Ég sá í morgun leikarana og fjörkálfana Odd Júlíusson og Sigurð Þór Óskarsson halda upp á tíu ára vináttuafmæli sitt á stóra sviði Þjóðleikhússins fyrir fullan sal af líklega tíu ára börnum. Verkið sömdu þeir bestu vinir ásamt leikstjóra sínum, Birni Inga Hilmarssyni, og hafa verið að sýna víða um land síðan snemma í haust. Högni Sigurþórsson gerir litríka leikmynd en tónlistina sjá þeir félagar sjálfir um og skapa á staðnum, jafnvel með aðstoð leikhúsgesta.
Eins og nærri má geta er þetta eldfjörug sýning þar sem brugðið er upp svipmyndum af hversdagslífi skólabarna, einkum stráka auðvitað. Þeir leika ýmsar listir með bolta og fljúgandi vínber, fara í spurningaleiki þar sem niðurstaðan á að vera gefin en reynist vesen að fá fram hin einu réttu svör. Þeir kynna salinn fyrir æðislegri græju sem tekur upp hljóð á einfaldan hátt og blandar þeim á staðnum þannig að allt í einu er komið tónverk! Þegar tónlist kom við sögu gripu félagarnir til hljóðnema, annars beittu þeir blessunarlega bara sinni eigin rödd.
En inn á milli skemmtilegheitanna fær alvaran líka sitt rúm. Þar segja þeir frá erfiðleikum við að koma nýr í bekk, ræða stríðni og hvernig megi taka á henni. Verði maður var við ljóta framkomu við einhvern í skólanum sínum er ráðið að leita til fullorðinna, kennara, skólastjórnenda o.s.frv. En skömmu seinna kemur sterkt atriði þar sem það er kennari sem sýnir dreng hörku og ósvífni af því að hann barði í ógáti að dyrum meðan bekkur kennarans var í íslenskuprófi. Er þá fullorðnum kannski ekki treystandi?
Sýningin er 50 mínútna löng og síðast eru tvö alllöng atriði þar sem sagðar eru reynslusögur. Oddur segir sögu geranda í slæmu eineltismáli og Sigurður Þór rekur sögu þess sem hatar skólann og hefur ríka ástæðu til þó að hann vilji ekki trúa mömmu sinni fyrir henni. Hann vill ekki að mamma hafi áhyggjur af honum – en mömmur gætu vel sagt honum að þær viti nú stundum hluti þó ekki sé sagt frá þeim beinlínis. Þessar lokasögur voru þungar, einkum saga Odds, og ég fylltist aðdáun bæði á honum og salnum við að upplifa hvernig gestirnir tóku á móti henni. Öll þessi hundruð barna sem hálftíma áður höfðu verið æpandi og skvaldrandi og stjakandi hvert öðru frammi á gangi – fuglabjarg hvað! – þau sátu þarna steinþögul og mændu á Odd meðan hann sagði frá. Mögnuð stund.
Svona verkefni er auðvitað ekki leggjandi nema á algera snillinga en það eru þessir tveir. Ég þakka fyrir mig.