Þjóðleikhúsið frumsýndi í gærkvöldi í Kassanum nýtt leikrit eftir Hrafnhildi Hagalín, Heim. Leikstjóri er þjóðleikhússtjóri sjálfur, Magnús Geir Þórðarson. Búninga og leikmynd hannaði Filippía I. Elísdóttir, lýsinguna Björn Bergsteinn Guðmundsson en algerlega göldrótt tónlistin var eftir Gísla Galdur Þorgeirsson.

Heim er klassískt að byggingu, gerist á einum stað á tæpum sólarhring, frá síðdegi, yfir kvöld og nótt og endar næsta dag. Í upphafi leiks bíður faðirinn, hjartaskurðlæknirinn (Sigurður Sigurjónsson) ásamt fullorðnum börnum sínum (Selma Rán Lima, Almar Blær Sigurjónsson) eftir því að móðirin (Margrét Vilhjálmsdóttir) snúi heim frá útlöndum. Hún birtist og er vel fagnað þó að talsverðs taugaóstyrks gæti í framkomu heimilismanna við hana, einkum barnanna. Smám saman kemur fram að hún hefur verið í meðferð á hæli í Bandaríkjunum, óljóst við hverju. Nágrannakonan Elsa (Kristín Þóra Haraldsdóttir) reynir að lýsa því þegar hún kom að móðurinni í einhverju annarlegu ástandi en fær ekki næði til að ljúka þeirri frásögn. Þarna eins og víðar er eitthvað sem ekki má hafa orð á. Elsa er að bíða eftir manni sínum, Ellert flugstjóra (Hilmar Guðjónsson), sem er um það bil að lenda eftir ævintýraflugferð með fínt fólk. Hann kemur svo í heimsókn seinna um kvöldið af því að hann er lyklalaus og kemst ekki inn heima hjá sér. Hann reynist líka eiga dulið erindi í hús læknisins.

Dagur, kvöld og nótt líða, enginn getur sofið og fólk er á sífelldum hlaupum upp og niður stiga og fram og aftur salargólfið. Kassanum er að þessu sinni skipt í tvennt með svið fyrir miðju og áhorfendabekki upp af miðjunni báðum megin. Þetta gefur kost á fjórum útgöngum sem voru vel nýttir. Persónur ræða saman í hálfkveðnum vísum en einstaka sinnum koma áþreifanlegar upplýsingar. Einkum er það gömul mynd sem dóttirin hefur fundið og vill fá skýringar á. Á myndinni eru foreldrar hennar ungir og með þeim vinur þeirra sem einnig var læknir og er faðir Ellerts – og það hefur slegið dótturina að sjá hvað bróðir hennar er nauðalíkur honum. Hann hafði látist í hörmulegu slysi skömmu eftir að myndin var tekin og nú er Ellert kominn með það á heilann að það hafi alls ekki verið slys heldur sjálfsvíg. Ljóst verður að þarna hefur lengi dafnað í skjóli þagnar gömul óhamingja, svik og ástarsorg.

Hrafnhildur Hagalín segir í viðtali í leikskrá að hún hafi viljað skrifa sextett þar sem allar raddir eru jafnmikilvægar og það hefur henni tekist. Allar persónur verksins fá rými til að opinbera sig fyrir áhorfendum og það gera þær á sannfærandi og áhrifamikinn hátt með einstaklega innlifuðum leik, allar sem ein. Það var afar ánægjulegt að sjá hvað nýstirnið Selma Rán sýndi mikið öryggi í samleik með reyndari leikurum í hópnum og hvað hún var vel valin sem dóttir Margrétar. Í kynningu hefur verið látið að því liggja að verkið snúist um móðurina – og vissulega sópar að Margréti í hlutverkinu með sinn undurfagra rauða makka og sterku nærveru. Börnin taka henni með varúð – sonurinn virðist framan af hálfhræddur við hana og átökin milli þeirra mæðgna voru sár. Við fylgjumst með þessum tilfinningasveiflum og tökum líka inn tilfinningar fólksins sem kemur að utan og hefur sína djöfla að draga.

En allan tímann er einn sem ekki tekur þátt í þessum átökum en á eyru, faðmlag og athygli handa öllum hinum. Faðirinn er hin raunverulega miðja verksins, verndari fjölskyldunnar, sá sem passar að ekkert sé sagt sem meiðir – þó að hann stuðli auðvitað um leið að þögninni – maðurinn sem allt veit, allt skilur, allt fyrirgefur og sinnir öllu sínu fólki eins og hann sinnir sjúklingunum á hjartadeildinni. Sigurður Sigurjónsson var einstæður í þessu hlutverki, frá honum stafaði hlýja og mildi og ýmislegt sem hann fékk að segja í verkinu mun lifa með mér áfram. Möndull jarðar.

Yfir leikmyndinni ríkir afar hár veggur klæddur gleri og við þennan „glugga“ standa persónur þegar þær þurfa næði. Annars var leikmyndin samansett af sviplitlum kössum, fyrir utan afar skrautleg veisluföng vegna heimkomu móðurinnar. Búningar voru við hæfi hvers og eins; sérlega fallegir voru búningar móðurinnar, oft út í grænt eins og hæfði háralitnum. Ég var nokkuð í vafa um búning dótturinnar í fyrri hluta, fannst ekki sennilegt að hún hefði klætt sig svona til að fagna móður sinni, en kannski var kjóllinn til merkis um óstyrk hennar í sambandi við tilefnið. Hún veit ekki hvernig hún á að vera til að þóknast móður sinni.

Birtubrigði voru glögg í sýningunni og var lýsingin hreinasta listaverk. Sama er að segja um tónlistina. Einhvern tíma í fyrri hlutanum man ég að ég hugsaði: það er engin áhrifstónlist! En svo kom hún, hægt og bítandi, og ýtti undir áhrifin af texta og leik á ísmeygilegan hátt.

Þau eru kannski ekki óvænt eða nýstárleg leyndarmálin í fjölskyldu hjartaskurðlæknisins en þau eru sár og lausnin á vandanum sem þau skapa er falleg: skilningur, umhyggja og ást.

Silja Aðalsteinsdóttir