Skiljanlegt er að kvikmynd Chaplins, The Great Dictator, freisti leikhúsmanna núna þegar valdsmenn ýmissa – jafnvel óvæntra – ríkja sýna ofsókna- og einræðistilburði. Það verður þó að hafa í huga að Chaplin vann að bíómyndinni sinni á árunum í kringum upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar, frá 1937 til 1940 þegar hún var frumsýnd; líklega hefði honum ekki fundist efniviðurinn fyndinn öllu lengur. Þeir voru ekki sérstaklega húmorískir, nasistarnir, og það er ekkert þægilegt að hlæja að ofbeldisverkum þeirra og mannhatri vitandi hvað það gekk hryllilega langt. Þess vegna er þetta núna eiginlega dálítið vont verk sem nýtt leikhúsverk.
Að því sögðu skal játað að slappstikkatriðin í sýningu Þjóðleikhússins á Einræðisherranum sem var frumsýnd á stóra sviðinu í gærkvöldi tókust mörg afar vel og eiga eflaust eftir að þjálfast ennþá meira á næstu vikum og verða ennþá hlægilegri. Og eins og glögglega kom fram í uppklappinu voru stjörnur sýningarinnar tvær: töframaðurinn Sigurður Sigurjónsson í draumahlutverki, meira að segja tvöföldu, og galdrakarlinn Karl Olgeirsson píanóleikari sem lék með höndum, munni, fótum og kroppi á allt sem heiti hefur og framkallaði hin ótrúlegustu og óvæntustu hljóð – í flugvélum, lestum, skriðdrekum og fólki þegar það er lamið eða dettur. (Horfið endilega á viðtal við hann inni á vef leikhússins og sjáið græjurnar sem hann notar.)
Sagan sem Nikolaj Cederholm endursegir upp úr bíómyndinni (og Magnea J. Matthíasdóttir þýðir) er einföld enda treysti Chaplin á annað meira í sínum verkum en flókin handrit eða dýpt frásagnarinnar. Í lok fyrri heimsstyrjaldar bjargar rakari af gyðingaættum (Sigurður Sigurjónsson) lífi flugmannsins Schultz (Hallgrímur Ólafsson). Schultz verður seinna háttsettur í her foringjans Hynkels í Tomainiu (Sigurður Sigurjónsson) og þegar foringinn fer að láta sína menn ofsækja gyðinga heldur Schultz verndarhendi sinni, ekki aðeins yfir rakaranum heldur vinahópi hans líka, kærustunni Hönnu (Ilmur Kristjánsdóttir), Jaeckel leigusala (Þröstur Leó Gunnarsson), herra Mann (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) og fleirum. Ekki losna þau samt við eilíf óþægindi af völdum illvirkja Hynkels sem ofsækja þau á allan hátt. Inn á milli senanna úr gyðingahverfinu hittum við Hynkel sjálfan og næstráðendur hans í herbúðum foringjans, Gubbels (Guðjón Davíð Karlsson), Boring (Ólafía Hrönn) og fleiri. Grátt og litlaust en afar þénugt sviðið (Kim Witzel) var þá skreytt fögrum rauðum borðum með einkennistákni flokksins.
Hynkel hyggur á heimsyfirráð og verður ekki um sel þegar hann fréttir að Napolini (Pálmi Gestsson) einræðisherra í Spaghetti hafi dregið saman mikið herlið á landamærum grannríkisins Austurlíkis. Hann býður Napolini í heimsókn til samningaviðræðna sem verða uppspretta mikils gríns. Ekki fannst mér þó vel til fundið að leika þar langt atriði á ensku, það var bæði óþarft og þreytandi. Cederholm leikstjóri hefur að öllum líkindum haft samskipti við leikarana á ensku, kannski hefur það haft sín áhrif – enskan hefur orðið sjálfsögð í hópnum. Þegar Hynkel lætur her sinn ráðast inn í Austurlíki fer hann sjálfur á veiðar í borgaralegum fötum en á sama tíma er rakarinn á flótta í stolnum einkennisbúningi og þá kemur að því sem beðið var eftir þegar þessum tveim er ruglað saman … Sigurður skiptir milli sinna tveggja ólíku persóna eins og sá sjónhverfingamaður sem hann er og verður alveg lygilega líkur Chaplin í gervi rakarans. Allir leikarar aðrir leika fjölda hlutverka og hafa orðið að þjálfa sig rækilega í að hrasa, detta, falla og hrapa á allan hugsanlegan hátt og tekst það með prýði. Auk þeirra sem þegar er getið leika Oddur Júlíusson og Sigurður Þór Óskarsson allt sem til fellur og detta af list.
Þetta er slappstikk-sýning og Cederholm hefur með sér slappstikksérfræðinginn Kasper Ravnhøj. Þar að auki er í liði hans Anja Gaardbo sem sér um sviðshreyfingar. Ekki veit ég hvernig þau skipta með sér verkum en ég ímynda mér að þau hafi öll komið að snilldaratriðum eins og flugvélarhrapinu, dansi Hynkels við jarðkúluna (sem áhorfendur fengu líka að dansa við), gyðingaballinu og veiðiferð Hynkels. Búninga hannar Line Bech og vandar sig sérstaklega við að klæða Hönnu, einu raunverulegu kvenpersónuna í verkinu. Hljóðmynd hannar Aron Þór Arnarsson en aðalmúsíkantinn er Karl Olgeirsson. Fyrir utan öll hljóðin sem hann framleiðir með græjunum sínum leikur hann alls konar lög á píanóið, meðal þeirra lögin fallegu eftir Chaplin sjálfan úr Borgarljósum og fleiri bíómyndum.
Okkur er sýnt mikið af faglegum vinnubrögðum í sýningu Þjóðleikhússins á Einræðisherranum, en þau ná langmestum áhrifum í öðru en texta. Hann gengur of langt í því að reyna að skemmta um hinn óskemmtilegasta hlut, eins og meistari Jón Vídalín sagði forðum.