Í gærkvöldi var frumsýndur miðleikur þríleiks Mariusar von Mayenburg á stóra sviði Þjóðleikhússins: Ex. Aðstandendur eru hinir sömu, þýðandi Bjarni Jónsson, leikstjóri Benedict Andrews og leikið er á sama sviði Ninu Wetzel en því þó líka breytt á ýmsa vegu. Björn Bergsteinn Guðmundsson stýrir vandaðri lýsingu og einstaklega viðeigandi áhrifstónlistin er eftir Gísla Galdur Þorgeirsson.
Í byrjun verksins erum við stödd á kunnuglegum tímapunkti í tilveru vel stæðrar borgaralegrar fjölskyldu: börnin eru komin í háttinn en kannski ekki sofnuð, læknirinn Sylvía (Nína Dögg Filippusdóttir) og arkitektinn Daníel (Gísli Örn Garðarsson) eru þreytt eftir langan vinnudag. Einkum er Sylvía hátt uppi. Hún hafði lent í uppákomu með krökkunum á leiðinni heim og brotið sykurbannið í ráðaleysi – uppeldisreglurnar eru fljótar að gefa sig við minnsta áreiti. Daníel hefur ekki náð að borða með fjölskyldunni og þarf nú að hita upp leifar af kvöldmatnum. Þó að fólkið sé frítt og yfirborðsmyndin fögur liggur pirringur í loftinu. Sylvía virðist ekki geta stillt sig um að ögra manni sínum, snúa út úr orðum hans, gera allt til að hleypa honum upp. Hann verst fimlega en gremjan færist í aukana þegar fyrri sambýliskona hans hringir og biðst gistingar um nóttina. Svo birtist hún, Fransiska (Kristín Þóra Haraldsdóttir), afgreiðslustúlka í dýrabúð, og þessa nótt takast þau þrjú á, ýmist öll eða tvö og tvö, með mögnuðum einræðum í bland, um fortíðina, ást og ástleysi, kynlíf, framtíðarvæntingar, menntun og menntunarskort, börn og barnleysi. Átökin harðna og hjaðna á víxl á þeim tæpu tveim klukkustundum sem leikurinn stendur, hlélaust, samtölin eru beitt og oft nístandi fyndin og áhorfendur sitja sem lamaðir eftir.
Eins og í Ellen B. nýtir leikstjóri sér allt leikhúsið og voru mörg atriði utan sviðs markviss og snjöll. En hann notaði sér fremstu sætaröðina of oft og stundum án sérstaks tilgangs, það varð leiðigjarnt enda missir þá stór hluti salargesta af því sem fram fer. Áhrifamestu atriðin gerðust raunar öll á sviðinu sjálfu og væri þar af kappnógu að taka ef mér fyndist ráðlegt að segja nánar frá atburðarásinni.
Í Ellen B. sýndi von Mayenburg okkur sífellt nýjar hliðar á persónum leiksins þannig að við þurftum að íhuga álit okkar og jafnvel breyta því. Hér notar hann aðra aðferð. Daníel, Sylvía og Fransiska breyta ekki um karakter eða sýna okkur nýjar óvæntar hliðar heldur liggur öll vinna leikskáldsins í að dýpka persónurnar, fara æ lengra inn í persónuleika þeirra þangað til þær standa naktar fyrir framan okkur. Sumar í bókstaflegum skilningi. Það er andskoti vel gert hjá honum og ekkert skorti á að leikararnir uppfylltu allar hans kröfur.
Kristín Þóra smellpassar í hlutverk Fransisku og gerði lifandi og áráttukennda ástarsorg hennar bæði hjartnæma og aumkunarverða. Áhorfendur tóku svo einlægan þátt í einræðu hennar um samanburð á elskhugum að það var beinlínis klappað eftir hana eins og á djasstónleikum. Verr tókst til seinna þegar reynt var að klappa fyrir einræðu Daníels; henni var ekki lokið!
Gísli Örn sýnir undireins að Daníel er ekki eins sjálfsöruggur maður og við gætum búist við, hvorki sem eiginmaður, faðir né arkitekt, og ástæða þess kemur smám saman í ljós. Sjálfur var hann hins vegar fullkomlega öruggur í tökum sínum á hlutverkinu og stórkostlegur á hápunkti verksins. Stjarna kvöldsins er þó Nína Dögg í hlutverki deildarlæknisins Sylvíu. Hún túlkar af ísmeygilegu öryggi konu sem hefur „fórnað“ starfsframa fyrir fjölskyldu og iðrast þess. Hvað bíður hennar í lífinu héðan í frá? En hún getur þó alltént leikið sér að Fransisku eins og köttur að mús meðan færi gefst.
Þýðingin ber með sér að Marius von Mayenburg notar stéttskipt tungutak á þýskunni. Þetta fólk er ekki jafn fágað í tali og skólastjórinn og kennarinn í Ellen B. Einkum á það við Fransisku. Bjarna Jónssyni er vandi á höndum því að við erum vön bókmáli í þýddum verkum í leikhúsi en mér fannst honum yfirleitt takast vel að rata rétta leið.
Ex er sannkallað stórdrama og ég er ekki í vafa um að leikhúsunnendur munu flykkjast á sýninguna.