Hún var þrungin þögnin í stóra sal Þjóðleikhússins í gærkvöldi á frumsýningu Horft frá brúnni, og varði þá nærri tvo tíma sem sýningin stóð, án hlés. Einn og einn hósti heyrðist óþægilega vel og sömuleiðis suð í lágt stilltum farsíma, annars var þögnin djúp allan tímann. Þetta varð smám saman alveg magnað.
Horft frá brúnni er eitt besta leikrit Arthurs Miller, fjarskalega vel skrifað eins og vel heyrist í þýðingu Sigurðar Pálssonar. Það er líka óvenjulegt verk því hann notar sögumann sem miðlar atburðum til okkar eins og í skáldsögu. Sögumaðurinn er lögmaðurinn Alfieri (virðulegur Arnar Jónsson), ítalskur innflytjandi í New York og þess vegna sjálfsagður hjálparmaður landa sinna þegar þeir lenda í erfiðleikum. Sagan sem hann segir okkur er um ævi og örlög hafnarverkamannsins Eddies Carbone (Hilmir Snær Guðnason), vel látins manns í sínu umhverfi sem verður, þvert gegn vilja sínum og ásetningi, fórnarlamb óleyfilegra ástríðna.
Eddie býr með konu sinni Beatrice (Harpa Arnardóttir) og fósturdótturinni Katrínu (Lára Jóhanna Jónsdóttir), sautján ára systurdóttur konu sinnar sem þau hjónin hafa alið upp frá barnsaldri. Eddie er ábyrgur maður og hjartahlýr og tekur fús á móti tveim frændum konu sinnar, Marco (Stefán Hallur Stefánsson) og Rodolfo (Snorri Engilbertsson), þegar þeir koma á flótta undan atvinnuleysinu á Ítalíu og laumast í land, óleyfilegir innflytjendur í fyrirheitna landinu. Allt vill Eddie gera fyrir þessa ungu menn, hýsa þá og fæða og útvega þeim vinnu, allt nema leyfa Rodolfo að gera hosur sínar grænar fyrir Katrínu. Á yfirborðinu hafnar hann biðli fósturdótturinnar á þeim forsendum að hann elski hana ekki í raun og veru heldur sé hann bara að verða sér úti um landvist í Bandaríkjunum með því að giftast innfæddri konu, enda sé hann ekki eðlilegur karlmaður. Afar nett er leikið með það, bæði í texta og þó enn frekar í sviðsetningu og leikgervi, að þessar skoðanir Eddies geti verið grundaðar, svona til að gera okkur auðveldara um vik að skilja og fyrirgefa Eddie. Ef við fordæmum hann umsvifalaust verður verkið strax ómerkilegra.
Undir niðri eru það þó aðrar tilfinningar sem valda viðbrögðum Eddies, eða það grunar konu hans og það ekki að ástæðulausu. Beatrice tætist fyrir sitt leyti milli ástar á Katrínu og Eddie. Hún vill að Katrín fái að giftast Rodolfo eða alla vega að flytja að heiman til að létta á þessari þungu undiröldu ástríðu sem skekur heim hennar og líf. Áður en að því kemur vinnur Eddie verk sem er algerlega ófyrirgefanlegt í samfélagi hans – þó svo að það samræmist landslögum – og afleiðingarnar eru harmþrungnar.
Svið Seans Mackaoui, notkun hans á hringsviðinu til að kalla fram kvikmyndaáhrif og meistaraleg ljósabeiting Ólafs Ágústs Stefánssonar sem undirstrikaði rökkurstemninguna, voru algerlega töfrandi. Eini gallinn var sá að íbúð fjölskyldunnar varð helst til stór á þessu sviði, við fengum enga tilfinningu um þrengsli sem hefðu ýtt undir vaxandi óþolið í stórfjölskyldunni. Einnig var ég efins um teygða dvöl Eddies í símaklefanum, það var tákn sem mér fannst persónulega alveg óþarft. Við þurfum ekki að láta tyggja ofan í okkur hvernig Eddie líður.
Undir leikstjórn Stefans Metz verða persónur verksins afskaplega eðlilegar og mannlegar. Hilmir Snær sýndi vel innri átökin í brjósti Eddies og vekur sterkar tilfinningar, ánægju, viðbjóð, reiði og samúð. Harpa var sannfærandi ítölsk húsmóðir, í senn sterk og veik. Lára Jóhanna var yndisleg Katrín og um leið góður fulltrúi ungra kvenna á árunum upp úr 1950 sem þrá aðra framtíðarmöguleika en hjónaband. Stefán Hallur og Snorri voru gerólíkir bræður, annar dökkur, hinn ljós, annar þungur, hinn léttur, en báðir bjuggu til gegnheilar manneskjur svo unun var að fylgjast með þeim.
Þetta er voldugt verk um mannlegar ástríður og harminn sem þær geta valdið ef okkur tekst ekki að hemja þær, afar fagmannlega og glæsilega sett upp og flutt.