Það er dýrmætt af Óperudögum í Reykjavík að rifja upp gömul meistaraverk eins og Þrymskviðu, sem ég missti af, því miður, og ekki síður að sýna okkur verk eins og Trouble in Tahiti eftir Leonard Bernstein sem við höfum ekki fengið að sjá hér á landi áður. Þessi stutta háðsópera/-söngleikur frá 1952 var frumsýnd í Tjarnarbíó í gærkvöldi undir stjórn Gísla Jóhanns Grétarssonar og Pálínu Jónsdóttur og vakti heilmikinn fögnuð. Textinn er líka eftir Bernstein og hann var sunginn á ensku.
Verkið hefst á því að djass-tríó (Íris Björk Gunnarsdóttir, Gunnar Guðni Harðarson og Ragnar Pétur Jóhannsson) syngur um hið ljúfa, fagra líf í yfirstéttarúthverfum helstu glamúrborga Bandaríkjanna og dansar með. Þau voru mjög skemmtileg og brutu líflega upp atburðarásina við og við eftir það eins og kórinn í grískum harmleik. Það á heldur ekki illa við að tala um harmleik því þegar við fáum að líta inn í eitt þessara fögru húsa til að gera þar vettvangsrannsókn reynist ekki allt eins og tríóið söng um. Í húsinu eru Sam (Aron Axel Cortes) og Dinah (Ása Fanney Gestsdóttir) ásamt ungum syni að borða morgunverð, en þrátt fyrir góð efni og sældina á yfirborðinu heyrum við að undir niðri er bullandi óánægja. Ástæðan er leiði húsmóðurinnar sem hefur ekki nóg við að vera í úthverfinu og óttast að eiginmaðurinn skemmti sér of vel í vinnunni, haldi jafnvel við einkaritarann sinn, ungfrú Brown (sem var skemmtilega leikin af þverflautunni í hljómsveitinni). Sam finnst þetta fráleit ásökun en þegar hann spyr ungfrú Brown að því í vinnunni hvort hann hafi einhvern tíma reynt við hana reynist hún muna eftir slíku atviki. Því bandar Sam frá sér fussandi. Metoo, hvað!
Við fylgjumst með þeim yfir daginn; Sam er í vinnunni og líkamsræktarstöðinni, Dinah hjá sálfræðingnum sínum og í bíó að sjá myndina „Trouble in Tahiti“, að kvöldi hittast þau aftur. Bæði hafa svikist um að fara á kappleik hjá syni sínum og samviskan er ekki sem best. En tríóið syngur hæðnislega um sæluna við arineldinn í úthverfinu eftir annasaman dag!
Tónlistin er afar skemmtileg þótt ekki sé hún eins aðgengileg og vinsælasta verk Bernsteins, West Side Story. Aron Axel er skínandi góður söngvari og fínn enskumaður og fékk mikið út úr hlutverki sínu, einkum frábærri aríu Sams um karlmennskuna og hinn sanna karlmann sem víkur ekki af sinni sigurbraut. Aron hefur fengið leikhæfileika í föðurarf og líka glettnislegan sjarma. Ása Fanney var ekki eins örugg á sviði en gaf ágæta mynd af hinni leiðu húsmóður sem er föst í sínum óræktarlega garði en lætur sig dreyma um fegurri garð og friðsæla hamingju. Hljómsveitin var prýðileg en lék heldur hátt fyrir Ásu. Hljómsveitin var á sviðinu sem ekki er mjög stórt og stundum fannst mér söngvurunum stillt upp óþarflega nærri henni þegar maður hefði viljað heyra textann vel.
Ég sé ekki betur en að þetta sé upplagt verkefni fyrir Íslensku óperuna – álíka langt og Röddin sem við fengum að sjá fyrir tæpum tveim árum og fullt af tilfinningum og dramatík eins og hún og gefur ekki síður tækifæri fyrir söngvara að láta ljós sitt skína. Leonard Bernstein á líka aldarafmæli í ár.
-Silja Aðalsteinsdóttir