Leikhópurinn Svartur jakki frumsýndi í gærkvöldi í samstarfi við Þjóðleikhúsið Óperuna hundrað þúsund eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur og Kristínu Eiríksdóttur, í Kassa Þjóðleikhússins. Guðný Hrund Sigurðardóttir gerir fantalega spennandi búninga, Friðþjófur Þorsteinsson hannar vandaða lýsingu, Hákon Pálsson gerir myndbandið sem er bæði upplýsandi og smart en Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir heldur utan um allt saman og leikstýrir söngvaranum á sviðinu, sópransöngkonunni Herdísi Önnu Jónasdóttur. Sviði Kassans hefur verið bylt fyrir þessa sýningu, áhorfendapallarnir hafa verið sviptir stólum sínum og Herdís Anna fær þá alla fyrir sig en áhorfendur standa eða sitja á sviðinu fyrir neðan hana.
Þó að Herdís sé bara ein á sviðinu lætur hún sig ekki muna um að túlka þrjár ólíkar persónur, Drottninguna, Móðurina og Dótturina. Drottningin er frek og rík dekurrófa og þolir ekki almúgann. Þegar hún neyðist til að taka leigubíl af því að bílstjórinn hennar er veikur („eða dáinn / eða ég man ekki“) ætlar hún alveg að gubba yfir leigubílstjóranum, Dótturinni, sem er ákaflega ófríð kona – í augum Drottningar. Hún klagar Dótturina en fær samviskubit þegar hún er rekin og vill bæta fyrir brot sitt. Eins og í gömlu ævintýrunum – og raunveruleikaþáttum samtímans – lofar Drottningin Dótturinni „hundrað þúsund“ ef hún geti leyst nokkrar þrautir, og ef hún getur gert hið ógerlega fær hún prinsinn, son Drottningar, að launum og „allt það sem allir myndu ímynda sér / að einhver gæti viljað / sinnum hundrað þúsund / og hundrað þúsund.“
Það fer svo að Dóttirin getur gert allt sem Drottningin krefst, jafnvel hið ógerlega, en lífið í höllinni er sannarlega ekki eins sæluríkt og það virtist úr fjarlægð.
Herdís Anna er dásamleg söngkona og lék sér að því að skapa persónur Kristínar með rödd og látæði. Sem betur fer er hún líka skýrmælt, þó var stundum erfitt að skilja orðin sem hún söng á hæstu nótunum. Líbrettó Kristínar er vel ort, fyndin og markviss ádeila á hroka, græðgi, stéttaskiptingu og afleiðingar hennar. Tónlist Þórunnar Grétu er vönduð og vel hugsuð, aríurnar ýmist dillandi fjörugar eða dramatískar, og hljóðfærapartarnir á milli voru afar skemmtilegir. Ekki voru nein takmörk fyrir því á hvað þau gátu leikið, Katie Elizabeth Buckley, Franciscus Wilhelmus Aarnink og Grímur Helgason, auk þess sem mikið punt var að þeim á sviðinu. Þau fengu sína búninga eins og söngstjarnan en hennar báru þó af, og var sjón að sjá þá marga hverja. Glæsilegastur var brúðarkjóll Dótturinnar í lokin, ég man bara ekki eftir öðru eins – nema ef vera skyldi í fyrri verkum Guðnýjar Hrundar, til dæmis Íslandsklukkunni í Kassanum í fyrra og Eyðum á stóra sviði Þjóðleikhússins fyrir fjórum árum.
Óperan hundrað þúsund er frumlegt, grípandi og metnaðarfullt verk sem enginn óperuunnandi ætti að missa af.