Rithöfundar eru öfundsverðir, sérstaklega skáldsagnahöfundar. Þeir geta búið til nýjan veruleika og haft hann algerlega eins og þeim sýnist, látið hvað sem er gerast og notið þess. Þetta nýtti rússneska sagnaskáldið Mikhaíl Búlgakov sér rækilega í Meistaranum og Margarítu, en leikgerð Niklas Rådström af þeirri sögu var frumsýnd á stóra sviði Þjóðleikhússins í gærkvöldi undir stjórn Hilmars Jónssonar og í þýðingu hans. Bókin kom fyrst út á rússnesku 1966–7, ritskoðuð, aldarfjórðungi eftir að höfundurinn lést, en á íslensku kom hún út fyrst 1981 í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur og hefur verið endurútgefin tvisvar.
Búlgakov var í þröngri stöðu í heimalandi sínu alla sína starfsævi og hann var ekki einn um það undir Stalín. Hann var ofsóttur, ritskoðaður og hrekktur af yfirvöldum og lítið við því að gera í veruleika Sovétríkjanna á fjórða áratugnum. En í skáldsögu er allt hægt; þar er meira að segja hægt að láta sjálfan Djöfulinn bjarga manni út af geðveikrahæli!
Í Meistaranum og Margarítu gerir Djöfullinn einmitt það. Hann kemur til Moskvu einn góðan veðurdag í líki snyrtilegs útlends herramanns, kallar sig Woland (Sigurður Sigurjónsson) og undirbýr ásamt helstu hjálparkokkum sínum, Korovév kórstjóra (Ebba Katrín Finnsdóttir), vampýrustelpunni Hellu (María Thelma Smáradóttir) og kettinum Behemot (Oddur Júlíusson), árlegan dansleik sinn. Þegar hann er nýkominn til borgarinnar heyrir hann á tal tveggja bókmenntamanna, Berlioz, forseta Rithöfundasambandsins (Björn Ingi Hilmarsson), og skáldsins Ívans Bésdomní (Bjarni Snæbjörnsson) um trúmál. Woland verður spenntur þegar hann heyrir að þeir efast um að Jesús frá Nasaret hafi verið til en hlýtur að andmæla þeim því hann var nefnilega viðstaddur þegar Pontíus Pílatus dæmdi hann til krossfestingar. Bókmenntamennirnir líta á hann sem ruglaðan furðufugl þangað til hann sannar fyrir þeim að hann veit miklu lengra nefi sínu, en þá er annar þeirra raunar dauður og hinn á hraðferð inn á geðveikraspítala!
Þessi upphafssena var heillandi í vel sköpuðu umhverfi Patríarkatjarnanna, samtal tvímenninganna og síðar þremenninganna fjörlegt, innlifað og Sigurður djöfullega kurteis, kaldur og klár í sínu spámannlega gervi. Í framhaldinu ryður Woland sér til rúms í borginni; það er húsnæðisekla en enginn vandi fyrir hann að senda fólk hundruð kílómetra í burtu með handarsveiflu og leggja undir sig húsakynni þess. Um leið flettir hann ofan af mútuþægni, heigulskap og vinavæðingu af ýmsu tagi meðal forréttindapakksins þannig að við sjáum að það er alveg ástæðulaust að vorkenna þeim sem Woland stríðir og hrekkir, þeir eiga það allt skilið og þótt meira væri.
Milli þess sem við fylgjumst með framgangi Wolands fáum við annars vegar svipmyndir af geðveikrahælinu þar sem Ívan kynnist Meistaranum (Stefán Hallur Stefánsson), öðrum innilokuðum rithöfundi, og hins vegar af samskiptum Pontíusar Pílatusar (Pálmi Gestsson) og flökkuprédikarans Jesúa Ha-Notsri (Stefán Hallur) í Jerúsalem fyrir nærri tvö þúsund árum. Meistarinn hafði verið fluttur svo skyndilega á hælið að hann náði ekki að kveðja unnustu sína, Margarítu (Birgitta Birgisdóttir), sem veit ekkert hvar hann er og óttast mjög um hann – enda lifir öll alþýða manna í Moskvu í samfélagi óttans. Hún fær um annað að hugsa þegar Woland gerir hana að gestgjafa og drottningu árshátíðar sinnar og í launaskyni fær hún þá ósk sína uppfyllta að sameinast ástvini sínum á nýjan leik.
Hér er sem sagt öllu snúið á haus. Hið illa reynist gott en „góða fólkið“ er ómerkilegt, svikult og sjálfselskt. Alger snilld! Verstir af öllum eru gagnrýnendur sem hika ekki við að drepa listaverk, meira að segja var skáldsaga Meistarans um samskipti Pílatusar og Jesúa rökkuð niður, hædd og svívirt áður en hún kom út! En þeim gagnrýnanda hefnist líka rækilega fyrir þegar Margaríta fær að fara frjáls um borgina, mökuð kremi frá Woland sem gerir hana ósýnilega. Ég sagði það: Það er ALLT hægt í skáldsögu. Þetta atriði er þó erfitt í framkvæmd á sviði og tókst ekki sem best í gærkvöldi, enda alltof langt án þess að við fáum að sjá neitt af þeim hryðjuverkum sem Margaríta fremur.
Raunar var það svo að töfrarnir vildu dálítið fara af sýningunni þegar á leið. Hún varð langdregin eftir hlé og missti satt að segja fókusinn undir lokin. En þá hafði líka oft verið svakalega gaman. Átök Wolands og fylgdarliðs hans við fína fólkið í Moskvu voru oft snörp og fyndin, senan í fjölleikahúsinu þar sem Woland og fylgihnettir hans fremja töfrabrögð sín var skemmtilega galin og þar átti Kynnirinn (Hildur Vala Baldursdóttir) stóran þátt. Björn Ingi og Bjarni voru frábærir menningarvitar í upphafssenunni og Bjarni alveg hrikalega fyndinn þegar hann segir pollrólegum geðlækninum (Þröstur Leó Gunnarsson) sína dagsönnu en fáránlega ósennilegu sögu af dauða félaga síns. Pálmi var sannfærandi sem Pílatus, þjáður af samviskubiti vegna heigulskapar síns, Þröstur Leó var útsmoginn Kaífas og Stefán Hallur var áhrifamikill Jesúa. Það varð aftur á móti mun minna úr ástarsögu Meistarans og Margarítu en efni stóðu til en eitthvað verður kannski undan að láta í einni leiksýningu. Ekki varð djöfladansleikurinn heldur sá hápunktur sem eflaust var stefnt að. En Sigurður Sigurjónsson stóð vaktina sína sem Woland með prýði frá upphafi til enda.
Leikmynd Sigríðar Sunnu Reynisdóttur gaf mynd af fremur drungalegri borg, hún var viðamikil, nýtti sviðsrýmið vel og skipti ágætlega milli ólíkra sviða sögunnar. Lýsing Halldórs Arnar Óskarssonar var líka fremur dimm – enda er fólk sífellt að hverfa á sviðinu og það tókst alveg prýðilega þaðan sem ég sat. Hljóðmyndin var sömuleiðis nokkuð myrk, þungir tónar, talsvert um þrumur og önnur veðurhljóð. Tónlistin er eftir Valgeir Sigurðsson en hann fékk aðstoð við hljóðmyndina frá Aroni Erni Arnarssyni og Kristni Gauta Einarssyni. Eva Signý Berger sá um búningana sem voru feikna fjölbreyttir. Einkum naut hún þess að klæða Ebbu Katrínu í hlutverki Korovévs kórstjóra sem kom fram í hverju listaverkinu af öðru.
Þessi sýning virtist ekki vera tilbúin alveg á enda í gærkvöldi en ég spái því að hún eigi eftir að þéttast og þroskast vel. Efnið er gott og á alls ekki illa við í íslensku samfélagi samtímans.