Sagan um Jóa og baunagrasið hefur verið vinsæl í alls konar útfærslum í upp undir tvær aldir enda alveg ekta ævintýri, meira að segja með nettu kolbítsminni. Jói er óttalega lítil hjálp einstæðri móður sinni örsnauðri og þegar hann er sendur til að selja einu kúna þeirra svo að þau hafi eitthvað til að lifa á þá lætur hann hana í skiptum fyrir þrjár baunir. Von að mamma verði fúl. En seljandinn hafði engu logið um baunirnar og Jói reynist bæði hugrakkur og bragðvís þegar á reynir eins og við munum öll. Þetta gamla ævintýri segja þeir Gói (Guðjón Davíð Karlsson) og Þröstur (Leó Gunnarsson) nú á Litla sviði Borgarleikhússins við mikla ánægju ungra leikhúsgesta. Það er Gói sem er Jói og Þröstur Leó leikur rest eins og þeir félagarnir koma sér saman um í upphafi sýningar.
Baunirnar þrjár reynast töfrabaunir og upp af þeim sprettur svo hátt baunagras að það nær upp í skýin. Gói heillast af fiðrildi sem hann langar að ná í og klifrar upp eftir baunagrasinu. Hann nær ekki fiðrildinu en er allt í einu kominn á óvænt fast land þarna uppi í skýjunum. Hann skoðar sig um hálfsmeykur og flýtir sér að fela sig þegar hann heyrir þungstígan íbúa nálgast. Það er rosalegur risi sem æðir um af því hann finnur mannaþef, ákveður svo að þefurinn sé af stráknum sem hann át í vikunni sem leið („Það var góður strákur!“) og fer að telja peningana sína. Þegar hann er sofnaður út frá því rænir Gói gullinu og flýtir sér heim.
Nú væri hægt að hugsa sér að þau mæðginin létu þetta duga en mikið vill meira og Gói fer tvær ferðir í viðbót til risans, þá síðari í óþökk móður sinnar. Hann er meira að segja búinn að lofa henni að fara ekki og var ekki laust við að hrollur færi um unga leikhúsgesti við að horfa á Góa svíkja loforð sitt. Þetta er ansi djarft atriði en sennilega hefði mannkynið aldrei komist af frumstigi ef allir hefðu alltaf hlýtt mömmu sinni.
Gói er aðalmaðurinn á bak við þessa sýningu. Leikgerðin er hans og músíkina hefur hann samið með Vigni Snæ Vigfússyni. Margvísleg en einföld leikgervi Þrastar og búningar eru ágætur samtíningur, sjálfsagt á ábyrgð þeirra félaga, og sviðið einfalt. Þetta er skemmtilegt framtak og virðingarvert. Gömlu ævintýrin hafa mörg hver þann holla boðskap að lítilmagninn geti snúið á þá sem stærri og voldugri eru. Málið sé að vera hugkvæmur og hæfilega djarfur – eins og Jói/Gói.