Alltaf gleður það mann, Gaflaraleikhúsið, nú síðast í dag með nýju verki eftir Karl Ágúst Úlfsson sem er byggt á Skugga-Sveini Matthíasar Jochumssonar: Í skugga Sveins. Þar gera þau sér lítið fyrir Karl Ágúst sjálfur og Kristjana Skúladóttir og segja okkur þessa gömlu sögu um útilegumanninn Svein og samskipti hans við fólkið niðri í byggðinni milli þess sem þau bregða sér í gervi óteljandi persóna sögunnar, syngja og ólmast eins og unglingar. Þriðji maður á sviði er Eyvindur Karlsson sem syngur og leikur sjálfan Skugga-Svein í helli sínum.
Það sem hefur laðað kynslóðirnar að Skugga-Sveini Matthíasar í hundrað og fimmtíu ár er einkum þrennt – og einmitt það allra nauðsynlegasta í allri dramatík: óttinn, húmorinn og ástin. Sveinn er persónugervingur hins samviskulausa illmennis en líka hins brögðótta, auk þess sem Matthías gefur okkur svolitla innsýn í sálarkvalir hans („Útskúfaður öllum frá, út ég lagðist fjöllin á …“). Í verki Karls Ágústs er hann talsvert mildari og saga hans átakanlegri því þar er hann orðinn faðir Haraldar unga og hafði misst móður hans, systur Lárentíusar sýslumanns, sem var honum hjartkær. Sveinn er samt ekkert góðmenni, hann er ennþá stórkarlalegur ofbeldismaður. Við fáum ekki að sjá hann leika á yfirvaldið eins og hjá Matthíasi en nóg er samt um kímni því þau Karl Ágúst og Kristjana kalla fram alla þessa karaktera sem Matthías skopast svo rækilega að: Hólasveinana Helga og Grím, Grasa-Guddu og Gvend smala, Ketil skræk, Jón sterka og kotungana Geir og Grana sem fá aukahlátur í boði nafna sinna í Spaugstofunni.
Ástin er líka á sínum stað í persónum Ástu dóttur Sigurðar í Dal og Haraldar útilegumanns. Hjá Matthíasi er það Haraldur sem bjargar lífi Ástu en Karl Ágúst snýr því að sjálfsögðu við og lætur Ástu bjarga Haraldi. Aukahlátur fá þau út úr því að Haraldur hafi aldrei séð kvenmann fyrr og viti ekkert um kossa.
Það er mikið lagt á leikarana tvo sem túlka allar þessar ólíku persónur. Hver einasta þeirra fékk sitt sérstaka fas og gervi eða að minnsta kosti einkenni, allt frá viðamikilli hárkollu (Gudda) og glæsilegu skeggi (Sigurður bóndi í Dal) að gleraugum með augabrúnum (Hólasveinar). Þegar fjöldi liðsmanna bættist við til að fara að Sveini gamla með sýslumanni dugði jafnvel eitt horn af rollu til að búa til persónu! Leikmynd, búninga, grímur og leikgervi voru í höndum snillinganna Guðrúnar Öyahals og Völu Halldórsdóttur og var maður aldrei í nokkrum vafa um hver væri að tala á sviðinu hverju sinni.
Þetta er leikrit með söngvum eins og gamla stykkið en nú er ekki notast við danska lagboða heldur hefur Eyvindur samið tónlist við skínandi góða texta hins orðhaga og hagmælta Karls Ágústs. Sýningin er dillandi skemmtileg bæði fyrir börn og fullorðna og verulega gaman að rifja upp þessa gömlu sögu. Og þó að hlutverkin séu mörg og jafnvel skipt um hlutverk á mínútu fresti var flæðið í sýningunni hnökralaust og má það eflaust ekki síst þakka leikstjóranum reynda, Ágústu Skúladóttur.
Silja Aðalsteinsdóttir