Í rauninni er Horn á höfði, eldfjöruga barna og fjölskylduleikritið sem Grindvíska atvinnuleikhúsið (GRAL) sýnir núna, um háalvarlegt efni. Hver kannast ekki við að hafa vaknað að morgni og haft allt á hornum sér, jafnvel hrakið frá sér eina vininn sinn af tómri fýlu? Þetta kemur einmitt fyrir Björn (Víðir Guðmundsson) og það í bókstaflegri merkingu. Einn morguninn þegar hann vaknar er hann með tvo hnýfla upp úr enninu og verður að vonum illa við. Hann reynir að halda því fram að hornin séu bara bólur sem komi kannski til af því hvað hann er latur að þvo sér, en þetta reynast engar bólur heldur tvö raunveruleg horn sem halda áfram að stækka og stækka. Hvað er þá til ráða?
Vinkona hans Jórunn (Sólveig Guðmundsdóttir) glímir við annars konar vanda. Hún er nýbúin að eignast lítinn bróður en hann er svo veikur að foreldrar hennar þurfa að vera yfir honum á spítalanum dag og nótt. Pabbi Björns (Sveinn Ólafur Gunnarsson) er svo vænn maður og mikill húsfaðir að hún má alveg vera heima hjá þeim á meðan, en þó að henni þyki óskaplega vænt um þá feðga báða er leiðinlegt að vera svona munaðarlaus. Þennan merkilega dag gleymast þó veikindi litla bróður í ákafanum að leita lausna á hornvandamáli Björns, enda duga þar engin venjuleg ráð. Samkvæmt fyrirsögn draummanns fara börnin langa og mikla hættuför til að ná í festina dýrmætu í Festarfjalli og koma henni ofan í kistuna í Kistufelli, annars verður Bjössi hyrndur að eilífu.
Nú munu ýmsir kannast við þessi örnefni úr nágrenni Grindavíkur. Einhverjir munu jafnvel kveikja á því að sá sem nam land í Grindavík í öndverðu var einmitt kallaður Hafur-Björn og er það auknefni hans skýrt í Landnámu. Hér vinna höfundar verksins, Guðmundur Brynjólfsson og Bergur Þór Ingólfsson, með fornan arf og gera það með ágætum. Krakkarnir komast meira að segja að því þegar þau fara á bókasafnið að eiginkona Hafur-Björns hét einmitt Jórunn. Það gleður Jórunni meira en Björn.
En þeir félagar Guðmundur og Bergur Þór gleyma sér ekki í fornum arfsögnum, utan um þær spinna þeir bráðskemmtilegt leikrit með söngtextum sem leikararnir flytja við fjörug lög eftir Villa naglbít (Vilhelm Anton Jónsson). Textarnir eru margir fínir, einkum eru bölbænir Björns öflugar þegar haustmyrkrið gleypir hann og hann óskar Jórunni vinkonu sinni alls ills. Örnefnin í textanum eru öll úr sömu grennd: “Labbaðu í gegnum Leggjabrjót / og liggðu þar með brotinn fót. / Dagaðu uppi döpur, ein / í mosanum við Drykkjarstein …”
Á sýningunni í dag var fullt hús af fólki með börn alveg frá fermingu og ofan í burðarrúm, og svei mér ef persónurnar héldu ekki athygli þessa sundurleita hóps frá upphafi til enda. Þó er sýningin löng, meira að segja með hléi. Fyrst og fremst má þakka þennan árangur þéttum texta og skemmtilegum og öflugum leik undir hugmyndaríkri leikstjórn Bergs Þórs. Það reyndi rækilega á öll þrjú en þó sérstaklega á Svein Ólaf sem brá sér í ýmis önnur gervi en pabbans og var snöggur að skipta um föt og karakter, ungum áhorfendum til kátínu. Á einum stað var hann meira að segja tvær persónur í einu, svilkonurnar gömlu Þórkatla og Járngerður, og fór létt með að láta þær rífast og jafnvel slást! Persónur krakkanna höfðuðu til ólíkra aldurshópa, einkum Jórunn, annars vegar með tillitsleysi sínu sem minnti á óvita en gelgjunni hins vegar sem skemmti eldri gestum. Textinn var líka sérstaklega barnavænn með endurtekningum sínum sem stundum fóru út í drepfyndna vitleysu.
Leikhúsið er lítið og gestir þurfa að vera duglegir að ímynda sér breytt umhverfi þótt sviðið hennar Evu Guðjónsdóttur breytist ekki. En í sjálfu sér er það mjög sannfærandi að Bjössi og Jórunn fari hvergi. Þegar maður vaknar með allt á hornum sér er lausnin í vináttunni og kærleikanum og hvort tveggja er til heima.