Eftir Brynju Hjálmsdóttur
Brot úr skáldsögunni Friðsemd. Benedikt gefur út.
Þótt ég hafi ekki kveikt á nafninu einmitt þarna þegar Palli nefndi það, hafði ég alveg heyrt um SELÍS. Og ég hafði auðvitað heyrt um Eldberg Salman Atlason, allir höfðu heyrt um hann sem á annað borð höfðu einhvers konar vit í kollinum. Á þessum tímapunkti vissi ég hins vegar ekki allt sem ég veit í dag, til að mynda eftirfarandi:
Eldberg Salman Atlason fæddist á Selfossi, eins og ég. Hann kom víða við, bæði áður og eftir að hann öðlaðist heimsfrægð. Fyrir það fyrsta var hann jarðvísindamaður, hann lærði jarðfræði í háskóla og starfaði við rannsóknir um skamman tíma. Það var af heilmiklu að taka, margt sem þurfti að rannsaka, þess vegna var jarðfræði eitt vinsælasta fræðasvið íslensku þjóðarinnar, ásamt veðurfræði, það var einfaldlega ekki mikið að frétta á öðrum sviðum. Eldberg var þó fljótur að snúa baki við jarðfræðinni og einbeita sér að öðru, þegar hann uppgötvaði að völd og fjármunir gáfu honum talsvert meiri fró en steindir, umbrot og rof, og að völd innan vísindasamfélagsins væru ekki beint völdin sem hann var að sækjast eftir.
Langalangafi Eldbergs var hinn landsþekkti Finnur Grímsson, sem fékk þá flugu í höfuðið (snemma á tuttugustu öldinni þegar hann var ungur og sprækur) að panta dráttarvélar frá útlöndum og selja fólki á Íslandi. Þetta gekk ekki bara vel hjá honum, þetta gekk ógeðslega vel því allir vildu traktor, fólk hreinlega fékk ekki nóg af traktorum. Það var tilbúið að veðsetja æru sína, börn og buru, klæðin af baki sér og skóna af fótum sér til kaupfélagsins svo það gæti nú fengið einn glansandi traktor til að toga hitt og þetta um landareignina. Allir og amma þeirra steyptu sér í traktoraskuldir og Finnur, sem var alinn upp af mjóslegnu fólki sem át gamla fiska í holuhúsi, var skyndilega á grænni grein. Eldberg Salman erfði svo þessa grænu grein, sem hafði bara grænkað með kynslóðunum.
Á unglingsárunum komst Eldberg að því að fólki með gljáandi húð, hvítar tennur og nýklippt hár vegnaði betur á öllum sviðum lífsins. Honum þótti ljóst að flestir ályktuðu sem svo að snyrtilegu fólki væri treystandi og Eldberg ákvað að líta alltaf út eins og hann væri traustsins verður. Það tókst. Hann rataði undantekningarlaust á lista yfir álitlega piparsveina. Vissulega var hann fallegur, hann hafði sérkennilega andlitsdrætti, sem gerði hann forvitnilegan á að líta. Þegar hann fór að eldast lét hann fylla sig af endurnærandi efnum til að viðhalda sinni fögru ásjónu og af því að hann átti þess kost að fá bestu læknana og bestu efnin var vart hægt að taka eftir því að hann hefði látið eiga við neitt. Hann varð bara enn fallegri.
Fyrir utan dæmigerða fjölskyldutengda harmleiki, sem voru svo sem ekkert frábrugðnir því sem flestir þurfa að eiga við, þurfti Eldberg ekki að kljást við sérstaklega mikil eða erfið vandræði í sínu lífi. Það gekk vel. Samt var hann alltaf tómur og þurfti stöðugt að fylla sig, rétt eins og eldsneytislaust farartæki. Hann varð að keyra, alltaf að keyra.
Fyrsta fyrirtækið sem Eldberg Salman stofnaði hét ALTARI INTERNATIONAL hf. og framleiddi steypu. Steypan átti að vera betri en öll önnur steypa á markaðnum. Hugmyndin kom til hans í draumi, líkt og allar hans hugmyndir. Frá því að hann var barn dreymdi hann þýðingarmeiri og litskrúðugri drauma en gengur og gerist. Hann dreymdi að hann væri í baði. Skyndilega gerði hann sér grein fyrir að í baðinu var ekki vatn heldur steypa og hann væri fastur í grjóthörðum klump. Þegar hann vaknaði fór hann að lesa sér til um steypu og framleiðslu hennar.
Flestir hugsuðu lítið um steypu og litu bara á þetta vinsæla byggingarefni sem hversdagslegan hlut. Harla óspennandi. Fæstir gerðu sér grein fyrir því að steypa, líkt og svo margt annað, var að ganga af heiminum dauðum. Á hverri sekúndu var því sem samsvaraði 19.000 baðkerum af steypu hellt í form til að byggja ýmis fyrirbæri. Eldberg Salman sá fyrir sér að ef hann ætti hlutdeild í nokkrum af þessum 19.000 baðkerum á sekúndu væri hann í góðum málum.
Við framleiðslu á hefðbundnu sementi urðu til feiknin öll af ryki sem settist í lungun á fólki og dýrum. Steypa var næstvinsælasta efni á jörðinni á eftir vatni, lífsins dýrmætasta djús. Til þess að sement yrði að hörðum vegg, gólfi eða súlu, þurfti að blanda því við vatn, svo úr yrði þykkur grautur. Svo þurfti að hella grautnum í form og láta hann harðna. Margar uppsprettur vatns, sem var svo mikilvægt lífverum heimsins, voru á barmi þess að þorna endanlega upp, því aldrei hættu mennirnir að ausa úr þeim til að vökva ræktarland í skrælnuðum eyðimörkum, til að skila úrgangi úr sjálfum sér lengst út á haf og auðvitað til að blanda við sement. Margir vissu ekkert af þessum voðaverkum. Margir vissu allt um þau en kusu að líta fram hjá þeim, því það er svo skelfilega óbærilegt að velta sér upp úr alvarlegum málum. Eldberg Salman Atlason vissi allt um málið og ákvað að hann skyldi aðhafast.
Honum flaug í hug að hann gæti orðið bæði ríkur og dáður ef hann framleiddi steypu sem hefði ekki jafnskelfileg og hægvinnandi drápsáhrif og sú hefðbundna. Í samstarfi við gáfað vísindafólk þróaði hann nýtt byggingarefni sem þyrfti ekki að blanda nema með agnarlitlu magni af vatni. Nýja steypu sem fékk nafnið Altari-1000.
Aðalinnihaldsefni Altari-1000 var einstaklega rakadræg mosategund. Þegar henni var blandað við nokkrar tegundir af sandi og dularfull kemísk efni varð niðurstaðan létt og hvítt duft. Með örlitlu vatni varð duftið að gumsi sem harðnaði eftir einungis tvær klukkustundir. Til að búa til steypu úr tuttugu og fimm kílóa sekk af Altari-1000 þurfti ekki nema nokkra dropa af vatni. Til að byggja heilt hús þurfti ekki nema nokkur staup.
„Þetta verður bylting,“ sagði Eldberg Salman á fyrsta blaðamannafundinum.
Efnaverkfræðingurinn Kristbjörg Galsworthy leiddi teymið sem fann upp Altari-1000. Hún var kölluð Mamma innan ALTARI INTERNATIONAL hf., því hún var móðir steypunnar. Skömmu eftir fyrsta blaðamannafundinn framdi Kristbjörg Galsworthy sjálfsvíg með því að læsa sig inni í frystiklefa á rannsóknarstofunni. Hún skildi ekki eftir sig neina fjölskyldu, því hún átti enga fjölskyldu, hafði oft haft orð á því að hún væri „gift vinnunni“ og að Altari-1000 væri henni jafnt sem „afkvæmi og elskhugi“.
Starfsmenn fyrirtækisins voru harmi slegnir. Harmurinn virtist aldrei ætla að líða hjá, starfsfólkið sveif líkt og vofur um gangana og grét inni á klósettunum. Fyrr en varði var fólk alveg hætt að sitja við skrifborðin sín eða standa við tilraunir sínar, allir héngu allan liðlangan daginn inni á klósetti, þaðan sem bárust nístandi harmakvein.
Þá var farið að rannsaka Altari-1000 nánar.
Í mosanum sem Altari-1000 samanstóð af bjó dulúðug sveppategund og þegar sementinu var blandað við vatn fór sveppurinn að leysa frá sér gró, sem orsökuðu mikla depurð hjá lifandi dýrum. Sveppurinn hafði lítil áhrif í litlu magni en starfsfólk ALTARI INTERNATIONAL hf. hafði vitaskuld umgengist efnið daglega í lengri tíma, svo áhrifin urðu gríðarleg.
Ýmislegt benti til þess að skepnur ættu á hættu að ánetjast harminum sem Altari-1000 framkallaði, og að sá sem væri útsettur fyrir áhrifunum þyrfti að vera í stöðugu návígi við efnið sem kvaldi hann svo mjög. Það útskýrði í það minnsta af hverju starfsfólkið leitaði svo ákaft inn á klósett, því eitt fyrsta tilraunaverkefni fyrirtækisins var að búa til vaska og flísar úr Altari-1000 til að innrétta salernisaðstöðuna.
Ljóst var að undraefnið Altari-1000 yrði ekki sú bylting sem á horfðist. Eldberg reyndi að stappa stálinu í sitt fólk, fá það til að gera tilraunir og finna nýjar lausnir. Starfsfólkið átti hins vegar fullt í fangi við að finna lausnir við depurðinni og þunglyndinu. Allir sögðu upp, fjárfestar drógu sig út og félagið varð gjaldþrota.
Eldberg Salman, sem var með einkaskrifstofu og sérbaðherbergi, komst fremur sjaldan í tæri við Altari-1000. Fyrir vikið var hann ósnortinn af tilvistarangistinni sem hrjáði kollega hans og hélt út í næsta verkefni með bros á vör. Það gerði hann alltaf. Stundum gekk vel, stjarnfræðilega vel, svo að Eldberg og allir í kringum hann öðluðust auð og frægð. Gervihnattaverkefnið gekk prýðilega og sjálfvirku skúringarvélarnar enn betur. Rafdrifnu léttferjurnar voru stóri vinningurinn, þær voru algjör bylting í fólks- og fragtflutningum og gulltryggðu að Eldberg Salman yrði nafn sem allir þekktu.
Hann var einkar fær í að koma verkefnum á legg, selja svo á hárréttum tíma og græða ofsalega mikið. En stundum gekk illa, alveg hræðilega illa, og allt endaði í tómri niðurlægingu. Hann stóð samt alltaf keikur, hann leit svo á að klúður væri eðlilegur hluti af ferli sem myndi óhjákvæmilega enda með velgengni. Þegar illa fór gekk hann frá borði með höfuðið reigt og mannorðið tiltölulega óflekkað, tilbúinn að snúa sér að næsta verkefni. Menn með persónuleika eins og Eldberg Salman fengu alltaf annað tækifæri.

Brynja Hjálmsdóttir / Mynd: Sigurjón Ragnar