Einleikurinn Það sem er, sem María Ellingsen frumsýndi í Tjarnarbíó í gærkvöldi, var upphaflega stutt skáldsaga, bréfasaga, sem þóttist kannski vera sönn: höfundurinn, Peter Asmussen, segist í inngangi hafa „fundið“ bréfin í fórum frænda síns eftir að hann lést. Þessi forsaga er ekki með í leiksýningunni, þar göngum við einfaldlega inn á bréfritarann, konuna Renate (María Ellingsen), sem situr á sviði Snorra Freys Hilmarssonar, palli umkringdum ljóskösturum, eins og hún sé í viðtali eða yfirheyrslu. Og þar situr hún allan tímann, kyrr, og segir frá.
Renate býr í Austur-Berlín á 9. áratug síðustu aldar. Hún hefur frá barnæsku haft mikinn áhuga á Danmörku og vegna þess að hún kann dönsku er hún send sem túlkur Austur-þýskrar sendinefndar á friðarráðstefnu í Kaupmannahöfn. Þar kemst hún í náin kynni við Danann Tom og á þennan illskiljanlega kraftaverkahátt sem gerist þegar elskendur glíma við óþolandi aðstæður tekst þeim að halda sambandinu gangandi bréfleiðis eftir að hún hverfur aftur inn fyrir múrvegginn. Við fáum ekki að heyra bréf Toms, hún hefur líklega ekki geymt þau, en sín eigin bréf á hún eða kann þau utan að og flytur okkur þau.
Í bréfunum segir Renate Tom frá lífi sínu sem er að ýmsu leyti gott. Hún á góðan mann, Herman, og tvö efnileg börn og hún er í góðri vinnu. Á yfirborðinu gæti þetta ekki verið betra. En undir niðri er alltaf óttinn um að sambandið við útlendinginn komist upp, og í samfélagi hennar getur það ekki einungis eyðilagt hjónaband hennar, það gæti beinlínis verið henni lífshættulegt. Og þrátt fyrir hversdagshamingjuna er sambandið við Tom henni óhemju mikils virði, hún vill ekki slíta því, ekki einu sinni eftir að hún finnur Tom fjarlægjast í bréfum sínum, og tilfinningin um að hún gangi á brún hengiflugs alla daga verður smám saman óhugnanlega sterk. Ýmis ytri atvik ýta undir óhugnaðinn – besti vinur Hermans hagar sér undarlega og besta vinkona Renate hverfur. Í þessum heimi er ekkert tryggt, allt er annað en það sýndist vera. Líka ástin.
Auður Jónsdóttir þýðir þennan tilfinningahlaðna og auðuga texta af næmum skilningi, hann verður nákominn og smám saman kæfandi þegar dregur að lokum. Mikið er lagt á Maríu sem fær ekki að hreyfa sig, ganga um gólf eða snúa sér í hringi, fær varla að hreyfa hendurnar eins og fólk gerir þegar það segir frá. Röddin ein verður að túlka þann tilfinningaskala sem verkið fer. En hún hefur afar blæbrigðaríka rödd sem túlkar bæði birtu og myrkur á sannfærandi hátt og Björn Bergsteinn ljósameistari hjálpar til með því að beita ljósinu úr ólíkum áttum og nota skuggana markvisst. Skil milli þátta/bréfa, sem venjulega væru gerð með hreyfingu eða aðgerðum eru hér túlkuð með ljósum en þó einkum með frumsaminni tónlist Ólafs Björns Ólafssonar sem var í senn fögur og áhrifarík. Filippía Elísdóttir klæðir Renate og voru búningaskiptin í lokin sérlega umhugsunarverð.
Ólafur Egill Egilsson er leikstjóri sýningarinnar sem brýtur líklega blað á ferli hans, alltént er Það sem er ótrúlega langt frá Níu lífum! Það er gott til þess að vita að þessi mikli leikhúsmaður skuli líka geta verið svona stilltur.
Silja Aðalsteinsdóttir