Þá er það opinbert: Ólafur Darri Ólafsson er kominn í röð þeirra stærstu í sínu fagi, að minnsta kosti hér á landi. Hann er einhver besti og mest sannfærandi Hamlet sem ég hef séð á sviði og sýning Jóns Páls Eyjólfssonar á verkinu sem frumsýnd var á stóra sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi hefur alla burði til að slá aðsóknarmet á þetta frægasta leikrit allra tíma.
Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur býr til kuldalega konungshöll úr rimlum á sviðinu, háa til lofts með eins mörgum vistarverum og þörf krefur. Sérstaklega vel heppnuð var höllin þegar annað hvort stóra matarborðið eða himinsæng drottningar var á miðju sviði. Hið kuldalega svipmót er ítrekað með mikilli járnhurð sem dregin er upp og slakað niður með ískri þegar fólk fer inn og út úr höllinni. Þetta er ekki hús sem stendur öllum opið.
Búningar Maríu Ólafsdóttur eru mjög ásjálegir og meðvitað sambland af nýjum og fornum tíma. Það er texti verksins líka þar sem Jón Atli Jónasson barnar þýðingu Helga Hálfdanarsonar með fáeinum nútímaorðum, bæði blótsyrðum (fokkin eru tvö eða þrjú, ég hef áður lýst skoðun minni á því máttlausa blótsyrði) og tölvumáli (til dæmis peistar Hamlet línur inn í texta leikaranna sem troða upp í höllinni). Mestmegnis fær þó skáldlegur snilldartexti Helga að njóta sín og hálfkjánalegt að hafa þá Helga og Jón Atla báða skrifaða fyrir þýðingunni í leikskrá eins og þeir hafi lagt sambærilegt verk af mörkum.
Mér fannst þessi tímablendingur alveg gera sig. Tíminn er aldrei einhlítur. Til dæmis burðumst við með kóngafólk í nútímanum og það á iðulega í basli með að samræma hefðir og nútímakröfur. Skáldskapinn fengum við vel útilátinn í prýðilegri textameðferð leikaranna og svo hittu nútímaskotin leikhúsgestinn svo óvænt að maður hrökk í nýtt samband við það sem var að gerast á sviðinu. Það er brýnt að koma efninu til skila því að þetta er eilíf saga, eilíf klípa sem ung manneskja stendur frammi fyrir þegar grunur vaknar um alvarlegt siðferðisbrot innan fjölskyldu. Hér hefur móðir gengið að eiga mág sinn eftir að maður hennar deyr skyndilega. Hvers vegna gerir hún það? Hefur hún alltaf girnst yngri bróðurinn þó að eiginmaðurinn hafi elskað hana heitt? Og hvað með máginn? Tengist dauði konungsins ef til vill valdafíkn litla bróður? Alltént á að ganga framhjá Hamlet í valdaröðinni – enda virðist hann vera áhugalítill um stjórnmál og óttalegur amlóði, vinmargur en húðlatur eilífðarstúdent.
Það er alla vega myndin sem við fáum af Hamlet þegar Ólafur Darri túlkar hann á sviðinu. Þunglamalegur líkaminn, rólyndisleg röddin, hlýjan í viðmóti hans við vini sína. Hæglátur björn sem þó getur sannarlega risið upp á afturfæturna þegar aðstæður krefjast þess. Ólafur Darri sýndi allan tilfinningaskalann, hryggðina yfir aðstæðum í upphafi, áfallið við uppljóstrun vofunnar, sprellið og trúðslætin þegar hann vill leyna því sem hann hefur kannski uppgötvað, tryllinginn þegar hann hefur fengið vissu sína, djúpa sorgina þegar hann hefur óvart svipt æskuvini sína, Laertes (Hilmar Guðjónsson) og Ófelíu (Hildur Berglind Arndal) góðum föður. Ólafur hefur einstaklega fallega rödd eins og allir vita og fór svo vel með erfiðustu ræðurnar í verkinu að undrum sætir.
Gallinn var sá að sterk nærvera Ólafs Darra verður nokkuð yfirþyrmandi og skyggir á aðra leikara í sýningunni. Þetta kemur helst að sök eftir hlé þegar Hamlet er í Englandi og við erum lengi án hans á sviðinu. Sá hluti varð all langdreginn.
Af öðrum leikendum ber fyrst að nefna að Elfa Ósk Ólafsdóttir var glæsileg Danadrottning og fór ákaflega vel með hlutverkið. Einkum var átakasena þeirra Ólafs í svefnherbergi hennar áhrifamikil. Þó fékk ég óljóst á tilfinninguna að henni væri haldið niðri í leik. Ætti hún ekki að sýna skýrar hrifningu sína á nýja eiginmanninum? Hilmar Jónsson er myndarlegur Kládíus kóngur, maður skilur vel að drottningin girnist hann, en fyrst og fremst sýnir hann okkur harðan og holan valdafíkil og varmenni.
Jóhann Sigurðarson var auðvitað óviðjafnanlegur Póloníus og senurnar milli hans og Hamlets annars vegar og Kládíusar hins vegar með þeim bestu í sýningunni. Það var mikill missir að honum á sviðinu. Hildur Berglind er afar falleg stúlka og gerir margt vel framan af í leiðindahlutverki Ófelíu (þarf bara að þjálfa s-in sín). En í seinni hluta verksins á hún í sömu vandræðum með hlutverkið og allar ungar leikkonur sem ég hef séð í því. Ef ég hefði ekki séð Sigrúnu Eddu taka það föstum tökum á sínum tíma í Iðnó myndi ég fullyrða að ekki væri hægt að leika það. Hilmar Guðjónsson náði heldur ekki almennilegum tökum á Laertes en var skínandi skemmtilegur í hlutverki leikarans. Hjörtur Jóhann Jónsson var helst til sviplítill í hlutverki Hóratíó, vinar Hamlets – það hlutverk skiptir ansi miklu máli. Halldór Gylfason og Sigurður Þór Óskarsson léku Guildenstern og Rósinkrans og skiptu auk þess á milli sín öðrum minni hlutverkum og fannst mér Sigurði takast betur en Halldóri að láta ólíkar persónur sínar lifna á sviðinu.
Tónlist Úlfs Eldjárn er vel heppnuð og hæfir blendingsstíl sýningarinnar, bæði konungleg á hefðbundinn hátt og nútímaleg. Lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar var í góðum takti við ólíkan anda verksins og gerði margar senurnar rosalega flottar en sterka ljósið á miðju baksviði skemmdi örfá atriði fyrir þeim sem sátu framarlega fyrir miðju.
Allt í allt er þetta mögnuð sýning sem allir ættu að sjá, að minnsta kosti allir undir þrítugu.