Steinunn Sigurðardóttir. jójó.

Bjartur, 2011.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2012

1

JójóÍ skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, jójó, beitir hinn herskái krabbameinslæknir Martin Montag geislabyssunni til að ráðast á æxlin í skjólstæðingum sínum. Hann segir æxlin vera „persónulega óvini sína“ og á hverjum morgni herðir hann sig upp „eins og stríðsmaður“ með því að hlaupa um borgina og ná forskoti á daginn, það sé „aðalatriði í útrýmingarstarfinu“. [1]

Martin hefur iðulega betur í viðureign sinni við meinin enda er hann í þessari baráttu „upp á líf og dauða“, segist ekki kunna aðra aðferð (139), líf hans er beinlínis helgað baráttunni við meinin í öðru fólki. Aðferðafræði hans byggist nánar tiltekið á því að aðgreina æxli og sjúkling eins og hægt er: „Ég hugsa um manneskjuna eins og hún var áður en óvinurinn tók sér bólfestu í henni, og ég hugsa mér manneskjuna eins og hún verður þegar ég er búinn að gera út af við æxlið í henni“ (43).

En hvað gerist þegar einn sjúklinganna ber ekki aðeins mein innan í sér heldur er sjálfur æxli, og ekki bara hvaða æxli sem er heldur ófreskja sem hafði lagst á Martin sem lítinn dreng? Nægir í slíku tilfelli að ráðast gegn sjúkdómnum eða verður að ráða niðurlögum sjúklingsins? Á meðan Martin fetar sig smám saman að þeirri niðurstöðu að hann verði að svala hefndarþorstanum og drepa þennan sjúkling, er hafði rænt hann æskunni, þá verða hugsanir um að taka eigið líf, sem lengi höfðu sótt á, æ fyrirferðarmeiri.

Þegar allt stefnir í að annar hvor falli fyrir hendi hins herskáa læknis vaknar sú spurning hvort lausnin felist kannski umfram allt í hans eigin aðferðafræði, að aðgreina æxli og sjúkling, hugsa sér þá manneskju sem bjó með honum áður en óvinurinn tók sér bólfestu í honum og finna hana aftur þegar æxlinu hefur verið eytt. Einn meginþráðurinn í sögu Steinunnar fjallar um þá leit og leiðina út úr sífelldri endurupplifun á trámatísku atvikinu sem olli rofi í æsku.

2

Sögusvið jójó er Berlín en þetta er fyrsta skáldsaga Steinunnar sem að öllu leyti gerist annars staðar en á Íslandi. Söguheimurinn er aftur á móti að mörgu leyti kunnuglegur þar sem miðlæg persóna glímir við flækjur í sálarlífinu og misjafnlega hollum fjölskyldu-, vina- og ástarsamböndum. Það er að sumu leyti vel við hæfi að þessi saga gerist í hinni forðum stríðshrjáðu og sundurskornu borg því að hér er fjallað um vígvelli í margvíslegum skilningi – líkamann sem vígvöll krabbameinsfruma og heilbrigðra fruma, vígvöll sjálfsins, vígvöll minninga og margvíslegra hvata sem persónurnar glíma við í þessari margslungnu sögu.

Um svipað leyti og jójó kom út haustið 2011 sendu bókmenntafræðingarnir Guðni Elísson og Alda Björk Valdimarsdóttir frá sér rit sem innihélt sjö greinar um skáldverk Steinunnar. Titill ritsins er Hef ég verið hér áður? og er fenginn úr ljóði eftir Steinunni en hann skírskotar til þess að gamalkunn stef og minni ganga í gegnum höfundarverk hennar, tíminn, hringrás náttúrunnar, vensl ástar og dauða, árekstur lífs- og dauðahvatar og þráin eftir upprunanum. [2]

Ritið er ákaflega notadrjúgur inngangur að verkum Steinunnar en í því er einnig skoðað hvernig Steinunn vinnur á skapandi hátt með ólíkar bókmenntahefðir eins og tregaljóðið, tilfinningasöguna og ástarsöguna. Enn fremur sýna Guðni og Alda Björk fram á að sálgreining er einn af lyklunum að skáldskap Steinunnar. Í síðustu greininni leiðir Guðni raunar í ljós hvernig Steinunn vinnur á skapandi hátt með sálgreiningu í skáldsögunni Góða elskhuganum (2009) – þeirri næstu á undan jójó – og tekur beinlínis þátt í fræðilegri samræðu um verk sín, sérstaklega þá umfjöllun Öldu Bjarkar sem er (endur)- birt í greinasafninu.

Tengsl bókmennta og sálgreiningar eiga sér langa og áhugaverða sögu og hafa myndað nokkurs konar átakasvæði, eins og Úlfhildur Dagsdóttir bendir á í ritdómi, [3] en slíkt innlegg höfundar í viðtökur verka sinna sem sjá má í Góða elskhuganum er óvenjulegt (þó ekki óþekkt) hér á landi þar sem samræða höfunda við bókmenntafræðin( g)a hefur löngum mótast af viðhorfum sem Guðbergur Bergsson lýsti eitt sinn sem sambandi hins slæga geðsjúklings við geðlækni sinn. Ekki er ætlunin að taka til máls í þessari athyglisverðu samræðu hér, enda þyrfti til þess einhvern fróðari um Freud og hans fylgihnetti en þann sem skrifar þessi orð, en það fer þó varla fram hjá mörgum lesendum að einnig í jójó er sálgreining undirliggjandi straumur.

Jójó er saga um ástir, vináttu, svik, níðingsskap, fjölskyldubönd sem í flestum tilvikum hafa trosnað eða rofnað – og tvífarasaga eins og ráða má af titlinum sem speglar sjálfan sig. Tvífari Martins í sögunni, Martin Martinetti, franskur utangarðsmaður og krabbameinssjúklingur sem Martin Montag einsetur sér að lækna með úthugsaðri hernaðaráætlun, hefur sömuleiðis afneitað foreldrum sínum.

Þeir Martinarnir eiga það einnig sameiginlegt að vera fæddir í sama mánuðinum á sama árinu og vilja ljúka lífinu hið fyrsta. Þegar sagan hefst eru aftur á móti þrjú ár liðin síðan Martinarnir tveir kynntust, Martinetti getur þakkað geislalækninum að meinið er horfið og með þeim hefur tekist mikil vinátta. Martin Montag getur í raun ekki hugsað sér lífið án tvífara síns, segir að ef hann hefði misst hann en ekki bjargað úr klóm æxlisins hefði hann misst sjálfan sig: „Húrrað beina leið á eftir honum“ (137).

Sé horft til langrar hefðar tvífarasagna er samband Martinanna nokkuð óvenjulegt. Líkt og Gunnþórunn Guðmundsdóttir bendir á í ritdómi boðar það iðulega ógæfu og jafnvel dauða að hitta tvífara sinn. [4] Í jójó ber tvífarinn vissulega í sér dauðann en í sameiningu sigrast Martinarnir á honum og ekki bara einu sinni heldur tvisvar því að endingu er það Martin Martinetti sem verður bjargvættur Martins Montag.

Í grein sinni um „Hið óhugnanlega“ sagði Freud tvífarann vekja hræðslu og vera boðbera dauðans en hann vakti einnig athygli á kenningu landa síns og starfsbróður Ottos Rank um þróun þessa minnis en hann sagði að tvífarinn hafi upphaflega – eða á gömlu stigi sálarþroska – verið trygging gegn eyðileggingu sjálfsins, „kraftmikil afneitun á valdi dauðans“ eins og segir í greininni. [5]

Átök lífs- og dauðahvatar tengjast einnig trámatískri reynslu í kenningum Freuds. Martin upplifir líf sitt sem átakasvæði og starfið eins og hernað (nafnið Martin merkir einmitt „hinn herskái“) en Freud benti á það í skrifum um þá sem hafa orðið fyrir taugaáfalli eftir langvarandi dvöl á vígvelli að þeir stundi hernað gegn sjálfum sér – og í þeirri baráttu þarf lífshvötin ekki endilega að vera sterkari en sjálfseyðingarhvötin. Vígvallartrámað klýfur vitundina í tvennt sem veldur átökum á milli „hins gamla og friðsama sjálfs og hins nýja og herskáa sjálfs hermannsins“ og þessi átök verða hættuleg um leið og hið friðsama sjálf áttar sig á því að það á líf sitt undir niðursallandi stríðssjálfinu. [6]

Í jójó eru Martinarnir eins og tveir helmingar af einum og sama manni þar sem báðir þarfnast hins til að verða heilir (líka í skilningnum heilbrigðir). Þetta er undirstrikað í sögunni meðal annars með endurteknum orðum Martins Montag um að hann sé einungis hálfur maður (40 og víðar) og auðvitað í sameiginlegu nafni þeirra og eftirnafninu Martinetti – fornafnið endurtekið með smækkunarendingu – sem gefur til kynna að hér sé kominn sá helmingur Martins Montags sem hann varð viðskila við eftir atvikið í æsku sem hann hefur reynt að gleyma en endurupplifir í sífellu: „Ég er alltaf að koma úr skólanum“ (46 og víðar).

Íslenskir lesendur Steinunnar þekkja leiki hennar með nöfn fólks og hér má benda á að Martin Montag er ekki bara kenndur við þýskan mánudag heldur þýðir „montage“ líka á ýmsum málum heildarmynd sem sett er saman úr mörgum pörtum. Hjá honum er bælingin svo sterk að hann hefur í raun reynt að fjarlægja þann bita myndarinnar af honum sem barnæska hans er, hann hefur hafnað og reynt af fremsta megni að þagga niður í þessu barni sem hann var þegar atvikið átti sér stað. Hann gengur jafnvel svo langt að hafna öllum börnum, fær sig greindan með barnafælni eða sem pedófób hjá geðlækni til að þurfa ekki að vinna á barnadeild í læknisnáminu og segir eiginkonunni að hann muni aldrei geta átt barn.

3

Halda mætti áfram að lesa söguna um Martinana tvo inn í samhengi sálgreiningarinnar. Í henni er til dæmis að finna ýmsar spegilmyndir, samsamanir, skugga, verndaranda og yfirsvífandi sálir sem tengjast tvífaraminninu. En í bókinni er líka sögð önnur saga sem tengist ekki síður sögusviðinu Berlín en þeim söguheimi Steinunnar sem hér hefur verið talað um. Þetta er saga hinnar stríðshrjáðu og klofnu borgar kaldastríðsins og er ekki síst rakin í gegnum kven- og aukapersónur bókarinnar, eins og Fríða Björk Ingvarsdóttir bendir á í ritdómi. [7]

Lesendum skal látið eftir að uppgötva hvernig Steinunni tekst þar að heimfæra þessa áhrifamiklu sögu um viðkvæmt málefni misnotkunar yfir á hið samfélagssögulega svið. Ein af spurningunum sem eftir situr er sú hvort aðferðafræði Martins Montag sé einnig góð og gild í því samhengi að aðskilja beri æxli og sjúkling í von um að finna aftur þá heild sem áður var.

 

Þröstur Helgason

 

Tilvísanir

  1. Steinunn Sigurðardóttir, jójó, Reykjavík: Bjartur, 2011, bls. 41–42. Hér eftir verður vísað til bókarinnar með blaðsíðutali innan sviga fyrir aftan hverja tilvitnun.
  2. Guðni Elísson og Alda Björk Valdimarsdóttir, Hef ég verið hér áður? Skáldskapur Steinunnar Sigurðardóttur, Reykjavík: Bókmennta- og listfræðistofnun, Háskólaútgáfan, 2011.
  3. Úlfhildur Dagsdóttir, „Brúðuheimili“, Tímarit Máls og menningar 2/2010, bls. 129–136, hér bls. 132.
  4. Gunnþórunn Guðmundsdóttir, „Tvífarar, mein og fortíð“, bokmenntir.is, sjá: http://www.bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3409/5648_read-29199/
  5. Sigmund Freud, „Hið óhugnanlega“, Listir og listamenn. Ritgerðir, Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2004, bls. 191–233, hér bls. 212–214.
  6. Sigmund Freud, „Inngangur“, Psychoanalysis and the War Neuroses, London o.v.: The International Psycho-Analytical Press, 1921, bls. 1–4, hér bls. 2–3.
  7. Fríða Björk Ingvarsdóttir, ritdómur fluttur í Víðsjá í Ríkisútvarpinu 25. nóvember 2011, sjá: http://www.ruv.is/frett/bokmenntir/domur-um-jojo