Armelóeftir Þórdísi Helgadóttur

Úr skáldsögunni Armeló sem er væntanleg 19. október. Mál og menning gefur út.

 

 

1.

 

Maðurinn minn var breyttur. Hitinn gerði hann sleipan og brúnan, hárið var gult og úr sér vaxið. Þurrkurinn fór með það eins og sinu. Hann horfði á veginn, ég horfði á hann og hugsaði um silkiþrykk eftir Andy Warhol. Það var eins og maðurinn minn hefði verið prentaður upp á nýtt í annarri litapallettu. Þótt andlitsdrættirnir væru þeir sömu gjörbreyttist heildaryfirbragðið við litabreytinguna. Jafnvægispunktarnir hliðruðust, form og skuggar tóku á sig nýtt vægi. Sólbrúnkan virkaði dimmbrún andspænis upplituðu hári og ljósum skeggbroddum. Vatnsblá augun stingandi undir hvítum brúnum. Hann virtist vera hrjúfari týpa, en líka hraustlegri. Yngri. Ég sá hann fyrir mér á brimbretti eða skútu. Ég brosti við tilhugsunina en hann tók ekki eftir því.

Ég leyfði mér að leka ofan í svart leðursætið. Loftkælingin var í botni og ég sneri öðrum blásaranum beint framan í mig, hinum í hálsgrófina sem safnaði svitaperlum eins og söltum fjársjóði.

Það var hitabylgja um alla Evrópu og hér vorum við eins og fífl, að brenna bensíni á sveitavegum til þess eins að glápa á kílómetra eftir kílómetra af gulþornuðum ökrum sem lágu flatir undan sólarþunganum. Brúnar laufkrónur tifuðu fram hjá bílrúðunni, skrælnaðar fyrir aldur fram. Dimmir skógar í fjarska. Í vegasjoppu hafði okkur verið sagt að óþarfa vökvun væri tímabundið bönnuð vegna þurrka.

Maðurinn minn blés hárinu frá augunum.

Ég hafði keypt þrjá nýja varaliti í stórborginni, uppreimaða sandala og ökklasíðan hvítan kjól. Öðruvísi fannst mér einhvern veginn ekki hægt að leggjast í flakk í sumarhitanum. Ef maðurinn minn tók eftir breytingunni á útliti mínu minntist hann ekki á hana – frekar en venjulega. Ekki það að ég væri eitthvert kamelljón. En stundum, einstöku sinnum, þegar ég var tóm og þreytt og hafði ekki lyst á eigin lífi, þá birtist eitthvað – manneskja úti á götu, mynd á netinu – sem greip mig svo harkalega að ég náði skyndilega ekki fótfestu lengur. Eins og ástarskot eða víma eða gredda. Allavega fylltist brjóstið af loftbólum og þegar maðurinn minn kom heim tók ég kannski á móti honum í pastellitaðri dragt með aflitað hár í herbergi fullu af hitabeltisplöntum.

„Já, mjög flott,“ sagði hann þegar ég gafst upp á biðinni og spurði hann hreint út hvernig honum litist á. „Glæsilegt bara.“

Bílar tóku fram úr okkur á nokkurra mínútna fresti. Maðurinn minn ók hægt, hann var þunnur og óviss um rétta afleggjarann. Ég lét augun líða eftir vegöxlinni. Alls staðar var eitthvað, ef vel var að gáð. Græn skilti við veginn, afvelta kýr eins og bráðnandi súkkulaðiís, bændur á dráttarvélum. Við inngang að útivistarsvæði röðuðu fjölskyldur sér í bíla. Flutningabílar biðu þolinmóðir á bílastæðum á meðan bílstjórarnir tæmdu síðasta kaffibollann úr blöðrunni og fylltu á sig með þeim næsta. Síðan klifruðu þeir upp í dúandi sætið og létu sig líða eftir þjóðveginum, lögðu mörg hundruð kílómetra að baki áður en klukkan varð fimm og þeir skiluðu farminum af sér í vöruhús í iðnaðarhverfi í öðrum landshluta. Þar stigu þeir stirðir niður úr hásætinu, sólbrenndir á vinstri kinn, og héldu heim. Kannski myndu þeir hlamma sér á sólstól í litlum garðskika í kvöldskímunni, aftan við lítið múrsteinsrautt tvílyft raðhús. Börnin myndu veifa pabba sínum af trampólíninu eða úr buslulauginni, hann myndi súpa á dökkri flösku af límonaðibjór á meðan ilmurinn af brösuðum kjötbollum bærist út um opnar bakdyr og síðan eftir mat myndi hann hátta við hliðina á konunni undir rósamynstraðri sæng. Fálma eftir kunnuglegum líkama, deila augnabliki sem enginn annar ætti hlut í. Tvær óþekkjanlegar manneskjur, hvergi neinn snertiflötur milli þeirra lífs og okkar.

„Vó!“ sagði maðurinn minn.

„Hvað?“

„Sástu?“

„Nei. Hvað?“

„Skiltið.“

Ég sneri mér við í sætinu.

„Hvaða skilti?“

„Ég sver það, hún var alveg eins og þú!“

Ég skimaði eftir skiltinu en það var löngu komið úr augsýn.

„Hver?“

„Nema með alveg hvítar tennur,“ bætti hann við. „Þetta var auglýsing fyrir eitthvað. Örugglega tannkrem eða sólgleraugu.“

Kannski hefði mér einhvern tíma þótt þetta spennandi. Jafnvel beðið hann að snúa við. Stillt mér upp við skiltið, stælt pósuna og látið hann taka myndir þangað til ég væri ánægð. En í rauninni efaðist ég um að það væri nokkuð upp úr því að hafa. Maðurinn minn gæti líklega ekki bent á mig á hópmynd af fölum, skolhærðum konum um þrítugt þótt líf hans lægi við.

„Lygilegt,“ sagði ég

„Já, maður,“ sagði hann. „Alveg bara lygilegt.“

Ég virti andlitið á honum fyrir mér. Það gljáði af svita og á enninu hafði grátt vegaryk safnast í skítablett. Ég vætti fingur með tungunni og teygði mig til hans.

Hann hrökk við.

„Hvað ertu að gera?“

„Rólegur.“ Ég sýndi honum svartan vísifingurinn sem ég hafði notað til að strjúka blettinn af. „Þú varst með eitthvað á enninu.“

„Ekki trufla mig, ég var næstum búinn að keyra út af.“

„Sorrí.“

Við ókum áfram í þögn. Dagurinn var flatur og þurr. Það var ekki fyrr en í ljósaskiptunum sem við komum til Armeló.

 

 

 

2.

 

Það var eitthvað sem hann hafði sagt kvöldið áður. Eitthvað mikilvægt. Ég hafði verið að hugsa um það þegar ég lagði höfuðið á koddann, staðráðin í að muna, en svo hlaut það að hafa runnið saman við draumana og skolast út þegar morgunninn sturtaði þeim niður. Barnið með baðvatninu.

Það ruglar í manni að vakna heima hjá einhverjum öðrum, ég tala ekki um þegar það er inni á heimili einhvers sem maður hefur aldrei hitt. Bjórdrykkja kvöldsins áður loddi við mig eins og köngulóarvefur. Smám saman hafði það komið til mín aftur, verkefnið sem beið okkar. Við þurftum að skila af okkur þessari íbúð fyrir hádegi. Ég starði á símann og reyndi að reikna út hversu mikill tími væri til stefnu og hvort hann myndi duga. Ég þurfti að hafa mig alla við til að halda einbeitingu.

Kvöldið áður hafði heill morgunn virst feikinógur tími til að pakka og taka til. Við þvoðum af okkur óhreinu fötin og hentum leirtaui í uppþvottavél. Klöppuðum okkur síðan á bakið og fórum á hverfisbarinn í síðasta sinn. Krúttleg Airbnb-íbúðin í þessari fallegu smáborg var fyrsti gististaðurinn þar sem við höfðum dvalið nógu lengi til að það tæki því að taka upp úr töskunum. Þetta var líka í fyrsta sinn á ferðalaginu sem gististaðurinn reyndist vera heimili einhvers í alvöru. Yfir bjórkrúsunum veltum við því fyrir okkur hvort íbúarnir – hjón um það bil áratug eldri en við – sæktu líka þennan sama bar. Það lá frekar beint við, staðurinn var á næsta horni við íbúðina. Hann var snyrtilegur, temmilega ódýr, vinsældapopp í hátölurunum en ekki svo hátt að það yfirgnæfði samræðurnar. Við höfðum kastað á hann eign okkar eftir að við römbuðum á hann fyrsta kvöldið í borginni, af engri ástæðu annarri en að þarna vorum við, og það var eitthvað spennandi við að eigna sér stað í útlöndum. Kynnast einum bar, einni byggingu, einum barþjóni mitt í hafsjó ókunnugleikans. Birgir yppti öxlum þegar ég spurði hvort hann sæi fólkið úr íbúðinni okkar fyrir sér á barnum.

„Við þekkjum þetta fólk ekki neitt.“

En við þekktum þau víst. Við vissum að þau voru barnlaus, eins og við. Lásu glæpasögur, annað eða bæði, og notuðu dýrasta ódýra sjampóið. Þau elduðu oft mexíkanskan mat en aldrei asískan.

„Hvernig veistu það?“ spurði Birgir og ég sýndi honum kryddskúffuna.

Við komum seint heim og sofnuðum án þess að taka úr þurrkaranum. Við hlutum að hafa drukkið talsvert mikið. Loftið var þungt þegar ég vaknaði og ég fann ætandi áfengislykt út úr okkur báðum. Svefninn hékk á mér eins og blóðsjúgandi skógarmítill, draumarnir í harðri samkeppni við veruleikann. Ég reif mig upp og maginn byrjaði að ólga. Tíminn var að hlaupa frá okkur. Ég leið í gegnum stofuna og tíndi upp það sem ég fann; heyrnartól, hleðslusnúrur, varasalva og póstkort. Óreiðulögmálið hafði starfað ötullega þessa daga sem við dvöldum í íbúðinni. Eigur okkar höfðu fallið snurðulaust inn í glufurnar í innbúi heimilisfólksins, dreift sér og blandast því sem fyrir var. Ég starði lengi á nokkrar bækur á sjónvarpsskenknum í von um að þær ljóstruðu því upp hverjum þær tilheyrðu. Þegar ekkert bólaði á svarinu fór ég inn í eldhús, hitaði kaffi og kallaði á Birgi á meðan ég ruslaði mat úr skápunum. Opnir kexpakkar og snakkpokar sáldruðu mylsnu um allt eldhúsið eins og öfugar ryksugur. Óreiðulögmálið.

Ég kallaði aftur og tæmdi úr ísskápnum í þvældan innkaupapoka á meðan Birgir staulaðist fram.

„Hvað ertu að gera?“ sagði hann.

Ég rétti honum kaffibolla.

„Klukkan er að ganga tólf, við verðum að vera farin á hádegi.“ Röddin í mér lá áttund ofar en venjulega, líkaminn á leiðinni í tvær áttir í einu.

„Slappaðu af,“ sagði hann og settist. „Þetta er ekki það mikið stress.“

„Við eigum eftir að þrífa allt,“ sagði ég.

„Já, ókei. Klukkutími til eða frá skiptir ekkert öllu.“

Ég ansaði ekki. Ég lokaði ferðatöskunni sem ég var búin að fylla, hífði hana yfir gólfið og fram á gang. Dagurinn var ekki einu sinni byrjaður og ég var þegar orðin sveitt og uppgefin. Hann fór í sturtu.

Klukkustund seinna ókum við þegjandi út á þjóðveginn. Það var gott að láta kílómetrana líða hjá.

Þá mundi ég allt í einu að það var eitthvað.

„Hvað vorum við aftur að tala um?“ sagði ég.

„Hvenær?“

„Í gær.“

„Ég veit það ekki. Alls konar.“

„Það var eitthvað sem þú sagðir.“

„Eitthvað sem ég sagði?“

„Já. Ég er að reyna að muna það.“

„Ég veit ekki,“ sagði hann. „Við vorum full.“

„Nei, samt.“

Þögn.

„Nei,“ sagði hann svo. „Ég sagði ekkert sérstakt.“

„Ókei.“

„Ég veit ekki hvað það hefði átt að vera.“

„Ókei,“ sagði ég.

„Ókei,“ sagði hann.

Dagurinn leið.

Í ljósaskiptunum komum við til Armeló.

 

 

 

3.

 

Þetta var sá tími dagsins þegar allt flattist út og glataði fjarvídd sinni. Himinninn var á litinn eins og fyllingin í vínarbrauði. Sjóndeildarhringurinn virtist klipptur út úr svörtum pappa. Leðurblökurnar voru í þann veginn að fara á kreik. Trjátoppar skáru loftið, skerpan var kærkomin í lokin á þessum ofnbakaða degi. Allt var ennþá volgt og hefað eins og brauðbollur.

Birgir lagði bílnum við torgið. Þessi bær var svo lítill að hann útskýrði sig sjálfur. Kirkja í öndvegi, látlaus gosbrunnur og skilti sem vísaði veginn til næstu bæjarfélaga. Nokkrar götur lágu eins og geislar út frá torginu, þar sem matvöruverslun bæjarins stóð líka. Bláir fánar gáfu til kynna að hún væri enn opin.

„Heyrðu,“ sagði Birgir. „Ert þú ekki til í að fara og tékka okkur inn?“

„Hvað ætlar þú að gera?“

Hann nikkaði í átt að búðinni.

„Grípa nokkra hluti. Eitthvað í morgunmat og svona.“

„Ókei,“ sagði ég.

„Kannski drykki. Maður veit ekkert hvað pöbbinn á staðnum er opinn.“

„Ókei.“

„Ég hitti þig bara uppi á herbergi,“ sagði hann.

Ég teygði úr stirðum fótleggjunum og greip veskið. Þvöl lærin nudduðust saman þar sem svitinn hafði kólnað í loftkælingunni. Loftið fyrir utan var staðið, mér fannst varla hægt að kalla það loft, svona kyrrt og bitlaust.

Í fyrsta skipti í ferðinni ætluðum við að gista á hóteli. Hótelið stóð á horni þar sem ein hliðargatan opnaðist inn á torgið, merkt með þremur stjörnum á koparskilti við innganginn. Þetta var snyrtilegt lítið múrsteinshús á þremur hæðum í röð svipaðra húsa. Bærinn virtist venjulegur, látlaus. Engin túristaperla. Engar sögulegar byggingar eða vel varðveittar gamlar götumyndir. Bara staður þar sem fólk bjó, vann og dundaði sér í garðinum, sendi börnin í skóla. Samt var einhver syfjulegur sjarmi yfir þessu öllu. Torgið var tandurhreint. Húsunum var vel við haldið og sætabrauðið í bakarísglugganum sem ég gekk fram hjá bar greinilegt handbragð fagurkera. Framan við húsin og uppi á svalahandriðum uxu grænar, blómstrandi plöntur – þær hlutu að vera vökvaðar oft á dag. Eitthvað við formin og litina var svo glimrandi fallegt á áreynslulausan hátt. Ég hugsaði mér að hér byggi smekklegt fólk. Tók hugsunina svo til baka. Hér bjó efnað fólk.

Móttökudaman var í símanum þegar ég kom inn. Ég beið kurteis, en hún sneri sér beint að einhverju öðru eftir að hún hafði lagt á. Ég þurfti að vekja athygli á mér í tvígang áður en hún virti mig viðlits. Þá virtist hún hins vegar ekki skilja orð af því sem ég sagði. Mögulega ranghvolfdi ég í mér augunum. Ég bað um penna og skrifaði nöfnin okkar á miða, skýrum prentstöfum. Stúlkan tók miðann, hvessti á hann augun, horfði síðan lengi á hann og tölvuskjáinn til skiptis og hristi loks höfuðið.

„Nei.“

„Nei?“

„Þú þarft númer.“

Ég litaðist um eftir einhverjum öðrum sem gæti liðsinnt mér en það var ekki sála í móttökunni. Ég tók upp símann og hringdi í Birgi. Hann hlaut að hafa fengið staðfestingarnúmer þegar hann bókaði hótelið. Ég rölti í átt að dyrunum með símann við eyrað og brosti ósjálfrátt til móttökudömunnar, eins og til að segja henni að hafa engar áhyggjur, ég skyldi leysa úr þessum litla misskilningi og hvorug okkar þyrfti að vera vandræðaleg. Hún leit undan.

Það hringdi út.

Á dyraþrepinu feykti kvöldgolan til mín dapurlegu ugluvæli. Ég horfði út yfir torgið og litla bílastæðið framan við kjörbúðina. Ungur maður í bláum pólóbol kom út úr versluninni, dró fánana niður og fór með þá inn. Samstarfskona hans læsti á eftir honum dyrunum. Um leið sló klukkan í gamla kirkjuturninum átta slög. Maðurinn minn var hvergi sjáanlegur.

Og bílaleigubíllinn. Hann var ekki lengur á stæðinu þar sem ég hafði skilið við hann örfáum mínútum áður.

 

 

 

 

Þórdís Helgadóttir

Þórdís Helgadóttir / Mynd: Dirk Skiba