Eiginlega er merkilegt hvað maður man vel eftir leiksýningunni Ormstungu frá því fyrir rúmum sextán árum – miðað við hvað maður hefur gleymt ótalmörgu sem hefur gerst síðan. En þessi ferska nálgun á Íslendingasögurnar, það heilagasta af öllu heilögu, var svo óvænt og svo rosalega fyndin og skemmtileg að sýningin hefur verið eins og grafin á heilabörkinn. Það kom í ljós í gærkvöldi þegar Benedikt Erlingsson og Halldóra Geirharðsdóttir endurfrumsýndu verkið á Nýja sviði Borgarleikhússins; sýningin reyndist vera fyrir í minninu en þó var að minnsta kosti næstum eins gaman nú og þá. Ýmsu hafa þau breytt, til dæmis man ég ekki eftir sjónvarpsfréttamönnunum úr gömlu sýningunni, en ég get ekki verið viss – enda eyddist gamla sýningin út úr minninu um leið og sú nýja var vistuð þar!
Í sýningunni er sögð harmræn saga af ástum ungra Borgfirðinga fyrir þúsund árum og eitt af því sem verkið dregur rækilega fram er hvað söguhetjurnar voru ungar þegar örlög þeirra ráðast. Gunnlaugur Illugason og Helga Þorsteinsdóttir eru krakkar á grunnskólaaldri þegar þau fella hugi saman og þau eru átján ára þegar þau bindast heitum áður en Gunnlaugur fer utan. Hann langar ekki til að verða bóndi á Gilsbakka strax heldur vill hann fyrst sjá siði annarra þjóða manna. Helga verður eftir og hefði sjálfsagt beðið hans eins lengi og þurfti ef hún hefði verið ein í ráðum. En af óviðráðanlegum orsökum kemur hann ekki aftur á tilsettum tíma og þegar Hrafn Önundarson biður hennar er Þorsteinn á Borg mátulega búinn að gleyma draumnum sem hann dreymdi meðan stúlkan var enn í móðurkviði og hann giftir Helgu Hrafni. Það kann aldrei góðri lukku að stýra í Íslendingasögum að gifta stúlku nauðuga og verður bani beggja ungu mannanna eins og draumurinn hafði sýnt. En Helga eignaðist ágætan mann og með honum fjölda barna þó að ekki ynni hún honum og hefur eflaust rifjað þessa miklu örlagasögu upp á kvennahjali til elliára.
Þessa sögu rifja þau Benedikt og Halldóra líka upp á sviðinu með fáum leikmunum öðrum en sínum lipru líkömum, fjölhæfu röddum og nokkrum hljóðfærum. Það er með ólíkindum hvað Benedikt getur búið til margar ólíkar persónur með röddinni. Djarfa unglingsrödd notaði hann á Gunnlaug, Illugi faðir hans var blestur á máli, Þorsteinn á Borg dimmraddaður og einkar karlmannlegur (nema þegar hann var fullur og sýndi sinn alvarlega föðurkomplex), Hrafn talaði afar lágt og (svolítið óhugnanlega) stillt og Aðalráður Englandskonungur hafði alveg sérstaka rödd og kæki. Stærðarmun á mönnum nær Benedikt svo jaðrar við sjónhverfingar, til dæmis var hann að minnsta kosti tveir metrar og eftir því mikill um sig í hlutverki Þórorms berserks. Helga hin fagra var vel stillt og virðuleg, alger andstæða vinkonu Slaugu í Árnesi sem minnti dálítið á Jóhönnu í Gullregni. Halldóra var líka Hallfreður vandræðaskáld sem sigldi með Gunnlaugi til Íslands og ýmsar fleiri persónur. Svo fær hún að njóta tónlistarhæfileika sinna; hún leikur á tvær hljóðpípur í einu svo unun er að heyra og plokkar kontrabassa þegar mikið liggur við.
Við fáum alveg að upplifa djúprætt tilfinningasamband Gunnlaugs og Helgu en fyrst og fremst er sýningin hröð og fyndin og á köflum grótesk eins og sagan sjálf og Íslendingasögur yfirleitt bjóða upp á – enda þurftu þær að þjóna margvíslegum smekk. Til dæmis var endurtekin sena af þeim Illuga og Þorsteini úti að kasta af sér vatni alveg mígandi fyndin, sömuleiðis hljóðin sem Benedikt gaf frá sér meðan Gunnlaugur var með sull á fæti; og meira að segja panodílorðaskiptin héldu áfram að kæta mann – enda fékk hún skemmtilegt tilbrigði.
Það er dýrmætt að fá aftur tækifæri til að njóta þessarar listilega gerðu sýningar og óskandi að hvert einasta skólabarn fái að sjá hana. Sögurnar fornu verða ekki gleymskunni að bráð meðan listamenn sinna þeim svona vel.