Þeir hafa gert það einu sinni enn. Fyrst tóku þeir Íslandssöguna almennt. Svo tóku þeir „öldina okkar“, þá 21. Og af því að þessar sýningar voru báðar kvenmannslausar bæta þeir úr því núna með því að taka kvenfólkið fyrir sérstaklega í sýningu sem þeir kalla … já, auðvitað: Kvenfólk! „Þeir“ eru að sjálfsögðu dúóið Hundur í óskilum (Eiríkur G. Stephensen og Hjörleifur Hjartarson) og þeir eru komnir að norðan og sýna á Nýja sviði Borgarleikhússins undir styrkri stjórn Ágústu Skúladóttur sem kallar fram hlýlegan blæ á skop og íróníu þeirra félaga.
Þið vissuð það kannski ekki en lengi framan af voru hreinlega engar konur á Íslandi. Hingað komu írskir munkar sem kölluðust „pabbar“ og þeir flýðu hingað undan freku rauðhærðu stelpunum í sveitinni heima til að vera hér í friði og sælu með sínum líkum. Svo gerðu norskir glæpamenn og ribbaldar þeim það til bölvunar að koma á eftir þeim og þeir voru svo smekklausir að koma við í Írlandi á leiðinni og hafa með sér nokkrar rauðhærðar og frekar – og þá var friðurinn úti og sælan líka … En þá fóru sögurnar líka að gerast. Því það fer engum sögum af stað þar sem engar eru konurnar.
Svona byrjaði þetta. Og eins og Íslendingasögurnar gera deginum ljósara þá ganga allar sögurnar út á að sýna afleiðingarnar af því að hleypa konum inn í landið. Íslendingasögur eru beinlínis áróðursbæklingar gegn konum! Hér bættu Hundarnir um betur og settu upp Útvarps-Sögu-umræður úr fornöld þar sem konur voru settar í stað innflytjenda. Það var óhugnanlega sannfærandi.
Smám saman fjölgar konum. Og eftir stuttan útúrdúr í Frakklandi byltingarinnar komum við til Akureyrar þar sem fyrsta íslenska konan kýs í bæjarstjórnarkosningum upp úr miðri 19. öld af því hún veit ekki betur en að orðið „menn“ í kosningalögunum eigi við konur eins og karla. Þá eru skagfirskar konur farnar að blása til samtaka, ekki beinlínis til að normalísera píkuna, eins og Hundarnir halda fram, en eitthvað alveg álíka róttækt á þeim tíma. Svo verða þeir beinlínis hátíðlegir þegar þeir koma að hinum mikla byltingarforingja, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur – Pussy Riot í peysufötum á Íslandi um aldamótin 1900. Það var viðeigandi hvað Hjörleifur var flottur í hlutverkinu og rosalega áhrifamikið að leika „Í augsýn er nú frelsi“ á trompet á undan og á eftir ræðunni. Maður komst við. Í beinu framhaldi af eldræðu Bríetar unnu konurnar stóran sigur í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík – „þegar hún Bríet Bjarnhéðinsdóttir málaði bæinn rauðan!“ Og þeir spyrja hvort konurnar hafi ekki bara tekið þetta á næstu árum og áratugum, helming bæjarstjórnarmanna (eða kannski rúmlega það), helming alþingismanna, opinberra embætta, ráðherrastóla …
Nei. Svoleiðis gerast hlutirnir ekki hjá okkur. Hér þögguðum við niður í konum og biðum bara af okkur róttækar hugmyndir í nokkra áratugi. En þá kom líka fjör í tuskurnar, alltént annað veifið: Rauðsokkur, kvennaframboð, Kvennalisti, kvennafrí, Vigdís Finnbogadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Höfum hátt …
Þetta er hressileg revía, saman sett af töluðum texta, leiknum atriðum og sungnum. Leiksviðið er kvenlegt og hugmyndaríkt (Íris Eggertsdóttir), gervin ýmist hárrétt eða drepfyndin (Soffía Margrét Hafþórsdóttir) og ljósahönnunin óáreitin (Lárus Heiðar Sveinsson). Tónlistin er sérstakur kapítuli. Þeir félagar syngja hvor með sínu nefi og spila á alla skapaða hluti: rokka, nærbuxur, katla og heimatilbúin strengjahljóðfæri meðal annars, og nota lög af öllu tagi og hvaða lög sem er ef þau henta. Einu sinni fengum við meira að segja að syngja með þeim – taka undir viðlagið „Að vita hvað ég vil, er málið“! Bestir af öllu finnast mér bragirnir sem eru skapaðir af mikilli leikni, orðkynngi og hagmælsku. Lagið um Bríeti var frábært, ljóðið um hana ömmu var ennþá magnaðra. Ég hafði að sjálfsögðu sérstaklega gaman af því þegar þeir sungu með væmnum röddum „Vöggukvæði róttækrar móður“ eftir Böðvar Guðmundsson yfir barnavagni! Í lokin er svo tónlistaratriði sem kom hreinlega út á mér tárum en það verður að koma áhorfendum á óvart svo ég lýsi því ekki frekar.
Eins og eðlilegt er með svona revíu voru atriðin misjöfn. Stundum fannst mér þeir fara óþarfa útúrdúra til annarra landa, sum atriðin voru gamalkunnug, önnur höfðuðu ekki til mín. En þá er að muna að ekki allir kunna skil á hinu sama og ekki hafa allir sama smekk. Óhætt er að segja að þeir félagar eru snillingar á sínu sviði og það er dauður maður sem hlær ekki að þeim þegar þeim tekst upp.
-Silja Aðalsteinsdóttir