Ólafur Jóhann Ólafsson: Snjór í paradís.
Bjartur-Veröld, 2023.
Ólafur Jóhann er greinilega með hugann við útlönd þessi misserin en þrjár síðustu bóka hans fjalla allar á einhvern hátt um útlönd og ferðalög sem tengjast uppgjöri við fortíðina. Þá virðist Japan vera höfundi einkar hugleikið því tvær þessara bóka gerast að hluta til þar; skáldsagan Snerting, sem sló í gegn 2020 og var nýlega aðlöguð að kvikmyndaforminu af leikstjóranum Baltasar Kormáki, en einnig nýjasta bók Ólafs, smásagnasafnið Snjór í paradís.
Snjór í paradís inniheldur átta smásögur; „Það snjóar eiginlega aldrei í Tókýó“, „Við verðum að vona það besta“, „Borðin fyrir utan Cipriani“, „Hvarf Róbertós Alfieri“, „Skugginn af ljósmyndaranum“, „Stutt frá Náttúruminjasafninu“, „Blessaður pabbi þinn“ og „Algjör paradís“. Sögurnar eiga það nær allar sameiginlegt að fjalla um Íslendinga sem eru eða hafa verið búsettir í útlöndum og koma nokkur lönd við sögu, einna helst Bandaríkin og New York-borg, en einnig Ítalía og Japan. Ein saga sker sig þó úr, „Við verðum að vona það besta“, sem er eina sagan í bókinni sem fjallar alfarið um Íslendinga á Íslandi.
Fyrstu sögu bókarinnar, „Það snjóar eiginlega aldrei í Tókýó“, mætti kalla flaggskip smásagnasafnsins enda vísar titill bókarinnar til hennar en jafnframt til lokasögu bókarinnar, „Algjör paradís“. Sagan segir frá hjónunum Kristínu og Haraldi sem ferðast til Tókýó, þar sem Haraldur bjó á sínum yngri árum, vegna þess að Kristín, sem er galleristi, er að fara að setja upp myndlistarsýningu í borginni. Sögunni svipar að mörgu leyti til fyrri skáldsögu Ólafs, Snertingar, þar sem Japan og japönsk menning eru alltumlykjandi og aðdáendur þeirrar bókar munu eflaust hafa gaman af þessari sögu þótt hún sé að vissu leyti ólík skáldsögunni. Báðar sögurnar fjalla til að mynda um unga menn, Kristófer í Snertingu og Harald í „Það snjóar eiginlega aldrei í Tókýó“, sem yfirgefa heimahagana á Íslandi til að stunda nám erlendis og heillast svo af japanskri menningu og þjóð að það hefur afdrifarík áhrif á líf þeirra. Sögurnar eiga það sameiginlegt að fjalla um minningar, eftirsjá og fortíðarþrá og lýsa báðar ferðalögum til Japans sem sögumennirnir halda í þegar þeir, á efri árum, standa á krossgötum í lífinu. Þrátt fyrir ljóðrænan titil er smásagan ekki jafn melódramatísk og Snerting, enda fjallar skáldsagan um ástina en smásagan að mestu leyti um minningar og erfiðleikana við að koma tilfinningum sínum í orð. Smásagan er lágstemmd og tíðindalítil en á milli línanna sveima þó stórar spurningar og óorðaðar tilfinningar sem eru enn óleystar við sögulok, eins og á oft við um smásögur.
Smásagnaformið leikur vel í höndum Ólafs Jóhanns sem er flinkur við að skapa lifandi stemningu og eftirminnilegar persónur á fáum blaðsíðum. Sögurnar minna sumar á verk bandaríska smásagnameistarans Raymonds Carver enda er hér fjallað um hversdagslíf fólks á miðjum aldri, í knöppum og yfirveguðum stíl. Sögupersónur Ólafs Jóhanns eru nánast allt vel stætt fólk úr efri millistétt sem lifir alþjóðlegu þægindalífi og má gera ráð fyrir því að þetta sé heimur sem höfundur þekkir vel sem viðskiptamaður búsettur erlendis til margra ára (þótt ætlunin sé ekki að greina bókina út frá ævi höfundar). Sögupersónurnar eru á ólíkum aldri, allt frá ungu fólki yfir í fólk á efri árum, en allar standa þær á einhvers konar tímamótum og eru að glíma við samböndin í lífi sínu, hvort sem það eru börn að syrgja foreldra sína, foreldrar að syrgja börn sín eða hjón sem hafa vaxið frá hvort öðru.
Sögurnar eru misgóðar og miseftirminnilegar en þær sem heppnast vel eru afbragðsgóðar. Þar má sérstaklega nefna söguna „Skugginn af ljósmyndaranum“ sem lýsir örlagaríkum degi í lífi fjölskyldu; íslenskra hjóna sem eru búsett í Bandaríkjunum og eiga son í fíkniefnaneyslu. Sagan er stutt og einföld en fangar fullkomlega þær flóknu og þversagnakenndu tilfinningar sem umlykja fjölskyldur er glíma við fíknisjúkdóm. Höfundur lýsir, af næmni og virðingu, þeim harmi sem fólginn er í því að syrgja barnið sitt jafnvel þótt það sé enn á lífi. Sjaldan hefur undirritaður lesið sögu sem lýsir fjölskyldusamskiptum í skugga fíknar svo vel, og svo átakanlega, án þess að farið sé út í melódramatík og tilfinningaklám. „Skugginn af ljósmyndaranum“ er fáguð saga og svo myndræn að stundum líður lesanda hreinlega eins og hann sé að horfa á kvikmynd en frásögnin er þó þannig úr garði gerð að hún hentar smásagnaforminu fullkomlega. Höfundi tekst vel að skapa stemningu og andrúmsloft með fókuseruðum umhverfislýsingum og lætur tilfinningalega dýpt sögunnar að miklu leyti eiga sér stað á milli línanna, eins og greina má hér:
Það var innangengt úr bílskúrnum í forstofuna og hann stóð þar kyrr svolitla stund áður en hann fór inn í herbergi Ara. Hann opnaði dyrnar hægt en lokaði svo á eftir sér og kveikti á lampanum á skrifborðinu. Fötin sem Gerður hafði keypt á son þeirra en hann skilið eftir þegar hann lét sig hverfa lágu þvegin og samanbrotin á rúminu eins og hans væri von hvað úr hverju – gallabuxur neðst, bolir og nærföt efst, hettupeysa við hliðina. (141)
Önnur saga, þar sem höfundi tekst vel til, er „Hvarf Róbertós Alfieri“. Titillinn minnir á reyfara sem fólk tekur með sér í frí til sólarlanda, en sagan er áhugaverð svipmynd af ítalsk-íslenskri fjölskyldu og ákveðin karakterstúdía af fjölskylduföðurnum; listamanninum og tískumógúlnum Róbertó Alfieri. Sambönd barna og foreldra eru í forgrunni en Ólafur Jóhann er einstaklega fær í að lýsa fjölskyldudýnamík og fanga það sem bæði sameinar fjölskyldur og sundrar þeim. Þetta kemur vel fram í ýmsum öðrum sögum bókarinnar, þ.á m. „Skugginn af ljósmyndaranum“ og síðustu tveimur sögunum; „Blessaður pabbi þinn“ og „Algjör paradís“. Öll börn hafa sennilega einhvern tíma velt því fyrir sér hvers konar lífi foreldrar þeirra lifðu áður en þau komu til sögunnar og hvort það samræmist söguskoðun fjölskyldunnar eður ei. Í „Hvarfi Róbertós Alfieri“ birtast þessar vangaveltur í samskiptum sögupersónunnar Baldurs Luca við foreldra sína, Róbertó og Fjólu. Hin flóknu samskipti á milli nánustu fjölskyldumeðlima feta oft einstigið á milli umhyggju og eignarhalds, og taka mið af þeim hlutverkum sem fólk leikur innan fjölskyldunnar. Í fjölskyldunni gegnir Baldur Luca, yngsta barnið, greinilega hlutverki málamiðlarans og eins konar upplýsingaveitu fyrir foreldra sína og systur. Persónurnar eru vel skrifaðar og sannfærandi og margir lesendur geta eflaust speglað sig og sína nánustu í fjölskyldumynstrinu:
Hann sagði ekkert við móður sína en sendi föður sínum stutt og gagnort sms, spurði hvar hann væri staddur, þau hefðu áhyggjur. Skömmu síðar fékk hann svar, Róbertó kvaðst vera kominn til Rómar. Hvað ertu að gera þar? spurði Baldur. Ég þarf tíma, svaraði Róbertó, ho bisogno di tempo, sem Baldur vissi að þýddi að hann vildi fá að vera í friði. Ég skil, svaraði hann þótt hann skildi ekki neitt í neinu. (104)
Önnur smásaga sem vakti athygli mína er „Borðin fyrir utan Cipriani“. Sagan gerist í New York-borg og segir frá Heiðu, ungri íslenskri konu sem, ásamt tveimur öðrum konum, rekur netverslun með snyrtivörur. Líf Heiðu tekur stakkaskiptum þegar hún kynnist þýska viðskiptamanninum Gerhard, manni sem er kominn yfir miðjan aldur og býðst til þess að aðstoða þær stöllur með fjármögnun fyrirtækisins og koma þeim í samband við fjárfesta. Á milli Heiðu og Gerhards þróast samband sem sameinar bæði viðskipti og rómantík, en Heiða ákveður að halda því leyndu fyrir samstarfskonum sínum til þess að spilla ekki faglegu sambandi fyrirtækisins við Gerhard, og vegna þess að hún er ekki alveg viss um hvers eðlis samband þeirra Gerhards er. Svona sambönd eru auðvitað þekkt tugga úr bæði skáldskap og raunveruleika, eldri maður og ung kona kynnast við faglegar aðstæður og með þeim þróast rómantík sem blossar vegna nýjabrumsins og háskans sem er fólginn í því að „deita einhvern sem gæti verið foreldri manns“. Sagan kafar þó ekki djúpt inn í þá valdadýnamík, og aðstöðumun sem oft er fólginn í slíkum samböndum, heldur er Heiðu og Gerhard að mörgu leyti stillt upp sem jafningjum þótt hann sé bæði eldri, ríkari og reynslumeiri en hún. Í það minnsta er Heiða skrifuð sem drífandi persóna sem tekur sjálfstæðar ákvarðanir og samband hennar og Gerhards minnir á það sem á ensku hefur verið kallað „situationship“ og mætti þýða sem annaðhvort tímaband eða einfaldlega sem hið gamla góða ástand. Tímaband er hugtak sem hefur vaxið ásmegin á samfélagsmiðlum undanfarin ár og lýsir sambandi sem minnir á hefðbundið ástarsamband en þar sem hlutaðeigandi aðilar vilja af einhverjum ástæðum ekki skilgreina sem „fast“ samband. Þannig hegða Heiða og Gerhard sér gagnvart hvort öðru eins og þau séu í sambandi, gista hjá hvort öðru, sækja viðburði saman og fara í rómantískar ferðir til útlanda, en sleppa því þó að skilgreina sambandið sín á milli og gagnvart öðrum:
Þrír mánuðir voru liðnir frá því þau Gerhard kynntust og enn hafði hún ekki sagt Súsönnu og Loreu frá sambandi þeirra. Hún hafði reyndar engum sagt frá því, kannski vegna þess að hún átti erfitt með að skilgreina það. Hann kynnti hana sem „vinkonu sína“ þegar þau rákust á fólk sem hann kannaðist við, til dæmis í óperunni. Það var erfitt að ráða af málrómi hans hvers eðlis sambandið væri. (84)
Enda kemur á daginn að það sem upphaflega heillar Heiðu við Gerhard, ákveðni hans og hagkvæmni í viðskiptum jafnt sem ástum, er á endanum það sem gerir hann óhentugan sem maka. Þegar Heiða segir loks samstarfskonum sínum frá sambandinu hefur það einnig afdrifarík áhrif á viðskiptasamband kvennanna þriggja. Heiða og Gerhard eru vissulega nokkuð einfaldir karakterar, í það minnsta eru þau bæði erkitýpur sem maður hefur oft séð áður í alls kyns afþreyingarefni, unga athafnakonan í stórborginni og fjarræni en drífandi viðskiptamaðurinn sem hún heillast af. Þó er engu að síður áhugavert að lesa smásögu um þetta þekkta skáldskaparminni, ástarsamband ungrar konu og eldri manns, þar sem konan hefur raunverulegt atbeini og er ekki skrifuð sem fórnarlamb, en hugsanlega hefði mátt kanna nánar aðstöðumun þeirra Heiðu og Gerhards og ástæðurnar fyrir því að samband þeirra gekk ekki upp.
Snjór í paradís er á heildina litið vandað og vel skrifað smásagnasafn. Sögurnar eru allar áhugaverðar á sinn hátt, þótt þær séu vissulega misgóðar. Bókin mun eflaust gleðja aðdáendur Ólafs Jóhanns enda er í henni að finna öll hans helstu höfundareinkenni eins og alþjóðlegt sjónarhorn, þunga fortíðarinnar og tilfinningalegt næmi fyrir samböndum fólks. Það sem truflaði undirritaðan þó örlítið er hversu keimlíkum veruleika sögurnar lýsa. Þetta eru nánast allt sögur um efnaða Íslendinga sem lifa þægindalífi í útlöndum og hafa fáar aðrar áhyggjur í lífinu en þær sem allar manneskjur glíma einhvern tíma við á lífsleiðinni; dauða, sjúkdóma og hjónaerjur, með nokkrum undantekningum eins og sést t.d. í sögunni „Skugginn af ljósmyndaranum“. Það er þó ekki þar með sagt að sögupersónurnar séu ósympatískar, flestar eru þær heilsteyptar og vel skrifaðar. En eftir að hafa lesið heilt smásagnasafn þar sem bakgrunnur og aðstæður sögupersónanna er svo svipaður, þá fer mann óumflýjanlega að lengja eftir smá uppbroti.
Sjónarhorn bókarinnar er þannig fremur þröngt, í það minnsta er uppruni sögupersónanna ívið einsleitur og bókina einkennir þannig ákveðið afstöðuleysi. Ekki þó afstöðuleysi gagnvart skáldskapnum og lífinu, Snjór í paradís er fallegur skáldskapur sem inniheldur fallegar vangaveltur um lífið, heldur afstöðuleysi gagnvart samtímanum og þeim flóknu pólitísku stefnum og straumum sem einkenna líf fólks á tuttugustu og fyrstu öldinni. Stundum glittir í einhvers konar stærri pólitískari meðvitund, eins og í sögunni „Stutt frá Náttúruminjasafninu“, sem fjallar um kynferðisbrot, og samskipti kynjanna í „Borðin fyrir utan Cipriani“, en þær eru þó undantekning og í hvorugri þessara sagna er gagngert fjallað um þau pólitísku málefni sem ýjað er að, eins og til dæmis Me too-hreyfinguna. Þá hefði verið skemmtilegt að sjá fleiri og fjölbreyttari sögupersónur dúkka upp í bók sem fjallar að svo miklu leyti um útlönd og ferðalög, persónur sem eru ekki bara Íslendingar úr efri-millistétt og efnaðir Evrópubúar. Að sama skapi hefði verið áhugavert að sjá höfund kafa dýpra ofan í samfélagsleg og pólitísk málefni þeirra landa sem hann fjallar um, fimm af átta sögum bókarinnar fjalla til dæmis um fólk sem er búsett í Bandaríkjunum, landi sem er nú að ganga í gegnum eitt mesta pólitíska umrót sem vesturlönd hafa séð í áratugi, eitthvað sem ekkert er minnst á í smásögunum. Í skáldsögunni Snertingu tókst Ólafi Jóhanni vel upp við að sameina sinn næma og leitandi skáldskap við öldurót samtímans og því kemur það á óvart hversu varkár og að sumu leyti aftengd bók Snjór í paradís er. En það er ekki alltaf sanngjarnt að gagnrýna bækur fyrir það sem þær eru ekki og það verður að segjast að Snjór í paradís er bæði vel unnin og skemmtileg aflestrar. Hins vegar hefur Ólafur Jóhann sýnt það að hann getur skrifað bækur sem eru bæði tilfinningalega áhrifaríkar og tækla samfélagsleg málefni og vonandi gerir hann það aftur í framtíðinni.