Eftir Evu Rún Snorradóttur.

Brot úr skáldsögunni Eldri konur. Benedikt gefur út.

Rannveig
1999

Ég var sextán, hún á óræðum fullorðinsaldri. Við sátum úti að reykja, snemmsumars, í hvarfi á bak við bygginguna. Það var mánudagur og sól og við sátum í vandræðalegri þögn, hvað áttum við tvær svo sem að tala um? Hún rauf þögnina, hún var hjúkrunarfræðingur, kunni svona lagað, og sagði: „Það ætlar að vera jafn gott veður í dag og var um helgina.“ Ég var enn frjáls gagnvart henni þegar þetta var og svaraði um hæl: „Ha, um helgina? Það var ömurlegt skítaveður.“ Þá gerðist það. Hún horfði á mig, brosti og spurði um leið og hún blés út sígarettureyknum: „Æ, svafstu það af þér, elskan?“ Orðið elskan fór eins og leiftur um líkama minn. Ég leit á hana, eins og í fyrsta sinn. Brosið, blíða augnlitið, strípurnar í hárinu. Hún var falleg. Og augljóslega hrifin af mér.

Það var fyrir tilviljun að ég byrjaði að vinna á Sjálfsbjargarheimilinu. Selma vinkona mín var ráðin til starfa við ræstingar á einni deildinni. Yfirkonan sagði: „Deildirnar eru þrjár, áttu ekki einhverjar vinkonur?“ Við Tinna vorum ráðnar á staðnum.

Á hverjum morgni vaknaði ég spennt að fara í vinnuna. Oftast ein heima, mestan part af sumrinu var Hildur móðursystir mín hjá einhverjum kærasta í útlöndum. Við Tinna hömuðumst á hurðinni hjá Selmu þar til hún vaknaði og við hlupum og rétt náðum strætó. Við sáum um okkur sjálfar, hjálpuðumst að og það var gott.

Fyrsti dagurinn var dásamlegur. Ég fylgdi ræstitækninum, lærði öll trixin og kynntist hverjum kima af þessari framandi hvítu blokk sem var eins og sjálfstætt ríki. Hún fór með mig í matsalinn, í starfsmannaherbergið, við tókum lyftuna upp og niður, þeyttumst með vagninn hingað og þangað um deildirnar þrjár, allstaðar kynnti hún mig með virktum fyrir kvennahópum á ólíkum aldri sem tóku mér vel, brostu til mín og mér leið eins og ég væri mikilvæg.

Starfinu fylgdi að þrífa reykherbergið sem var bara fyrir íbúa. Hún, aðalræstitæknirinn sem leiðbeindi mér, sagði á meðan hún tæmdi úr glærum öskubakka ofan í plastpoka: „Við starfsfólkið verðum bara að húka úti í rokinu.“ Hún sagði mér að að reykherbergið hefði verið tekið af starfsfólkinu í fyrra. Einu sinni hefði mátt reykja allstaðar, í aðhlynningunni, á klósettunum, undir lokin bara í þessu eina horfna herbergi en nú bara úti. Á veggnum í kringum hana héngu nokkrar myndir, daufar og gráleitar, við það að hverfa eftir allan reykinn. Drengurinn grátandi, grár í framan, ljúfsár og angurvær grá kona sem hallaði undir flatt og ein landslagsmynd sem var mjög óhugnanleg svona grá. Dimmur himinn yfir þunglamalegu fjalli. Ein manneskja sat þarna, reykti með sígarettuna langt upp í sér. Mentorinn minn sagði að þetta væri Ragna, við ættum eftir að kynnast. Ragna sýndi engin svipbrigði. Ég var spennt.

Stuttu seinna var ég að skúra herbergi þegar ég sá Rögnu koma hlaupandi inn ganginn. Ég hélt að einhver væri að elta hana en svo var ekki, hún hljóp bara fram og til baka. Ragna hafði lært ljósmyndun í Amsterdam, unnið þar í nokkur ár, skapað sér feril. Í fríi heima á Íslandi hafði hún lent í slysi, misst meðvitund, ég skildi þetta ekki alveg – var aldrei sett inn í það hvað gerðist nákvæmlega en hún vaknaði með skerðingu og ýmsa líkamlega kvilla. Svo var henni komið fyrir hér eins og í geymslu.

Mér leið vel á þessum nýja vinnustað. Ég kynntist nýrri mýkt og hlýju í viðmóti samstarfskvennanna. Svo komu Selma og Tinna reglulega og fengu mig út í sígó. Við máttum fara um það bil einu sinni á klukkustund, hlupum flissandi milli hæða, skildum blautar moppurnar eftir þar sem við stóðum þegar kallið kom. Öll í húsinu höfðu gaman af okkur, við vorum kallaðar ýmsum nöfnum: Títlurnar þrjár, Þrífætlurnar, Skutlurnar. Við vorum skemmtilegu sextán ára stelpurnar sem unnum vinnuna okkar, grínuðust í samstarfskonum, vorum góðar og vinalegar við íbúana. Við elskuðum þetta.

Mér leið oft eins og þetta væri hliðarveröld, sem væri ekki raunveruleg eða í öllu falli ekki ætluð mér. Ég ætti ekki sanna hlutdeild í henni. Og ég vissi að þetta væri tímabundið en ég vildi það ekki. Þessu mátti aldrei ljúka. Ég vildi vinna þarna að eilífu.

Uppáhaldsstaðurinn minn í vinnunni var vaktherbergið. Þar var gluggi fram á gang þannig að allir gátu séð inn en samt tíðkaðist að hafa dyrnar lokaðar. Hér fór starfsfólk í rapport í upphafi hverrar vaktar og þó að ég þyrfti tæknilega séð ekki að vera með í þessum rapportum fóru konurnar fljótlega að taka mig með. Það var bara svo gaman að hafa mig með. Þegar rapportin voru búin sátu þær í dálitla stund og spjölluðu. Ég hlustaði áhugasöm á frásagnir þeirra af mataræði, ástarmálum annarra, sjónvarpsþáttum, umræðuefnin voru eins og upp úr bæklingi um fullorðinslífið. Ég þekkti ekki svona tal venjulegs fólks, var þyrst í það.

Þær litu á mig sem fullorðna manneskju. Ég var fullorðin í einhverskonar þjálfun. Heima leit Hildur líka á mig sem fullorðna en bara þegar það hentaði henni. Um leið og ég mætti í vinnunna á Sjálfsbjargarheimilið var ég fullorðin á einmitt þann hátt sem ég vildi.

Þegar Rannveig talaði fannst mér hún beina orðum sínum til mín þó svo að vaktherbergið væri fullt af konum. Hún sagði frá því að um helgina hefði hún farið í Rúmfatalagerinn að kaupa sæng í gestaherbergið því að tengdamóðir hennar myndi dvelja hjá þeim þriðju hverju viku. Hún var lengi að hugsa hvaða sæng hún ætti að taka og ákvað svo að taka sumarsæng, horfði á mig. Hún þorði ekki að taka vetrarsæng því þá væri hún að segja að þetta ástand yrði ekki leyst þegar veturinn kæmi, sagði hún og hló. Hinar hlógu með. Ég brosti til hennar og kinkaði kolli. Hún er góð manneskja. Hún er að tala um sængur við mig, hún vill skapa spennandi hugrenningatengsl. Við tvær saman í rúmi.

Við vinkonurnar tókum Sjálfsbjargarheimilið með okkur heim. Fólk í kringum okkur kvartaði yfir endalausum sögum um eldri kellingar sem væru hressar en líka hallærislegar og taktlausar. Okkur fannst allt svo fyndið. Einn eiginmaðurinn kom af og til með konunni sinni í vinnuna til að fá kaffisopa og sat svo og horfði hræðilega augljósum girndaraugum á okkur, yngri samstarfskonur eiginkonunnar. Tveir íbúanna voru farnir að skjóta sig saman, þannig var það orðað, og það var endalaust efni í brandara. Eru þau að gera það? Hvernig fara þau að? Bröndurunum var líka varpað beint til þeirra þegar þau sáust saman.

Ég hafði þróað með mér mikla færni í því að beina umræðum um alla skapaða hluti yfir á Rannveigu. Einhver í partýi talaði um að dansa uppi á borði á skemmtistað, þá greip ég tækifærið: „Rannveig segir að það sé best að vera með svona plastyfirbreiðslu yfir borðum sem eru í daglegri notkun.“ Tinna og Selma kröfðu mig ekki svara um Rannveigu, voru vanar því að ég væri torræð í tjáningu, ég notaði bull sem varnarblokk. Þær héldu líklega að þetta væri eitthvert grín sem þær leyfðu bara að falla milli þilja. Rannveig tók meira og meira pláss í huga mér. Hún fór að breiða yfir mig á kvöldin, kaupa handa mér þykka úlpu fyrir veturinn, stundum þrætti ég við hana um hvað hún skyldi elda í matinn, stundum klæddi ég hana úr fötunum, stundum var ég komin heim til hennar og orðin stjúpeitthvað gagnvart börnunum hennar.

Samstarfskonurnar voru ötular í því að gefa mér óumbeðin ráð. Ég var berskjölduð gagnvart ráðum frá eldri konum, tók opin við þeim öllum. Vildi leggja þau á minnið eins og hvert einasta orð sem kom frá vörum Rannveigar. Þær mæltust til þess að ég hæfi samband með Dagga af því að hann var skotinn í mér og af því að hann var frændi einnar þeirra og það yrði svo skemmtilegt fyrir hana. Hún hafði haldið partý og kynnt okkur, ég var auðvitað áhugalaus, dreymdi stanslaust um að sofa hjá Rannveigu en byrjaði að hitta hann því það var svo mikil stemmning fyrir því á deildinni. Í nokkrar vikur kom Daggi á bílnum sínum, lagði fyrir framan bygginguna svo allar samstarfskonurnar sáu hann út um gluggana og fór með mig í keilu. Mig sveið af leiðindum en elskaði á móti athyglina sem ég fékk út á tilhugalífið. Rannveig var einna spenntust fyrir því og ég las mikið í það. Fannst hún elska að tala um mig sem kynveru. Daggi var bara verkfæri, fyrir okkur, mig og hana, dulkóðaður leikur að nánd.

Það var oft mikið bras í kringum Rögnu, ljósmyndarann frá Amsterdam. Starfsfólkið var með allskonar kröfur og væntingar til hennar sem henni fannst ósanngjarnar. Hún átti að borða fjölbreytta fæðu, hún vildi bara borða Ora fiskibollur úr dós. „Hún er fullorðin,“ sagði ég og fannst að hún ætti að mega ráða. Ragna kallaði alla hjúkrunarfræðingana tussur og stakk þær af á hlaupum þegar þær þurftu að gefa henni lyf eða skoða sár sem hún var með. Hún kallaði mig Litlu písl og leit á mig sem bandamann. Ég var upp með mér og reyndi að standa með henni þótt ég væri plöguð af því að þurfa að gera rétt gagnvart samstarfskonunum. Það var eins og Ragna sæi í gegnum mig. Skildi að ég var ekki bara þessi prúða ræstingaskutla sem var góð og hlý og besti starfskrafturinn, hún sá eitthvað dýpra, sá holurnar mínar. Oft horfði hún á mig þegar hún borðaði fiskibollurnar, alveg sviplaus. Ég óttaðist aldrei þessu vant ekki afhjúpunina, heldur fann fyrir styrk.

Á Sjálfsbjargarheimilinu fannst mér ég vera klár og í fyrsta sinn tengd við umhverfi mitt. Ein eldri starfskvennanna spurði af hverju væri svona mikil pissufýla á ganginum. Ég tók eftir því að hún setti soðtækið (einskonar uppþvottavél fyrir bekken) af stað án þess að ýta fyrst á sturta niður takkann, þannig að hún sauð beinlínis piss í skolherberginu. Því kom óumflýjanlega pissulykt. Ég fór oft yfir þessa uppgötvun í huganum, ímyndaði mér að ég héldi um þetta litla ræðu í einu rapportinu, leiddi svo hópinn inn á Skol, sýndi fram á þetta, eins og ég væri að sýna töfrabrögð, við fögnuð samstarfskvenna. Ég var þó of uppburðarlítil til að hafa orð á þessu. Einbeitti mér að því hlusta á þær og læra. Pissufýlan ríkti.

Rannveig hrósaði mikið útliti mínu, fötunum. Notaði orð eins og flott og fitt. Kallaði á mig: „Mjóna!“ til að fara með sér út að reykja. Þær stundir voru heilagar. Ég sat dolfallin og hlustaði á hana tala. Horfði á munninn opnast og lokast, augun blikka, hárið við eyrun. Hún spurði aldrei neitt út í mig nema stefnumótin við Dagga. Hún talaði um fullorðins hluti. Einu sinni sagði hún: „Eftir fertugt er blómaskeið konunnar í kynlífi.“ Ég varð friðlaus, hvað er hún að meina með þessu? Var ekki eins og hún væri að vona, spá eða sannfæra okkur báðar? Ég kinkaði þroskuð kolli, þóttist vera með þetta allt á hreinu. Blómaskeiðin. Kynlíf. Konur.

Fjótlega fór ég að taka að mér aukavaktir við aðhlynningu á kvöldin og um helgar. Þá skrifaði ég rapport. Kvöldvaktarapportið var skrifað með grænum penna í stílabókina, morgunvaktin með bláum og næturvaktin með rauðum. Á kvöldvaktinni vorum við tvær stelpur með þrettán manns sem þurfti að hjálpa á klósettið, skipta á bleyjum, bursta, þrífa, hátta, stundum mata, setja upp í rúm með lyftara. Við fórum létt með þetta. Erfiðast var ef íbúarnir voru ósáttir við okkur. Einn íbúinn vildi til dæmis vaka lengi, hlusta á jazz og stundum drekka svolítið viskí en það voru reglur sem við áttum að fylgja og samkvæmt þeim áttu allir að vera komnir upp í rúm fyrir klukkan ellefu því þá kom næturvaktin og hún var með allar þrjár hæðirnar og gat ekki staðið í því að setja fólk upp í. Frá þessu var engin undantekning og við settum þennan mann oft öskrandi upp í rúm. Annar gamall maður vildi dansa þétt við mig í hvert sinn þegar ég lyfti honum upp úr stólnum til að sveifla yfir í rúmið, mér fannst óþægilegt þegar hann hélt of fast en reyndi bara að vera hrikalega hress. Þannig var stemmningin. Hressleikinn var svar við öllu óþægilegu.

Einu sinni var autt rúm á deildinni minni um nokkurra vikna skeið og þá kom það fyrir að við Selma fórum beint að djamma eftir kvöldvakt og í stað þess að fara heim í úthverfið komum við bara aftur á deildina. Sváfum í þessu auða rúmi, með stálgrindina upp. Hvort eð er að fara á morgunvakt. Svo vöktu hinar á vaktinni okkur þegar þær mættu í hús, þetta var hrikalega fyndið og skapaði mikla stemmningu meðal starfsfólks. Við fórum svo bara beint í aðhlynninguna, þurftum ekki einu sinni að klæða okkur, sváfum í öllum fötunum í reykingarstybbunni sem við vorum ónæmar fyrir. Fórum svo yfir allar sögurnar af djamminu yfir tannburstun, rakstri og hárþvotti.

Á hverri hæð var eitt klósett fyrir starfsfólk og annað fyrir íbúa. Íbúaklósettið var með hjólastólaaðgengi en þótt íbúar notuðu ekki hjólastól máttu þeir ekki fara á starfsmannaklósettið þegar hitt var upptekið. Það var oft hasar á minni deild því ein konan, Unnur, átti það til að læsa sig inni á íbúaklósettinu. Líklega vildi hún bara frið. „Mjóna,“ var hrópað eftir ganginum og ég lagði allt frá mér og hljóp af stað. Í minningunni er Rannveig alltaf stödd þarna á ganginum og við horfumst í augu, lengi – of lengi. Augu hennar lyfta mér upp, mér finnst sem ég fljúgi. Ég kem í hasti og þvinga klósetthurðina inn, svo örlítið bil myndaðist, bil sem bara ég komst í gegnum. Bara ég gat klárað þetta verkefni: Að smeygja mér inn og opna dyrnar, frelsissvipta Unni sem birtist sitjandi á klósettinu, afhjúpast fyrir fimm eða sex konum sem klappa og fagna mér eins og hetju.

Stundum fór ég tvisvar í röð að reykja, ef ég var nýbúin að vera með stelpunum og Rannveig kallaði „Mjóna!“ vissu allir að ég mætti fara aftur fyrst það var hún sem kallaði. Ég var sérstök fyrir henni og það hélt mér gangandi. Það var endalaust verið að biðja okkur stelpurnar um aukavaktir og ég tók allar vaktir sem mér buðust í von um að fá stundir með henni. Vildi ekki hætta á að missa af skrefi í þessari framþróun sambands okkar. Ég þurfti líka meiri pening fyrir djamminu sem varð æ kostnaðarsamara eftir því sem leið á sumarið.

Í sumarlok var ég beðin um að taka næturvakt. Á vaktinni sat ég mestmegnis á minni deild og horfði á sjónvarpið í setustofunni. Ragna vakti og veitti mér félagsskap þótt hún horfði ekki á sjónvarpið. Þessa nótt lést eldri kona á einni deildinni. Hún hafði legið rænulítil í margar vikur með Léttbylgjuna frekar hátt stillta yfir sér. Starfsfólkið kom og gaf henni maukað gúllas eða soðinn fisk með skeið eða röri, og raulaði með lögunum. Stundum setti það hana í stólinn og keyrði hana fram í setustofuna. Svo bara dó hún. Hinn starfsmaðurinn á vaktinni kom að henni og lét mig vita að hann væri búinn að hringja í Rannveigu sem var á bakvakt, hún væri á leiðinni að gera að henni. Ég hafði mjög takmarkaða reynslu af dauðanum. Það var myrkur og yfir mig kom snertur af alsælu að vita að Rannveig væri væntanleg. Nú hlyti það hreinlega að gerast, hún myndi faðma mig. Ég stóð við gluggann og horfði á bílaplanið, Ragna fylgist með mér, ekkert fór framhjá henni á deildinni. Rannveig kom í leigubíl og birtist svo á deildinni minni.

Hún var fín, með varalit, hún hefur ekki verið sofnuð, klukkan var hálftvö á föstudagskvöldi. Hún hefur verið að bíða eftir símtali, hugsaði ég, vonast til að geta komið við og hitt mig um miðja nótt. Hún heilsaði mér hressilega. En mér brá þegar hún sagði: „Komdu með mér í eitt verkefni.“ Ég vissi auðvitað hvaða verkefni það var og vildi fyrir alla muni ekki koma nálægt því. Ekki einu sinni með henni. Hafði gert ráð fyrir því að hún fengi með sér hinn starfsmanninn sem var eldri sjúkraliði og hafði unnið þarna í áratug. Kæmi svo eftir á til mín. Ég hafði auðvitað ekki bolmagn til að neita henni og sagði: „Auðvitað!“ Ég var duglegust, hjálplegust, frábærust. Tók sígaretturnar með, við myndum fara niður og reykja eftir á, jafna okkur saman. Snertast. Þetta yrði stórt.

Ég fraus í dyrunum. Gamla konan lá með opinn munninn og galopin augun á rúminu. Léttbylgjan enn á. Turn around, bright eyes Every now and then, I fall apart hljómaði hátt. „Jæja, þá ertu farin, Sigga skvís,“ sagði Rannveig, kveikti ljósið og slökkti á útvarpinu. Hún benti mér á að taka mér stöðu á móti henni við rúmið. Rannveig opnaði hvíta vinnutösku á náttborði látnu konunnar. Svo tók ég við skipunum hennar. Við hreinsuðum líkið, tókum við úrgangi. Þrifum. Hún rétti mér hvíta bómull upp úr töskunni og talaði um bíómyndina sem hún og maðurinn hennar höfðu verið að horfa á. Mér fannst allt vera seigt, eins og í draumi. Hún var ótengd. Gaf því ekki gaum að ég var með kökk í hálsinum. Svo skyndilega lokaði hún töskunni sinni snöggt, kveikti á lampa, slökkti ljósið, gekk að dyrunum, skildi mig næstum eftir en sagði svo: „Æ, nennirðu að setja hendurnar svona í kross á bringuna?“

Þegar ég kom aðeins á eftir henni, skjálfandi, inn á vaktherbergi sagði hún: „Ég ætla að skrifa smá rapport og þjóta svo heim. Við sjáumst eftir helgi, Mjóna.“ Engin sígóferð, engin samvera, engin langþráð nándarstund eða kossar í vaktherberginu. Ég fór ein niður í lyftunni, svo skelfd að ég hélt ég myndi ekki hafa það af. Ég fór yfir senuna aftur og aftur: Hvað gerði ég rangt? Var ég óaðlaðandi að gera að líkinu? Ég settist stjörf niður við sjónvarpið hjá Rögnu sem horfði fast á mig en ég gat ekki horft á hana, ég var svo hrædd. Frekur dauðinn yfir öllu í setustofunni, myndum á veggjum, myrkrinu á ganginum, ávöxtum í skál.

Það sem eftir var sumars var ég sveitt í lófunum þegar við Rannveig fórum í sígóferðirnar. Sagði lítið því ég var hrædd um að ef ég segði eitt vitlaust orð myndi ég missa hana. Hrædd um að reykja asnalega. Standa og ganga á rangan hátt. Ég veit ekki hvort hún tók eftir vanlíðan minni en mér fannst hún sækja meira í mig. Blaðraði út í eitt, sagði mér frá persónulegum hlutum í lífi sínu, blikkaði mig og kallaði mig fitt. Spurði mig sólgin útí tilhugalífið, hvernig gengi að hætta með Dagga og hverjum ég væri að sofa hjá. Mig langaði að segja við hana: Taktu mig heim, eigðu mig, feldu mig inn í skápnum þínum. Hjá sumarsænginni.

Hún fór í langt sumarfrí í ágúst, á sólarströnd með fjölskyldunni. Þá var ég eins og illa gerður hlutur í byggingunni. Hvað hafði átt sér stað? Ég upplifði að velvild og mildi starfskvennanna hefði dvínað. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að vera í kringum þær og þær voru óöruggar með hvað þær ættu að kalla mig þegar Rannveig var ekki á staðnum. Mjóna! hljómaði allt í einu út í hött fyrir okkur allar. Ég var fegin þegar sumarið tók loksins enda og ég hætti á Sjálfsbjargarheimilinu.

Selma og Tinna héldu áfram í hlutastarfi með skólanum og þær sögðu mér hvað hafði gerst daginn sem Rannveig kom aftur úr sumarfríi. Ragna réðst á Rannveigu, ég heyrði mismunandi útgáfur, stelpurnar höfðu ekki séð þetta sjálfar. Ragna hafði ýmist klínt á hana hvítum fiskibollum eða skítugum sáraplástri þegar Rannveig stóð yfir henni og predikaði um mataræði. Rannveig fór í veikindaleyfi.

Ég var tætt eftir sumarið. Djammaði út í eitt. Hélt lengi í þá von að Rannveig kæmi drukkin í ástarþrá og söknuði að ná í mig í lok kvölds þegar barirnir lokuðu. Staðreyndin var alltaf jafn grimm þegar hún rann út í sandinn. Sársaukinn frumstæður.

Deildirnar á Sjálfsbjargarheimilinu lögðust af nokkrum árum síðar og heimilisaðstæður fyrir fatlaða urðu vænlegri. Ég hitti Rannveigu ekki aftur nema í draumi miklu síðar.

Ósiðir mínir hafa alla tíð truflað Hildi. Hún þolir ekki þegar ég bora í nefið. Þegar ég naga neglurnar upp í kviku. Skilur ekki hvað sársaukinn er góður þegar það sést í holdið. Hún hefur látið mig ganga í gegnum allskonar meðferðir. Í marga mánuði um tíu ára aldur bar hún á neglur mínar glært eitur sem átti að fæla mig frá naginu. Það breytti engu nema nú var ég með munninn fullan af eitri. Áhrifaríkasta aðferðin var þegar hún þjálfaði mig í að hugsa: „Ef þú (ég) nagar þá dey ég (Hildur) og þá átt þú (ég) enga að.“ Þarna fannst henni hún komin á sporið. Hverslags villidýr myndi naga neglurnar undir þessari ógn? Ég varð kvíðin og vör um mig af eftirliti hennar. Þessar aðfarir að ósiðum mínum voru í mótsögn við óreiðuna og fjarveru hennar sem einkenndi daga okkar en mér þótti vænt um það að henni væri ekki sama.

Eva Rún Snorradóttir / Mynd: Sigurjón Ragnar