Leikhópurinn CGFC og tónlistarmaðurinn Halldór Eldjárn frumsýndu í gærkvöldi verkið Umbúðalaust – Kartöflur í sal á þriðju hæð Borgarleikhússins. Ég hef ekki grænan grun um fyrir hvað stafirnir CGFC standa en meðlimirnir eru fjórir, Arnar Geir Gústafsson, Birnir Jón Sigurðsson, Hallveig Kristín Eiríksdóttir og Ýr Jóhannsdóttir.
Verkefnið sem þau settu sér fyrir í þessari sýningu var að lyfta gleymdri hvunndagshetju og komast að því hvað hefði orðið um beikonbugðusnakkið úr Þykkvabænum sem þau voru gráðug í sem unglingar. Hvunndagshetjan hét Helga Gísladóttir. Hún bjó ásamt manni sínum í Unnarholtskoti í Hrunamannahreppi og þau lifðu á prjónlesi og því sem rýr jörð þeirra gaf af sér. Helga ræktaði m.a. kartöflur og varð fyrir því óvænta happi einn góðan veðurdag að finna stökkbreytt eintak í garðinum sínum: kartöflu sem var ólík öllum öðrum kartöflum á Íslandi. Hún ræktaði það áfram og dóttir hennar skírði afbrigðið Helgu, nema hvað. Þessa sögu sögðu fimmmenningarnir á nokkuð hefðbundinn hátt, með beinni frásögn sem var fleyguð leiknum atriðum; Hallveig sagði frá og lék dótturina en þau Ýr og Birnir Jón léku hjónin í kotinu.
Sérstakur þáttur var um baráttuna fyrir því að leiðrétta föðurnafn Helgu og bæjarnafn á heimasíðu Garðheima þar sem hún var sögð Filippusdóttir. Í sýningunni voru leikin nokkur símtöl leikaranna við starfsmenn Garðheima sem urðu æ fyndnari. Þar vantaði bara að varnaðarorðunum sígildu væri snúið við og leikararnir segðu við símastúlkurnar: Athugið að þetta samtal kann að verða hljóðritað. En þær tóku þessari óvæntu beiðni mjög kurteislega – þótt ekkert væri auðvitað gert með hana.
Ég get bætt því við frá eigin brjósti að bóndi minn segir mér að Helga hafi verið ræktuð heima hjá honum í æsku, í Gýgjarhólskoti í Biskupstungum, og þar hafi því verið trúað að Helga væri best allra kartaflna. Ég get ekki sagt að ég þekki bragðmun á henni og öðrum kartöflum, en hún er falleg, með sinni rauðu nelliku í sárið, og mér finnast allar kartöflur góðar.
Rannsóknin á örlögum beikonbugðanna var nokkuð flóknara verkefni. Þar beittu þau rannsóknum í síma, vettvangsferðum og leikinni og lesinni smásögu, meðal annars með brúðuleikhústækni (brúðurnar voru að sjálfsögðu kartöflur), áhorfendum til mikillar skemmtunar. Þetta er ferskur og frumlegur hópur og það gleður mig að sjá á heimasíðu Borgarleikhúss að hann fær að koma aftur á svið þar í vetur.