Fyrir nokkru vantaði mig samheiti yfir „ringulreið“ og leitaði í Snöru, orðabókinni á netinu. Meðal margra tillagna þar sá ég orðið „stertabenda“ sem mér fannst sniðugt en einum of einkennilegt til að nota í venjulegum texta. Það er dregið af því þegar stertar hesta lenda í bendu svo þeir festast saman. („Á miðri götunni voru ein fimtíu lestahross í stertabendu og komust hvorki strönd né lönd,“ segir Halldór Laxness í Brekkukotsannál.) Örfáum dögum síðar sá ég þetta orð í frétt um nýja leiksýningu í Þjóðleikhúsinu. Sýningin hét beinlínis Stertabenda og það heitir hún enn og við sáum hana í Kúlunni í gær.
Verkið og sýningin bera þetta heiti með rentu. Leikrit Mariusar von Mayenburg er dýrlegt sambland af fantasíu og fáránleika og sýningin gerir sitt besta til að koma því samblandi til skila þrátt fyrir lítið svið og lítil efni. Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri þýddi leikritið og lagaði það að hópnum sínum og textinn er þéttur, fjörugur og fyndinn. Leikritið Sá ljóti eftir von Mayenburg, sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu fyrir fáeinum árum, er mér ennþá ferskt í minni fyrir hvað það var skemmtilegt og raunar merkilegt verk.
Persónur Stertabendu ganga undir nöfnum leikaranna enda eru þær ekki sérstakar persónur í verkinu heldur skipta um eðli og hlutverk eftir hendinni. Við hittum þær fyrst í tiltölulega venjulegum aðstæðum. Tinna (Sverrisdóttir) og Þorleifur (Einarsson) eru að koma heim úr fríi seint um kvöld. Heima er ekki allt eins og á að vera, í fyrsta lagi er rafmagnslaust og Tinna æsir sig við Þorleif yfir því að hann hafi svikist um að borga reikninginn. Einnig finnur Tinna skrítna plöntu í eldhúsinu sem ekki á að vera þar. Enn meira hissa verða þau þegar parið sem átti bara að vökva blómin meðan þau voru í burtu reynist vera búið að hreiðra um sig í íbúðinni – og það sem meira er: Bjarni (Snæbjörnsson) og Maja (María Heba Þorkelsdóttir) eru ekkert á förum. Þegar Tinna og Þorleifur sætta sig við þetta og fara bara sjálf með ferðatöskurnar út í nóttina þá er orðið ljóst að hér má búast við hverju sem er!
Framhaldinu er erfitt að lýsa, og raunar ástæðulaust að rekja söguþráðinn af því að gildi verksins felst einkum í því að persónur og atburðarás koma áhorfendum sífellt á óvart. Leikarar skipta um persónur, stundum inni í miðjum atriðum, og leiksviðið fær líka ný og ný hlutverk. Verkið er þannig ein endalaus stertabenda atriða. Þó er verið að tala um hin hversdagslegustu efni en stundum á afar spaklegan hátt. Hér er líka sungið og dansað af mikilli fimi og gleði við undirleik hljómsveitarinnar Evu sem tekur þátt í allri sýningunni með leikurunum. Hana skipa sem kunnugt er þær Sigríður Eir Zophoníasardóttir og Jóhanna Vala Höskuldsdóttir.
Þetta var dillandi skemmtileg sýning, bráðfyndinn fáránleiki sem minnti mig oft á sýningar á leikritum Magnúsar Pálssonar myndlistarmanns í gamla daga. Leikararnir fjórir eru hver öðrum betri og njóta sín vel í fáránlegum aðstæðunum. Bjarni sprangar um nakinn eins og heima hjá sér, María Heba segir jafnmikið með svipbrigðunum og orðunum, Þorleifur er hörkudansari og Tinna eldfjall.
Þetta er alveg meiri háttar!