkir, appelsínusafi, sódavatn og grænt te. Klukkan var ellefu að morgni.

Manstu þegar við droppuðum í New York, sagði gestgjafi okkar við Erlu. Þú varðst allt í einu stressuð og sagðir: Hvar eru brjóstin á mér? Og ég svaraði … (hann greip fram í fyrir sjálfum sér) Svo dæmigert svar! En bíðiði, ég man alveg hvernig mér leið þegar ég svaraði: Þau eru alls staðar!

Orðrétt sagði hann: They’re everywhere! Vegna þess að flestir vina hans komu fljúgandi erlendis frá í hans boði og töluðu ekki íslensku. Svo hló hann hvellum og gáskafullum, smitandi hlátri. Erla brosti og leit niður á brjóstin á sér. Ég horfði líka á brjóstin á henni. Það var ekki annað hægt. Veruleikinn var tekinn að leysast upp og við ekki einu sinni byrjuð að blanda sýruna.

Hefurðu gert svona áður? spurði hinn sessunautur minn; bandarískur fjárfestir af hawaiískum uppruna með hártoppinn ofan í augu.

Ekki LSD en ég hef nokkrum sinnum tekið sveppi og einu sinni drakk ég óvart ayahuasca, en ég er ekki að fara að taka neitt núna vegna þess að ég þarf að vinna. Ég verð sótt klukkan þrjú af manneskju á vegum Iceland Writers Retreat

Bakkaðu aðeins, sagði fjárfestirinn og strauk toppinn frá augunum. Fékkstu þér óvart ayahuasca? Hvernig er það hægt? Dastu í poll í frumskóginum?

Furða hans var svo áköf að hún dró að sér athygli hinna við borðið en sem fjaraði jafnóðum út. Nema konunnar sem sat beint á móti mér. Hún var augnskurðlæknir frá Ítalíu, leit út fyrir að vera rúmlega fimmtug en það er aldrei að vita með svona vel stætt fólk. Hún var græneygð í eldrauðum kjól, með lapis lazuli hálsmen og eyrnalokka; eyrnasneplarnir teygðust örlítið undan þunga steinanna. Glæsileiki hennar var ágengur. Það var ekki hægt að hunsa það hvernig hún bar sig, hvernig hún beitti augunum eins og laser á skurðstofu. Og nú horfði hún á mig og beið eftir svari.

Já, ég hef áhuga á óhefðbundnum lækningum, en er líka frekar mikið fyrir það að hafa stjórn, byrjaði ég en fataðist flugið þegar ég þóttist sjá vott af óþolinmæði eða vonbrigðum í svip hennar. Hún var með óaðfinnanlegan ælæner sem endaði í fínlegri sveiflu út frá ytri augnkrókum.

Það er að segja, ég ber virðingu fyrir svona efnum, þau eru ekkert leikfang, bætti ég við og var ófær um að skipta um rás þótt ég heyrði vel hvað ég var fullkomlega óáhugaverð manneskja. En eiginmaður minn sem er ekki jafn mikil gunga fór á einhverja samkomu í Borgartúni. Þegar hann kom heim sagðist hannekki hafa fundið neitt á sér en annað kvöld fengi hann tvöfaldan skammt. Þegar hann svo kom heim eftir annað skiptið sagðist hann aftur ekki hafa fundið neitt. Hvað meinarðu? Er þetta ekki ayahuasca? spurði ég. Nei, þetta er eitthvað sem þau kalla daime. En á morgun fæ ég fjórfaldan, þú ættir að koma með. Þetta er örugglega eitthvað fyrir þig fyrst þetta er svona dauft.

Eiginmaður? Ertu gift? sagði fjárfestirinn og skannaði hendur mínar sem héldu um bollann.

Við erum skilin, svaraði ég og roðnaði smá. Mér fannst ég svo mikil klisja; 47 ára, nýskilin, með Google Maps, björgunarhring og öryggishnapp að leita uppi „villt“ ævintýri.

En ég var sem sagt sammála því að þetta væri þá líklega eitthvað fyrir mig. Og ég var forvitin. Þótt ég sé smeyk við að missa stjórn langar mig alltaf að vera með. Þannig að daginn eftir kom ég því til leiðar að níu ára dóttir okkar gisti hjá vinkonu og ég fór með á samkomuna í Borgartúni. Því það er það sem þetta var. Samkoma. Messa. Það voru sungnir sálmar og sú sem leiddi seremóníuna var eins konar prestur; í síðu svörtu pilsi, hvítri skyrtu og með slifsi merkt nafni og lógói söfnuðarins. Konur sátu henni á vinstri hönd, karlar á þá hægri. Messan fór fram í stórum jógasal með útsýni yfir umferðargötu og fjármálastofnanir hinum megin götunnar. Stólum hafði verið raðað í hring og umhverfis stólana voru jógadýnur á gólfinu með púðum og teppum. Beisk lykt af soðnum jurtum lá í loftinu.

Nokkrum sálmum síðar var ég orðin þreytt í setbeinunum, krosslagði ökklana, setti fæturna undir stólinn og heyrði skrölt. Það var eitthvað undir stólnum. Ég beygði mig fram og kíkti. Það var æludallur. Nú runnu á mig tvær grímur, en þá var of seint að bakka út úr þessu. Svo kom að því að ég gleypti botnfylli af þykkum brúnleitum drykk. Lágmarksskammt.

Reynið að sitja upprétt allan tímann, sagði presturinn. Andið ykkur í gegnum þetta. Leyfið öllu að koma sem vill koma. Ókei, sagði ég og fann hvernig ég byrjaði að leka af stólnum og niður á jógadýnuna við hliðina. Liggjandi á bakinu með augun lokuð sá ég skræpótt tannhjólin í hinni einu sönnu eilífðarvél hringsnúast eftir guðlegu regluverki. Mynstrin! Ég streittist á móti í dauðans angist. Hvað var ég búin að gera? Skilja dóttur mína eftir í þessum heimi á meðan ég fór yfir í annan. Hvað ef ég kæmi ekki til baka? Það var varla að ég næði andanum fyrir sorg þegar ég sá hana fyrir mér fullorðna tala um áhyggjulausa æsku þar til hún var á tíunda ári, þegar mamma hennar lenti inni á lokaðri deild og varð aldrei söm. Sektin lagðist á mig eins og raunverulegt farg sem hefði sprengt í mér innyflin ef ég hefði ekki gefið eftir, beðið Guð að varðveita barnið og sokkið ofan í gólfið. Eftir það lafði ég hálf inni í annarri vídd; höfuð og handleggur í lausu lofti á mannlausum leikvelli inni í skógi, með hrörlegum rólum og ryðguðu vegasalti. Restin af mér snerist með mynstruðu tannhjólunum. Það var enginn þarna og ekkert. Bara þrungin tilfinning um hverfulleika og smæð mannskepnunnar og þrá eftir einhverju meira og stöðugra. Ég heyrði fótatak og tókst þá að opna augun og mæna upp á prestinn. Geturðu hjálpað mér? spurði ég.

Með hvað?

Ég er svo hrædd.

Við hvað ertu hrædd? spurði hún.

Um að komast ekki til baka.

Auðvitað kemurðu til baka, sagði hún og gekk í burtu með svart pilsið flaksandi eins og skýjaðan næturhimin.

Mér er svo kalt, tautaði ég og byrjaði að hristast. Út undan mér sá ég eiginmanninn sitja bláedrú á stól hinum megin í salnum. Þetta var ekki sanngjarnt. Hann vildi finna áhrif en reyndist ónæmur. Ég vildi helst ekki missa stjórn á huga mínum eða líkama, en hér var ég; eins og fiskur á þurru landi, móðursýkislega dauðhrædd um dóttur mína sem var bara í góðu yfirlæti heima hjá vinkonu.

Presturinn gekk um með könnu og bauð ábót af drykknum. Mörg þáðu. Þeirra á meðal kona á mínum aldri sem sat á stól alveg við dýnuna þar sem ég lá. Það var Erla, en þá var ég ekki enn búin að kynnast henni og vissi ekki hvað hún hét. Hún laut niður að mér svo að sítt ljóst hár hennar straukst við vanga minn og hvíslaði: Þetta er í þriðja sinn sem ég fer í svona ferðalag. Þú þarft ekkiað vera hrædd. Um að gera að skjálfa sem mest. Skjálftinn hjálpar þér. Hann losar.

Löngu síðar var presturinn kominn, sitjandi á hækjum sér og hélt á lítilli viðarpípu og skál með móleitu dufti. Brjóst hennar fylltu vel út í hvíta bómullarskyrtuna. Sestu upp og haltu niðri í þér andanum, sagði hún. Hvað er þetta? Bara tóbak. Þegar ég gef þér merki með hendinni, svona, máttu anda að þér. Ég er ekki viss um að ég ætti að fá mér neitt meira, ég er alveg nógu rugluð. Tóbakið gerir þig ekki ruglaða, það jarðtengir, sagði presturinn. Lokaðu munninum.

Mér fannst ég ekki hafa neinu að tapa, svo ég stakk mjórri enda pípunnar upp í aðra nösina og hélt niðri í mér andanum þar til presturinn gaf merkið og blés snöggt í hinn endann með mjúku pfúh-hljóði. Ennisholan brann undan þessu en samt þáði ég í hina nösina og byrjaði um leið að tárast. Ég greip um ennið og rumdi eins og skógarbjörn. Og svo … hurfu mynstrin og öll önnur ummerki um aðrar víddir og skelfingin fjaraði út. Ég fann notalegan gulan hita líða um höfuðkúpuna innanverða, eins og heilinn væri í sólbaði.

Þá horfði ég í kringum mig og sá að um helmingur viðstaddra tolldi enn uppi á stól, hin lágu eða sátu hálfupprétt á dýnum. Presturinn kraup hjá konu með hvítnandi drengjakoll, í kjól með pastellitum skellum sem runnu saman eins og vatnslitir. Hún hafði grátið og hlegið til skiptis allt kvöldið. Tárin láku niður andlit hennar en eftir að hafa þegið tóbakið hætti hún að gráta og friður breiddist yfir andlitið.

Þegar ég reis á fætur fann ég að ég var heil en líka að eitthvað vantaði. Það tók mig smástund að átta mig á hvað það var: Verkurinn í hægri mjöðm sem hafði plagað mig í næstum áratug, eða frá því að ég fæddi mitt eina barn í heiminn. Hann var horfinn. Líkaminn virtist hafa læknað sig sjálfur með því að skjálfa.

 

Guðrún Eva Mínervudóttir