Ein af kærkomnu nýju barnasýningunum í höfuðborginni er á splunkunýju íslensku verki, Skúmaskoti eftir Sölku Guðmundsdóttur, sem sýnt er á litla sviði Borgarleikhússins. Leikstjóri er Gréta Kristín Ómarsdóttir sem átti hina eftirminnilegu sýningu Stertabendu í Þjóðleikhúsinu í hittifyrra.
Í Skúmaskoti eru systurnar Rúna (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) og Vala (Vala Kristín Eiríksdóttir) með vinsælt snapp saman þar sem þær búa til litrík ævintýri úr hvunndeginum. Þær hafa skemmt sér gríðarlega vel yfir þessu spennandi leikfangi en núna er Vala orðin of mikill unglingur til að njóta ævintýranna. Daginn sem við hittum þær hefur Vala tapað veðmáli og neyðst til að fara í beljubúning og þannig búin fer hún með Rúnu í heimsókn í búðina til Geirs (Halldór Gylfason) sem ekkert selur annað en lífrænar baunir. Þar á hún að baula á hann, veðmálsins vegna, og það hefur óvæntar afleiðingar. Eftir þá slysalegu heimsókn segist Vala hætt þessum barnalega leik! Þær systur rífast heiftarlega og endar deilan á fullkomnum vinslitum.
Í reiði og örvæntingu finnur Rúna leið ofan í iður jarðar þar sem fyrir henni verður býsna einkennileg kona, Kristveig Kristel (Maríanna Clara Lúthersdóttir) sem verður stelpunni fegin og ræður hana umsvifalaust í flókin og viðamikil verkefni þar í neðra. Fyrsta verkið er að smala saman öllum dýrunum í undirgöngum undirheima í einn hjólakassa. Við það verk rekst stelpan á húsvörðinn í undirheimum (Halldór Gylfason) sem reynist standa á bak við verkefnin. Og smám saman áttar Rúna sig á því að þrátt fyrir meinleysislegt yfirborð hefur hann geigvænlegar áætlanir á prjónunum. Við lausn þeirra alvarlegu mála – sem felur meðal annars í sér að bjarga undirheimum frá því að lokast endanlega og loka þar inni þá sem ekki komast út – áttar Rúna sig á því að maður á ekki að vera ósáttur við sína nánustu.
Söguþráðurinn er nokkuð snúinn enda er leikritið langt – þetta er tveggja tíma sýning með hléi – og plottið lýkst ekki upp fyrir áhorfendum fyrr en seint. En á leiðinni er mikið fjör og kátína. Evu Signýju Berger er stór vandi á höndum við gerð sviðsmyndar því leikritið gerist á þrem hæðum: uppi á jörðinni, í undirheimum I, ef svo má segja, og í sjálfu Skúmaskotinu í undirheimum II. Litla sviðið er svo vel útbúið að þar er einfalt að sýna okkur tvær hæðir, gólfhleri gefur í skyn þá þriðju og sennilega láta ungir leikhúsgestir það ekkert trufla sig að lyftan sem flytur persónurnar milli hæða hreyfist í rauninni ekki úr stað. En eiginlega fannst mér baksviðið virka langbest við að gera undirheima myrka, dularfulla og hættulega. Þegar persónurnar voru þar að þvælast og við sáum þær í skuggamynd skjótast eftir göngunum – sem sum voru merkt „Hætta, Voði, Vá!“ var auðvelt að hrífast með. Lýsingin skiptir hér máli og Juliette Louste sá um að hún virkaði eins og skyldi. Stundum tók ég eftir að börn sem höfðu setið í þrem sætum voru komin saman í eitt eftir spennandi atriði!
Þórunn Arna leikur á als oddi í hlutverki Rúnu og er svo makalaust krakkaleg að auðvelt er að sjá í henni þá tíu ára stúlku sem hún á að vera. Vala Kristín gnæfir yfir hana sem sannfærandi stóra systir og báðar voru þær skemmtilegar og skemmtu sér vel í hlutverkum sínum. Maríanna Clara gerði skrýtnu konunni Kristveigu, sem ævinlega heldur að allt sé eins og það sýnist vera, skínandi góð skil. Halldór Gylfason tók ekki mikið á í hlutverki Geirs baunasala en sem Gauti húsvörður í undirheimum var hann alveg frábær, gervið á honum rosalega vel heppnað og allir taktar og tónar sannfærandi. Það er Elín S. Gísladóttir sem sér um leikgervi í sýningunni.
Já, hér er sprell og fjör á ferðum og þó er freistandi að halda því fram að Skúmaskot sé stúdía á þunglyndi. Og það er snjöll mynd af sálrænu ástandi að fólk hverfi ofan í undirheima þegar það fer í alvarlega fýlu. Ljóst verður af sögu Geirs og Gauta að því lengur sem maður dvelur í undirheimum því alvarlegra verður þunglyndið. Hinn holli boðskapur verksins er að leyfa ekki þungu sinni að yfirtaka hugann til lengdar – annars geti maður lokast endanlega inni.
PS. Eitt að lokum: Orðið kýr er fallegt orð en fjandanum erfiðara í beygingu. Það beygist svona í eintölu: hér er kýr, um kú, frá kú, til kýr. Kýrin er í fjósinu en maður mjólkar kú og maður bindur kú … Endilega ekki freistast til að skipta kúnni út fyrir belju þó að beljan sé auðveldari í beygingu, það er einhvern veginn svo óvirðulegt heiti yfir þetta mikla og ómissandi dýr.
Silja Aðalsteinsdóttir