Það leit ekkert sérstaklega vel út fyrirfram með sýningu á Hróa hetti hjá Leikhópnum Lottu í gær. Hópurinn sýnir í Elliðaárdalnum, sem kunnugt er, og utan dyra. En stór hópur bjartsýnna foreldra og barna kom samt og allt fór vel, eins og ævintýrið á sviðinu. Undir sýningarlok fór að vísu að rigna pínulítið en hvorki leikendur né áhorfendur brugðu sér hið minnsta. Enda stytti strax upp aftur.
Þessi hópur er orðinn vel þekktur fyrir einstaklega frumlega meðhöndlun á gömlum sögum og ævintýrum. Í þetta sinn blanda þau saman á sprenghlægilegan hátt sögunum af útlaganum Hróa hetti (Stefán Benedikt Vilhelmsson) og ævintýrinu um Þyrnirós (Rósa Ásgeirsdóttir). Tengiliðurinn milli þessara ólíklegu samtímamanna er vinkona þeirra beggja, alþýðustúlkan Þöll (Anna Bergljót Thorarensen). Þyrnirós er í þessari útgáfu dóttir Ríkharðs konungs ljónshjarta (Stefán Benedikt lék hann líka) en bróðir hans, Jóhann prins (Sigsteinn Sigurbergsson), vill ólmur koma þeim feðginum fyrir kattarnef og setjast sjálfur í hásætið. Jóhann veit að það þarf ekki mikið til: bara láta prinsessuna stinga sig á snældu, þá sefur hún í hundrað ár og pabbi hennar líka! Ekki er hlaupið að því að útvega snældu en Jóhann fær dygga aðstoð frá fógetanum (Andrea Ösp Karlsdóttir) sem er leynilega ástfanginn af óþverranum Jóhanni. Inn í söguna blandast líka móðir Hróa (Rósa leikur hana líka) og Tommi litli bróðir hans sem er skínandi vel leikinn af brúðu. Björn Thorarensen kemur svo að einkar góðu gagni sem tónlistarmaðurinn Tóki munkur því mikið er um músík í sýningunni.
Aðal Leikhópsins Lottu er vel samin samtöl og haglega gerðir og bráðfyndnir söngtextar sem Anna Bergljót og Sævar Sigurgeirsson eiga heiðurinn af. Lögin eru líka skemmtileg, þau eru eftir meðlimi hópsins og Þórð Gunnar Þorvaldsson auk þess sem persónur flétta línur úr vinsælum dægurlögum inn í textann þar sem það hentar. Þó að leikritið henti prýðilega fyrir börn frá þriggja ára aldri er þar furðumargt sem fullorðnir flissa að og hópurinn sneiðir algerlega hjá öllum vandræðagangi sem stundum vill loða við barnasýningar. Þau skemmta sér sjálf alveg konunglega og það skilar sér til áhorfenda á öllum aldri. Leikstjóri Hróa hattar er Vignir Rafn Valþórsson og fjölskrúðugir búningar eru eftir Kristínu R. Berman.