Það mætti halda að Marmarabörn hefðu verið að hugsa um nýliðið ár þegar þau skírðu sýninguna sína Árið án sumars, alla vega eins og það blasti við okkur hér á suðvesturhorninu. En þau voru búin að hugsa þennan titil æði lengi áður en kom að því ári, enda eru þau með í huga sumarið 1816 þegar hópur listamanna settist að við Genfarvatn og ætlaði að njóta sumars og sólar en varð fyrir hastarlegum vonbrigðum. Eldfjall gaus í Indónesíu og hafði þau áhrif að varla sá til sólar í svissnesku paradísinni og loft voru öll lævi blandin. Skáldin urðu að vera innandyra og berjast þar við einangrun, innilokun og leiða – og þennan þátt gerðu Marmarabörn vel sýnilegan og áþreifanlegan í fyrri hluta sýningar sinnar á stóra sviði Borgarleikhússins í gær. Eins og endranær reyna þau verulega á þolinmæði gesta sinna með hæglætinu en á móti koma einstaklega glæsilegar og áhrifamiklar sviðsmyndir með búningum og leikmynd Guðnýjar Hrundar Sigurðardóttur sem eru satt að segja engu öðru lík.

Í hinu minnisstæða verki Eyður sem þau sýndu í Þjóðleikhúsinu fyrir fimm árum sléttum var það plastið sem var að drepa okkur. Og hvílíkur dauðdagi! Litríkur og glæsilegur. Eins og gefur að skilja af titli og efni er það andrúmsloftið sem er banamein okkar núna. Hamfarahlýnun og afleiðingar hennar. Eftir örvæntingarfulla leit að afþreyingu í fyrri hluta sýningarinnar tekur við sannkölluð heimsslitastemning svo að erfitt var að giska á hvernig þau ætluðu að halda áfram. Hvað gerist eftir heimsendi? Sér hún þá upp koma öðru sinni jörð úr ægi, iðjagræna, eins og segir í Völuspá?

Þykk þoka tók á móti okkur eftir hlé – eins og við Genfarvatnið forðum – en þegar fór að grilla í fólk gegnum þokuna blasti smám saman við ljúf stemning í hópnum, fögur og dekadent svo minnti á auglýsingaplakat sýningarinnar. Þar á mynd Sunnu Ben sjást karl og kona, hún með svört sólgleraugu, svart- og rauðklædd, hann nakinn í faðmi hennar með rauðlakkaðar neglur. Þessa senu fengum við ekki að sjá á sviðinu en senan af hópnum öllum í sloppum með grímur verður alveg ógleymanleg, ekki síst vegna ljósabeitingar Ólafs Ágústs Stefánssonar – og óvænts eiginleika grímanna. Og fleiri uppstillingar voru æðislegar. Er þá kannski best að slá öllu upp í kæruleysi? Eiginlega er freistandi að líta svo á ef ég hugsa til fjörlegs lokahlutans – og þó!

Marmarabörn, Katrín Gunnarsdóttir, Kristinn Guðmundsson, Saga Kjerúlf Sigurðardóttir, Sigurður Arent Jónsson og Védís Kjartansdóttir eru gasalega flink og það er yndi að horfa á þau þó að maður fatti ekki öll táknin og tilvísanirnar um leið og þær poppa upp. Sum skilur maður seinna, sum eru áfram umhugsunarefni. Til dæmis örin rauða – var hún að benda okkur á ákveðna leið til björgunar? Eða var hún bara að rugla í okkur? Ég spurði myndlistarmanninn félaga minn hvað hún þýddi í lokaatriðinu, hvort hún hefði bent á ákveðna leið og hún svaraði: Nei, breytingin er eini fastinn.

Tónlist Gunnars Karels Mássonar er ómstríð og hvorki falleg né hugljúf en hún umlykur mann á sérkennilegan hátt þannig að við erum inni í henni og öndum með henni og hún verður hluti af sviðsmyndinni. Dramatúrg er Igor Dobričić og Birnir Jón Sigurðsson er aðstoðarleikstjóri. Geggjuð leikgervin hönnuðu Tinna Ingimarsdóttir og Cathrine Cóté. Aðeins eru fyrirhugaðar þrjár sýningar á þessu magnaða verki þannig að það er eins gott að drífa sig.

Silja Aðalsteinsdóttir