Ófeigur Sigurðsson. Heklugjá.

Mál og menning 2018. 413 bls.

HeklugjáHeklugjá Ófeigs Sigurðssonar er mikil bók að vöxtum og ber undirtitilinn „Leiðarvísir að eldinum“, sem ásamt kápumyndinni af símynstruðum hvirfli í miseldrauðum litum, gefur tilvonandi lesanda til kynna að hér sé fjallað um náttúruöfl, um frumefnið eldinn sem eyðir og skapar í sömu svipan, að minnsta kosti þegar um eldfjall er að ræða eins og augljóslega er hér. Það kemur því óneitanlega á óvart þegar við erum í upphafi sögunnar sett niður á Skólavörðuholtið í Reykjavík, þar sem maður og hundur lötra daglega leið sína frá Bjarnarstígnum neðan við Holtið og austur á Þjóðskjalasafnið við Laugaveg þar sem maðurinn, sem reynist vera höfundur bókarinnar, Ófeigur Sigurðsson, hefur fundið sér rannsóknarverkefni. Í lestrarsal Þjóðskjalasafnsins má nefnilega „komast í skjól frá veröldinni,“ (14) sökkva sér ofan í eitt líf, löngu liðið og staðfastlega skráð og láta sig sitt eigið litlu skipta. En þetta eina líf, líf Dunganons greifa, reynist vera náttúruafl, eldur sem eyðir og skapar í sömu svipan eins og kannski má segja um öll líf, einnig líf höfundarins sem einnig er hluti af sögunni sem sögð er í þessari bók.

Eldurinn er skapandi afl

Náttúruöflin, einkum eldurinn sem kraumar í iðrum jarðar hefur verið Ófeigi Sigurðsyni yrkisefni eða öllu heldur grunnur eða umgjörð í síðustu skáldsögum hans. Fyrst var það Skáldsagan um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar & nýrra tíma (2010) þar sem Jón Steingrímsson, í skjóli frá eldi og eimyrju Kötlu, skrifar bréf sín og miðlar í þeim m.a. hlut upplýsingarinnar í vestrænni hugmyndasögu og hún sett í samhengi við íslenskan veruleika. Næsta eldfjall sem Ófeigur tók fyrir var sjálfur Öræfajökull í skáldsögunni Öræfi (2014). Í þeirri margverðlaunuðu bók er eldfjallið klifið og tekist á við villifé. Táknmynd eyðingar og bjargar í sögu íslenskrar þjóðar sem sögð er í Öræfum út frá frásögnum aldanna jafnt sem samtímans. Á milli þessara tveggja bóka sendi Ófeigur svo frá sér skáldsöguna Landvætti (2012), sem er samtímasagan í þessu tríói og reyndar fátt þar um eldfjöll. Nú hefur fjórða stóra skáldsagan bæst við, Heklugjá.

Ísland stærst í heimi

Það er ekkert áhlaupaverk að innbyrða fjögur hundruð blaðsíðna skáldsögu sem ætlar sér að ná utan um heiminn allan – það sem hugsað hefur verið, skáldað og komist að niðurstöðu um á öllum tímum – og finna þessu öllu eina og sömu rót, nefnilega Ísland, nánar tiltekið í Heklugjá. Margt er kunnuglegt, fengið úr heimildum, tiltækum sem löngu glötuðum, og lesandinn spyr sig jafnaðarlega: Var þetta svona? er þetta satt? um leið og reynt er að fylgja eftir óteljandi rangölum tenginga ótal persóna um víða veröld og alla tíma.

Það hefur örugglega heldur ekki verið neitt áhlaupaverk að draga saman allar þessar sögur úr ritum og skræðum aldanna, varðveittum jafnt sem týndum og „stórbæta,“ eins og Ófeigur gerir í þessari bók – að sögn líkt og Sæmundur fróði gerði í Eddu sinni – „í ljósi samtíðar sinnar, því sem efst [er] á baugi í samfélaginu og endurspegl[ar] alla menn á öllum tímum“ (239), því samtíminn er sannarlega þarna líka samtími höfundar Heklugjár, sem og líf hans. Heklugjá er nefnilega líka ástarsaga Ófeigs og Heklu.

Hér er lagt í ótrúlegt ferðalag í tíma og rúmi þar sem staðreyndum sögunnar samkvæmt heimildum er safnað um leið og höfundur tekur sér frelsi til að bregðast við því sem áhuga vekur á þessari vegferð og tengja við hvaðeina það, sem geti fleygt honum og frásögn hans áfram að fyrrnefndri hypótetísku niðurstöðu að á Íslandi sé upphaf alls. Ástæðan er augljós, Heklugjá, tenging lífsins við dauðann, himins við helju, kjarna lífsins við sögu heimsins, „eldfjallið sem Guð notar til að opinbera ofsafengna reiði sína yfir siðferði mannsins“ (191) er þar. Og rýnir spyr: Er þessi fjögur hundruð blaðsíðna frásögn með hetjudáðum og sprelli, hugsanasprengjum og tiktúrum fram settum með margvíslegum brellum skáldskaparins ein allsherjar skraparotspredikun um mont og belging Íslendinga, minnstra og síst máttugra meðal þjóðanna, spilandi sig í eigin frásögnum ævinlega stærsta og hins albesta verðuga, jafnvel fram yfir aðra? Meira að segja hinn guðdómlegi gleðileikur Dantes og ferðir Sigurðar Jórsalafara eiga samkvæmt skáldsögunni rætur að rekja í Heklugjá og elda þá sem þar eiga upptök sín og grípa reglulega inn í gang sögunnar úti í hinum stóra heimi. Ísland er aðal.

En að öllu gamni slepptu, og einkum þó snarpfengnum niðurstöðum varðandi kjarna, inntak og boðskap skáldsögu sem er flókin og afar flæðandi, er rétt að byrja á byrjuninni, fyrstu spurningunni: Hvers konar saga er Heklugjá? Form hverrar sögu ber í sér inntak hennar og upplifun. Raunsæi felur gjarna í sér röklega niðurstöðu flókinna aðstæðna, geisandi gammur hugarflæðis opnar fyrir spurningar sem vart verða orðaðar og ljóðrænt og gaumgæfandi lágflug með dýfum afhjúpar undur hins smæsta í samhenginu svo nokkrar tegundir sagna séu nefndar. Heklugjá er í raun þetta allt og meira til.

Heimssagan síendurtekin og skúlptúr skal það vera

Allt hefst þetta og endar raunar líka – því „tíminn er ein kúla“ (5) – með heimsborgara Íslands númer eitt, Dunganon greifa af Sankti Kildu, sem lifað hefur alla tíma, hérna megin sem hinum megin, í svokallaðri „Vídd“ og því sannfærandi að „bréf og skjöl, kompur með ýmsu efni í tugatali, Karl Einarsson Dunganon, riddaraskjöl frá Sankti Kilda, nótnablöð, prentað mál, glasakvæði, myndir og teikningar,“ (18–19) varðveitt í sjö öskjum í Þjóðskjalasafni Íslands, gefi þeim sem sökkvir sér ofan í ákveðið en um leið mátulega ótraust haldreipi til samtals við skáldsagnaformið. Enda heldur höfundurinn – sem fljótlega er skjalfest með ættartölu að er enginn annar en Ófeigur Sigurðsson – á hverjum morgni ásamt hundinum, Kol, úr íbúð sinni við Bjarnarstíg yfir Skólavörðuholtið, þar sem túristarnir voma í kringum guðshúsið, og áfram til norðurs til uppsprettu sögunnar í áðurnefndum sjö öskjum greifans á Þjóðskjalasafni Íslands.

Ófeigur skráir sig inn á safnið með sjálfblekungnum en er truflaður, veit skyndilega ekki hvað hann heitir, því þarna situr ung stúlka, rauðhærð og horfir á hann sægrænum augum. Stúlkan heitir Hekla og verður músa höfundarins og getur auðvitað ekki borið annað nafn en „fjallsins eina,“ sem er „[f]egurð eyðileggingarinnar“ og jafnframt uppspretta alls, jafnvel, eins og áður sagði, Hins guðdómlega gleðileiks Dantes, sem sá byggði á latneskri þýðingu Eddu Sæmundar fróða eins og ítalskur verk- og dulmálsfræðingur hefur með margra ára útreikningum og rannsóknum komist að raun um að liggi undir hraunlögum Heklugjár og því ekki lengur til samanburðar tæk. Dante sjálfur hafði raunar mátt horfast í augu við þessa staðreynd um það bil sjö hundruð árum fyrr þegar hann leitaði frumrits Völuspár á Íslandi við Skarðið eystra. Og nákvæmlega þar, við Skarðið eystra, á höfundurinn, Ófeigur, kofa. Og þar er hann staddur þegar áðurnefnd Hekla, með rauða hárið og sægrænu augun, sendir honum skilaboð í fyrsta sinn, vill hitta hann og hann þýtur af stað.

Tengingarnar eru alls staðar í þessari bók, stundum jafnvel einum of og samt alls óvíst að lesendur átti sig á þeim öllum. Mikilvægasta tengingin er þó að mínu mati tenging skáldskaparins og ástarinnar. Þegar Hekla lítur á höfundinn, Ófeig, „sjakalaaugum“ (75) á myndlistaropnun snemma í sögunni er tónninn sleginn fyrir „ástarsamband sem skúlptúr.“ (76) En svo hafði myndlistarmaðurinn rétt áður lýst verkum sínum á sýningunni fyrir höfundinum Ófeigi í ímynduðu samtali þess síðarnefnda við hann og sem leiðir huga hans að skáldsögunni sem skúlptúr, „orðin eru skúlptúr, merkingin er skúlptúr, túlkunin, bókin sjálf er skúlptúr …“ (63) og nú er ástarsamband sem er skúlptúr í uppsiglingu. Listin, skáldskapurinn, ástin – allt er það skúlptúr, sem lýsir sér í „and[a] verksins, stemning[u] og áhrif[um] sem enginn getur útskýrt, bara fundið fyrir …“ (64).

Skáldsagan Heklugjá eftir Ófeig Sigurðsson skiptist í sjö hluta auk formála sem er eins konar forleikur, ritaður með skáletri. Þar rennir söguhetjan Dunganon í gegnum helstu atriði sögunnar sem er að hefjast, persónur og heimildamenn, „skítfallinn á prófinu, hvað sem það heitir …“ (6) en upptaldar persónur og heimildamenn frásagna greifans eru allt karlmenn, enda eru samkvæmt Dunganon, „engin kyn eða maðurinn er í grunninn kona, jörðin & moldin & allt það …“ (6). Með þessum orðum hefur Dunganon einnig svindlað höfundinum Ófeigi í gegnum Bechdelprófið sem gengur út á jöfnuð milli kynja – reyndar fyrst og fremst í kvikmyndum – en karlmenn eru fyrstir, fremstir og flestir í skáldsögunni Heklugjá.

Hinir sjö hlutar skáldsögunnar eru framan af áþekkir að lengd og kaflaskiptingu en styttast til lokanna. Í hverjum kafla er yfirleitt ein aðalpersóna sem sýnir og sannar með lífi sínu, skrifum, herferðum og öðrum gerðum, en einkum þó samtvinnun þessa frá hendi höfundarins í sögunni, Ófeigs Sigurðssonar, að allt tengist Heklu og Íslandi meira eða minna.

Í fyrsta hluta sögunnar fylgist lesandinn með sögumanni, höfundinum, og kynnum hans af fyrstu sögupersónu sinni og aðalheimildamanni, Dunganon greifa af Sankti Kildu, sem verður vegabréfið inn í allar víddir sögunnar, þ.e.a.s. þær sem hann kærir sig um að ferðast í og sækja sér efnivið til.

Dunganon er ekki valinn af handahófi, hér er á ferðinni eitt mesta ólíkindatól íslenskrar sögu og bókmenntasögu sem ótal persónur og enn fleiri sögur hafa vaxið af, auk þeirra sem hann skráði sjálfur í nótubækur sínar. Dunganon er því kjörinn leiðsögumaður í því frjálslega ferðalagi sem bókin Heklugjá, leiðarvísir að eldinum er, enda heldur sögumaður ásamt hundi sínum Kol, sem reyndar er ekki minna skáld en eigandi hans, á hverjum morgni upp á Skólavörðuholt og þaðan í norðurátt á Þjóðskjalasafnið. Þar rýnir höfundurinn í gögnin í öskjunum sjö, spyr og spinnur gang heimsmála á tíð Dunganons og aldir margar áður og hvaða þátt allt þetta eigi í ástandinu hér og nú, í heiminum og í henni Reykjavík með öllum ferðamönnunum á Skólavörðuholtinu, sjálfshjálparæðinu, hruninu og hvaðeina sem vingsast inn í þennan mikla sagnabálk sem skáldsagan Heklugjá er.

Fjölmargar persónur dansa fram í samtölum þeirra félaganna, Dunganon þekkir alla sem vert er að þekkja í sögu heimsins og á sér heimildamenn, ýmist í bókum eða af beinum samskiptum – í raun eða í hinni svokölluðu „vídd“. Þegar það dugir ekki til lætur höfundurinn Dunganon segja sér hitt og þetta sem honum þykir henta til tenginga eða jafnvel bara skemmtunar og frekari frásagna fyrir lesandann og sjálfan sig. Þannig flæða fram í hverjum kaflanum á fætur öðrum frásagnir af ótal sögulegum persónum og viðburðum, og tengingum þeirra aftur í aldir og fram til þessa dags. Sumar persónanna eru aðeins nefndar á nafn eða eiga sér styttri útúrdúrafrásagnir.

Aðrar fá langar frásagnir af lífi sínu, afrekum og áhrifum og eru þar eftirfarandi „aðal“: Dunganon greifi eða Karl Kjerúlf Einarsson, samkvæmt skírnarnafni, en lífslistamaðurinn sá fór um heiminn og tók sér hin ýmsu nöfn eftir hlutverki hverju sinni og er í fyrstu tveimur hlutum Heklugjár einkum sagt frá ævintýrum hans. Eftir því sem líður á söguna fer hins vegar minna fyrir Duganon þótt af og til skjóti honum upp allt til síðustu setningar. Aðrir sem fá umtalsvert rými í skáldsögunni Heklugjá eru Sæmundur fróði sem „[e]nginn veit neitt um“ og verður því „að vera með […] endalaus[ar] og undirstöðulaus[ar] getgátur“ um, sem gerir „daginn okkar fallegan“, eins og höfundurinn segir við hund sinn á einum stað frásagnarinnar (216–18). Hann segist líka kjósa, svo dæmi sé tekið, að fylgja þeim fræðimönnum sem trúa því, að Sæmundur hafi gengið „um héruð og safnað germönskum kvæðum sem voru að falla í gleymsku, um ástir og örlög fornra kappa og guða sem síðar varð Eddan.“ (218–19)

Löng frásögn sögunnar um líf og herferðir Sigurðar Jórsalafara er lögð í munn Jóni Loftsyni, sem segir hana Snorra fóstursyni sínum ungum fyrir svefninn og tekur sú saga yfir nær allan síðari hluta bókarinnar.

Auk frásagna af þeim sem hér hafa verið nefndir eru í skáldsögunni Heklugjá líka áhugaverðar frásagnir af öðrum sögulegum persónum og venjulegu fólki, þar á meðal langafa höfundarins, átökum þeirra, gleði og sorgum, án þess að sú mergð verði upptalin hér.

Engin þessara sagna sem hér hafa verið nefndar er þó sögð frá upphafi til enda heldur fer hverri þeirra fram um nokkra hríð þar til eitthvað vekur áhuga eða spurningar sem skyndilega fleygar frásögnina sem er í gangi, aftur eða fram í tíma, eða að stokkið er til að segja frá einhverju allt öðru, sem má tengja við fyrri frásögnina eða ekki, og geta þessar innskotsfrásagnir orðið margar blaðsíður.

Hér er með öðrum orðum á ferðinni mikið frásagnarflæði sem streymir fram og skiptir sér um björg og sanda, sameinast aftur eða flúðirnar hverfa út á astralplanið, og lesandanum enginn annar vegur fær en að fylgja eftir þessum straumum öllum og njóta. Stundum steytir athygli lesandans á skeri, fartin hreinlega of mikil, endurtekin stef verða leiðigjörn eða spurningar vakna sem einhverjir slá inn í leitarvél og týna sér jafnvel þar eða ná að hvílast fyrir næsta tilhlaup að skáldsögunni Heklugjá. Það þarf ekki einu sinni að byrja á sama stað og frá var horfið. Frásagnarflæðið og stökkin eru þess eðlis að nær hvar sem er má festast.

Ástin í skáldskapnum er kona sem styður

Hekla í skáldsögunni Heklugjá er, eins og komið hefur fram, ekki bara fjall heldur líka konan í lífi höfundarins, en ekki löngu áður, eins og upplýst er í sögunni, höfðu hann og fyrri konan í lífi hans skilið. Hann er því hálfvængbrotinn í upphafi og vill vanda sig í nýju sambandi, höndla allt betur, ástina og skáldskapinn, og hvað kallast betur á við nýja skáldsögu, verðandi skáldsögu, en ný ást, ást í verðandi.

Reglulega smeygja sér inn í heildarfrásögnina, sem gerð var tilraun til að lýsa hér að framan, frásagnir af sambandi þeirra Heklu og Ófeigs, og undir lokin verða ástir þeirra og hversdagslegar athafnir æ fyrirferðarmeiri. Þau áforma að flytja úr landi, hefja búsetu í Berlín, flytja síðan til Brüssel og þaðan til Antwerpen, en þar mun Ófeigur búsettur nú ásamt sambýliskonu. Áður en að því öllu kemur, eða kannski var það á milli búsetustaða, ákveða þau að fara í ferðalag, langt í burtu. Flýja jólin eins og margir kjósa að gera. Istanbúl verður fyrir valinu, eða má, í samhengi þessarar bókar, aðeins „segja Mikligarður eða Konstantínópel? … eða Býzantíum?“ (344) eins og Hekla hreytir í elskhuga sinn þegar hann vill að hún noti íslenskt heiti Hagía Sofia, Ægisif, líkt og gert er í fornum ritum og er heitið sem er notað í frásögninni af Sigurði Jórsalafara sem dvaldi lengi í Miklagarði, eins og lesandinn veit þegar hér er komið sögu.

Þrátt fyrir fyrrnefndar kýtur eru þau Hekla og Ófeigur einkar samstiga í sinni tilveru og frásagnir af ferðum þeirra og samvistum dansa fram á síðunum, þar sem eitt skref leiðir af öðru og setningaskipan er hverjum íslenskukennara þóknanleg. Hinn annálaði íslenski ritunarstíll stuttra setninga, beinnar ræðu og ímugusts á innskotssetningum nær hins vegar alls ekki utan um vitundarflæði snarpra hugrenningatengsla og vísana þvers og kruss um tíma og rúm í frásögnunum um hetjur, skáld og sagnaritara úr fortíðinni. Í þeim frásögnum flæðir textinn fram, að mestu án punkta og greinaskila en með þeim mun fleiri kommum og semikommum. Það skal reyndar undirstrikað að þrátt fyrir flæðið er hugsunin og eftirfylgnin alla jafna svo vel afmörkuð að oft er hrein unun að útúrdúrunum og kröppum frásagnar- og hugmyndalegum beygjum höfundarins. Það þarf kannski að vera skikk á ástalífinu til að músan megi innblása höfundinum flæðandi skáldsögu sem nær formi.

Hin rauðhærða og græneyga Hekla er falleg, skemmtileg og þægileg í umgengni. Mikið meira fá lesendur í raun ekki að vita um hana. Hún er þó ekki án skoðana, eins og kemur í ljós í Istanbúlferðinni í bókarlok. Hún gagnrýnir jafnvel elskhuga sinn, en hann veit þá ævinlega upp á sig skömmina og að hún hefur rétt fyrir sér. Músunni verður að halda góðri til innblásturs, leyfa henni að taka af skarið í hversdagslegum vandamálum þegar á þarf að halda, eins og kostuleg frásögn af týndum töskum vitnar um – og auðvitað heitir flugfélagið sem týndi töskunum Pegasus. Getur flugfélag með öðru nafni en hins vængjaða skáldfáks grískrar goðafræði flutt höfund Heklugjár á slóðir söguhetju sinnar, Sigurðar Jórsalafara.

Tilviljanir og tengingar eru aðall þessarar sögu, jafnvel í svo hversdagslegum aðstæðum sem týndar töskur eftir flugferð eru, og setur frásögnina um dvöl Heklu og Ófeigs í hinni sögufrægu borg í hversdagslegt samhengi í tímanum. Í gegnum töskudramað gefst aukinheldur tækifæri, það eina að ég held, til að tefla Heklu fram sem virkri persónu því „endaþótt hún [sé] lágmælt og fíngerð þá [er] hlustað“ á hana (352) og töskurnar fást afhentar.

Hekla er reyndar, eins og áður sagði, ekki eina konan með „eldrautt hár og sægræn augu“ (14; 394) í sagnabálki Ófeigs Sigurðssonar, Heklugjá. Það má jafnvel halda því fram að þær fáu konur sem nefndar eru með nafni séu að meirihluta til rauðhærðar og græneygðar, eða með sjakalaaugu eins og Anna Kirjalaxdóttir, keisara Býzansríkis. Kannski eru sjakalaaugu græn, því Hekla horfir jú einhverju sinni sjakalaaugum á skáld sitt.

Ekki aðeins eru konur fátíðar á síðum skáldsögunnar Heklugjár, þær eru líka mun dauflegri persónur en karlarnir. Sú eina sem fær að stíga fram í krafti hæfileika sinna er Anna Kirjalaxdóttir og Sigurður Jórsalafari sogast ekki aðeins inn í sjakalaaugu hennar heldur hlustar á hana og grætur undir visku hennar (337). Anna er velmenntuð og er að skrifa bók um föður sinn, og lætur sögumaður Heklugjár henni farast orð um það verkefni sem gætu eins verið hans um sína bók:

… veröldin stendur svo völtum fótum, við verðum að vakna og líta í kringum okkur, ég er að reyna að fanga tíðarandann með sögulegu og sjálfsævisögulegu ívafi eða láta anda tíðarinnar endurspegla allar tíðir því tíminn er ein kúla … (337)

Í viðtali um skáldsöguna Öræfi við Kvennablaðið árið 2015 sagðist Ófeigur m.a. „alltaf öðrum þræði [vera] að reyna að skrifa sjálfsævisögu tilfinningalífsins.“ [1] Nákvæmlega þessi orð leggur hann Önnu Kirjalaxdóttur í munn í Heklugjá, sem segir að með því að skrifa kviðu um föður sinn sé hún „að skrifa um sjálfa [s]ig, hvert rit [sé] sjálfsævisaga tilfinningalífsins.“ (339) Spyrja má hvort hér á lokametrum skáldsögunnar Heklugjár renni höfundurinn Ófeigur Sigurðsson saman við Önnu. Sú spurning er svo aftur hluti af annarri og stærri spurningu um samruna höfundar við skáldverk sitt.

Sambræðingur, stef og speglanir

Líkt og sagt hefur verið um Öræfi Ófeigs er Heklugjá tilraun með skáldsagnaformið og í Heklugjá er jafnvel gengið enn lengra. Hér er skáldsagan ekki aðeins skúlptúr – samanber áðurívitnað samtal höfundarins við myndlistarmann í upphafi sögunnar – sem þá fyrst kemur í ljós „þegar búið er að afmá árþúsundir af uppsafnaðri þekkingu […] henni hefur verið fórnað og fleygt útum gluggann“ (63), heldur einnig tjáning höfundarins um tilurð sögunnar, eða kannski frekar tilraun til að skilja skáldsöguna á sínum hefðbundnu formum. Hér er form sögulegu skáldsögunnar brætt saman við sjálfsævisöguna og endurminningar, og það ekki bara einnar persónu heldur fjölmargra, sem jafnvel sumar renna saman.

Sjálfur hefur Ófeigur sagst hafa haft þætti íslenskra fornsagna að fyrirmynd við skrif Heklugjár. Ég þekki of lítið til þáttanna til að meta það. En Ófeigur hefur líka í viðtali sagst vilja „endurnýja skáldsagnaformið“ eftir mögulega smánun þess í póstmódernismanum. [2] Á þeim velli þekki ég nokkuð til og þykir ekki sem honum takist það. Vitund skáldsögunnar Heklugjár um sjálfa sig og nærvera höfundarins í sköpun hennar, að ógleymdum speglunum frásagnarefnisins í formi frásagnarinnar, gerir hana í mínum huga póstmóderníska í hæsta máta. Þessi orð eru ekki hugsuð sem last. Þvert á móti er þetta grunnurinn sem sagan byggir á og einmitt það sem gerir hana spennandi aflestrar.

Í fyrri skáldsögum Ófeigs hefur áhugi höfundar á túlkun frásagna í gegnum mörg lög, sem og áhugi hans á táknum og speglunum, verið áberandi þáttur og jafnvel uppistaða inntaksins samanber meginsöguna í Öræfum, sem austurrískur táknmálsfræðingur segir dýralækni og hann skráir eftir túlki. Í Heklugjá eru þekktar frásagnir úr fornum ritum, stofnritum sögu okkar Íslendinga og heimsins, endursagðar, túlkaðar og að einhverju leyti speglaðar í samtímanum.

Táknin í Heklugjá eru og fjölmörg og klifun oft beitt svo að úr verða stef. Þannig kemur oft fyrir hin þekkta mynd úr þjóðsögunni um Sæmund fróða, þegar hann yfirgefur Svartaskóla og leikur á kölska, sem ætlar að stöðva hann, með því að hafa kápu sína lausa á öxlum svo kölski stendur eftir með kápuna eina. Einnig eru orðin yfir inngangi skólans um að inn megi ganga en glötuð sé sálin eins konar stef í Heklugjá sem kveðið er með ólíkum orðum við ólíklegustu aðstæður. Talan sjö er heilög, öskjur Dunganons eru sjö, borgin Istanbul er byggð á sjö hæðum og skötuhjúin Ófeigur og Hekla búa þar á sjöundu hæð. Tákn umbreytast líka, samanber sólkrossinn sem verður að hakakrossi á e-pillu sem boðin er á kjallarabúllunni Dúfunni og leiðir frásögnina til Adolfs og starfs Dunganons við að segja Færeyingum fréttir í þýsku útvarpi um framgöngu og dýrð nasista. Aðalstef sögunnar er hins vegar óyggjandi ferðalag höfundar og hunds yfir Skólavörðuholtið til fundar við Dunganon í Þjóðskjalasafninu sumar, vetur, vor og haust. Það er nefnilega mikið verk að kynnast annarri manneskju, sem raunar er einnig mikilvægt og gegnumgangandi stef.

Það er líka mikið verk að ná utan um skáldsögu eins og Heklugjá og hér hefur aðeins gefist tóm til að tæpa á nokkrum þeirra atriða sem vert væri að staldra við. Þannig væri hlutverk hundsins, Kols, sem og tíminn verðugt rannsóknarefni í þessari sögu. Tíminn er jú kúla eins og þegar hefur verið minnst á en tíminn stendur líka í stað í sögunni sem eilíf endurtekning þess sama, samanber lokaorð bókarinnar þegar höfundur hugsar „um stjörnubjartan himininn yfir Dauðahafinu undir Hallgrímskirkjuturni á leið [s]inni til fundar við Dunganon greifa á lestrarsal Þjóðskjalasafns Íslands.“ (414) Þá hafa skáldin, sem fylgja hetjunum í ferðum þeirra, líkt og Skvaldri og Kolur og jafnvel Ófeigur sjálfur, legið óbætt hjá garði í þessari umfjöllun.

Lokaorð

Heklugjá er stórskemmtileg skáldsaga á köflum en hún nær ekki, þrátt fyrir talsverða lengd og vítt yfirgrip yfir sögur og skáldskap í heiminum, að miðla nauðsynlegum safnglerjum, sem gætu nota bene verið mörg, til nægilega áhugaverðra niðurstaða og tenginga við lesandann hér og nú.

Persónur eru margar en persónusköpun er ekki nógu góð. Persónurnar ná ekki að vekja lesandanum, að minnsta kosti ekki þeim sem þetta ritar, tilhlýðilegan áhuga nema helst Hekla. Hún skreppur þó alltaf undan, engu líkara en höfundur vilji ekki gefa okkur lesendum hlutdeild í henni, vilji halda henni fyrir sig. Kannski er Hekla einfaldlega náttúruafl, eldfjallið sem er undirrót og uppspretta alls sem hugsað hefur verið, skáldað og komist að niðurstöðu um hér í heimi og samt er hún músa skáldsins. Það hefði verið spennandi að kafa dýpra ofan í samhengið nútímakona og jafnframt músa listamanns en hér er gefið tækifæri til.

Þrátt fyrir ákveðna annmarka býð ég spennt eftir frekari tilraunum Ófeigs Sigurðssonar um skáldsöguna en á því sviði stendur hann nokkuð einn í íslenskum samtímabókmenntum – þó ekki alveg einn.

 

Jórunn Sigurðardóttir

Tilvísanir

  1. https://kvennabladid.is/2015/04/15/i-flaumitaknanna/. Sótt í ágúst 2019.
  2. RÚV, Víðsjá, 4. desember 2018: www.ruv.is/frett/heklugja-ofeigur-sigurdsson