Þetta var fjölbreytt menningarvika. Á þriðjudag hlustaði ég á Philip Glass, Víking Heiðar og Maki Namekawa leika 20 seiðandi etýður í Eldborg Hörpu, sumar svo fagrar að maður táraðist; á fimmtudagskvöld hlustaði ég á fjóra (fimm með kynninum) ansi fína uppistandara í kjallara Þjóðleikhússins með fullum sal af einstaklega hláturmildu fólki; og í gærkvöldi var svo frumsýning á nýju leikriti eftir Ragnar Bragason, Óskasteinum, sem hann stýrir sjálfur á Nýja sviði Borgarleikhússins. Ekki eins seiðandi og Glass og ekki eins fyndið og uppistandið en með sína eigin töfra og svolitla kraftaverk.
Ragnar Bragason hefur lýst því hvernig hann vann Óskasteina með því að láta leikarana þróa persónur sínar og skapa svo samræður í aðstæðum verksins út frá því hvernig þær eru innréttaðar. Með þessu fær hann mjög eðlileg og vel rennandi samtöl en gallinn er sá að persónurnar gera lengi vel lítið annað en kynna sig. Þó kemur í ljós í lokin að margt af því sem kom fram í að því er virtist innihaldslitlum samtölum hafði merkingu og tilgang umfram þetta kynningarhlutverk.
Eins og í grískum harmleik er aðalatburður verksins búinn að gerast þegar það hefst. Hópur ólánsfólks hefur rænt banka í litlum bæ og tekist að komast burt með rúmar tuttugu milljónir (ef Ragnar býr til bíómynd úr handritinu fáum við náttúrlega að sjá ránið). Þau líta á þetta fé sem lán í stað þess fjár sem bankinn hefur rænt af þeim og fyrir það ætla þau að byrja nýtt líf í útlöndum. En þó að þau kæmu fengnum í flóttabílinn tókst þeim ekki að flýja með honum og leikritið hefst á því að þau brjótast óséð inn í leikskóla staðarins þar sem þau ætla að fela sig þangað til bílstjórinn þeirra komi að sækja þau. Eitt vitni var að ráninu, Agnes (Hanna María Karlsdóttir), og þau taka hana til fanga svo að hún segi ekki til þeirra. Við erum svo þarna með þeim um nóttina, kynnumst þeirra innra manni og fylgjumst með ólíkum viðbrögðum þeirra við atburðum dagsins og næturinnar. Í Gullregni, leikriti Ragnars á sama sviði í hittifyrra, voru það árstíðirnar sem við sáum koma og fara með trénu fyrir utan gluggann, í Óskasteinum mælir stóra klukkan á vegg leikskólastofunnar tímann sem líður og verður ein aðalpersóna verksins.
Ránsmennirnir eru ekki gæfulegur hópur. Elstur er Trausti (Þröstur Leó Gunnarsson), lítilfjörlegur braskari með mörg járn í eldinum og öll ónýt. Núverandi kona hans er fyrrverandi fitnessdrottningin Sísí (Nanna Kristín Magnúsdóttir) sem er á leiðinni að taka aftur upp líkamsræktina og elskar hundinn sinn sem því miður varð viðskila við þau á flóttanum og er einhvers staðar týndur, henni til sárrar sorgar. Steinar (Hallgrímur Ólafsson) er sonur Trausta, illa vanræktur af föðurnum, taugaveiklaður smákrimmi með ýmis óvenjuleg áhugamál, og loks er kærasta hans í liðinu, Rakel (Kristín Þóra Haraldsdóttir), sem er mjög ólétt og með bumbuna bera milli bols og buxnastrengs eins og Björk forðum. Þó að þetta sé rustalegt fólk er ekki laust við að það veki smám saman samúð okkar eins og Agnesar sem er nokkurs konar fulltrúi okkar á sviðinu.
Eins og vænta mátti er leikurinn góður, þeim tekst öllum að „verða“ persónur sínar. Þó stenst ég ekki þá freistingu að nefna konurnar sérstaklega. Hanna María fór hægt af stað en varð síðar sannfærandi bjarg í ölduróti næturinnar. Nanna Kristín var hlægileg, brjóstumkennanleg og yndisleg í merkilegri blöndu í hlutverki Sísíar, með sinn dæmigerða talanda og „bilaðislegu“ nýyrði. Og Kristín Þóra er pakki af lifandi dýnamíti þar sem hún kjagar um sviðið með bumbuna sína, reykjandi, röflandi og rífandi kjaft, og nístir aðrar persónur með glóandi glyrnum sínum. Hvílíkur ofurkraftur. Hún nýtir líka firnavel tækifæri til að sýna aðra hlið á persónunni áður en lýkur.
Eins og í Gullregni er öll umgerð verksins raunsæisleg og afar vel útfærð af Hálfdáni Pedersen leikmyndahönnuði, Helgu Rós V. Hannam búningahönnuði, Þórði Orra Péturssyni ljósameistara og Mugison tónskáldi. Ekki er víst að Óskasteinar nái sömu vinsældum og Gullregn, það er ekki eins margrætt og þétt, svínslega fyndið og andstyggilegt, en það er verulega góð kvöldskemmtun vegna þess hvað það er vel leikið og á eflaust eftir að spyrjast vel út.